Franska í boði í fjarnámi frá næsta hausti
Eins árs grunndiplómanám í frönsku verður í boði í fjarnámi frá og með næsta hausti og bætist hún þar við í fjölbreytta flóru fjarnámsleiða við Háskóla Íslands. Þá býður námsbrautin enn fremur upp á stutta námsleið í frönsku í alþjóðasamskiptum og hyggur á þróun nýrra námskeiða í samstarfi við skóla innan Aurora-samstarfsnetsins.
„Grunndiplóma í frönsku hefst á upprifjun og er tilvalið fyrir þá sem vilja bæta við „menntaskólafrönskuna“ og geta tjáð sig á frönsku. Tungumálanám er auk þess stóri plúsinn í ferilskránni og eykur möguleikana á áhugaverðri vinnu í alþjóðasamfélaginu og á alls kyns menningartengdum sviðum. Námið höfðar einnig til þeirra sem hafa brennandi áhuga á öðrum samfélögum og menningu,“ segir Ásdís Rósa Magnúsdóttir, prófessor og greinarformaður í frönskum fræðum við Háskóla Íslands.
Óhætt er að segja að nám í frönsku get nýst víða enda er hún eitt af þeim tungumálum sem gjarnan eru notuð í alþjóðasamstarfi, þar á meðal hjá Evrópusambandinu og Sameinuðu þjóðunum.
Aðspurð hvers vegna ákveðið hafi verið að bjóða upp á grunndiplóma í frönsku í fjarnámi segir Ásdís að ákvörðunin sé í takt við stefnu HÍ um aukið námsframboð í fjarnámi og endurspegli „vilja til að koma til móts við þá nemendur sem hafa ekki tök á að vera í staðnámi vegna búsetu, atvinnu eða fötlunar.“ Námsleiðirnir tvær verða þó einnig kenndar í staðnámi.
Að sögn hennar er áherslan í diplómanámi í frönsku á tungumálið sjálft, uppbyggingu þess og notkun en nemendur fái líka góða innsýn í bókmenntir, sögu og menningu Frakklands og annarra frönskumælandi landa. „Nemendur kynnast heimi þýðinga og eiga kost á tveggja vikna námsferð til Frakklands á vormisseri. Við leggjum áherslu á sjálfstæð vinnubrögð svo nemandi geti unnið sjálfur með tungumálið og tekið framförum. Grunndiplóma í frönsku er svo hægt að meta inn í áframhaldandi nám í greininni,“ segir Ásdís en námsbrautin býður einnig upp á BA-nám til 180 eininga í frönskum fræðum.
Í fjarnáminu stendur valið á milli tveggja kjörsviða, frönsku eða frönsku í alþjóðasamskiptum en sú síðarnefnda er fyrir þau sem eru lengra komin og með nokkur tök á tungumálinu. „Sú námsleið er ætluð þeim sem hafa áhuga á alþjóðasamstarfi, samskiptum Íslands og Frakklands og vilja auka færni sína í tungumálinu á þessum vettvangi,“ segir Ásdís.
Háskóli Íslands tekur þátt í Aurora-samstarfsnetinu ásamt átta öðrum evrópskum háskólum en þeir vinna m.a. að því að þróa sameiginleg námskeið á ýmsum sviðum. Franskan við Háskóla Íslands tekur þátt í því og að sögn Ásdísar er unnið að þróun námskeiða sem nýst geta nemendum við Háskóla Íslands. Þar fyrir utan eigi franskan í samstarfi við marga erlenda háskóla og nemendur í BA-námi geti tekið hluta námsins erlendis.
„Nám í frönsku er fjölbreytt, krefjandi og skemmtilegt. Tungumálanám þjálfar gagnrýna hugsun og menningarlæsi. Tungumál eru lykill að heiminum og auka jafnframt skilning á eigin menningu og veruleika,“ segir Ásdís að endingu. Nánari upplýsingar um fjarnámsleiðirnar má finna má finna á vefsíðu Háskóla Íslands.