Allir umsækjendur um BA-nám í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands þurfa að standast inntökupróf í íslensku. Hér að neðan má finna upplýsingar um lágmarkskröfur, tímasetningu, sýnipróf og annað sem tengist inntökuprófinu. Lágmarkskröfur BA-nám í íslensku sem öðru máli er námsleið fyrir nemendur með góðan grunn í íslensku, A2+ samkvæmt Evrópska Tungumálarammanum (CEFR). Aðrir geta sótt um hagnýtt nám í íslensku sem öðru máli. Í inntökuprófi fyrir BA-nám reynir á færni sem er þjálfuð í Íslensku 1, 2, 3, 4 og 5 hjá framhaldsfræðsluaðilum eins og t.d. Mími. Til að undirbúa sig fyrir prófið geta nemendur t.d. skoðað Icelandic Online (Bjargir, námskeið 1 og 2) eða bækurnar Íslenska fyrir alla 1-4. Dag- og staðsetning prófs Prófið verður 10. júní kl. 12:00 við Háskóla Íslands. Umsækjendur mæta í Háskóla Íslands eða á prófamiðstöðvar. Hér má finna lista yfir prófamiðstöðvar. Umsækjendur verða sjálfir að skrá sig í próf hjá prófamiðstöðvum og staðfesta skráninguna við Mirko Garofalo (mig@hi.is) eða Gísla Hvanndal Ólafsson (gislihva@hi.is). Þeir sem geta ekki mætt á prófastað í júní fylgja leiðbeiningum fyrir umsækjendur sem eru búsettir erlendis en innan Schengen-svæðisins (sjá neðar). Athugið að umsækjendur með kennitölu verða að útskýra hvers vegna þeir geta ekki tekið prófið á Íslandi í júní. Fyrir umsækjendur innan Evrópusambandsins og Schengen-svæðisins Umsækjendur taka prófið á netinu á milli kl. 12:00 (GMT) 10. júní og kl. 12:00 (GMT) 11. júní. Þeir sem ná netprófinu þurfa að taka það aftur í Háskóla Íslands eða prófamiðstöð á Íslandi þann 14. ágúst kl. 12:00. Að öðrum kosti geta umsækjendur tekið prófið 10. júní kl. 12:00 við HÍ eða prófamiðstöð ef þeir verða á landinu á þessum tíma. Umsækjendur án kennitölu verða að senda póst til Mirko Garofalo (mig@hi.is) eða Gísla Hvanndal Ólafssonar (gislihva@hi.is) til að láta vita hvort þeir ætla að taka prófið á netinu eða á Íslandi í júní. Minnt er á að þeir sem ná staðprófi í júní þurfa ekki að taka það aftur í ágúst. Fyrir umsækjendur utan Evrópusambandsins og Schengen-svæðisins Prófið er á netinu og nemendur geta tekið það á milli kl. 12:00 (GMT) 16. apríl og 17. apríl. Nemendur sem ná netprófinu fara í viðtal hjá prófdómara nokkrum dögum seinna. Þetta er til þess að staðfesta að umsækjandi hafi góðan grunn í íslensku og að hann hafi tekið netprófið sjálfur. Umsækjendur verða aðeins samþykktir í BA-námið ef þeir ná bæði netprófinu og sýna fram á sömu lágmarksfærni í viðtalinu. Gerð prófs Inntökuprófinu er skipt í fjóra hluta: orðaforða málfræði lestur og hlustun Prófið inniheldur 100 stig og til að ná prófinu er nauðsynlegt að fá a.m.k. 50 stig. Umsækjandi þarf að koma í prófið með eigin tölvu með íslenskri lyklaborðsuppsetningu, heyrnartól og með gilt skilríki (t.d. vegabréf, ökuskírteini). Nemendur sem taka próf í Háskóla Íslands geta óskað eftir lánstölvum hér. Sýnispróf má finna hér: Spurningablað án réttra svara. Spurningablað með réttum svörum. Hljóðskrá fyrir hlustunarhlutann. Ef umsækjandi telur að sýnisprófið sé of erfitt þá er best að hann breyti umsókn sinni og sæki í staðinn um hagnýtt nám í íslensku sem öðru máli . Prófið verður tekið í rafrænu kerfi sem heitir Inspera. Allir umsækjendur fá einnota notandanafn og lykilorð til að hafa aðgang að prófinu, líka þeir umsækjendur sem eru nú þegar nemendur HÍ. Engin hjálpargögn eru leyfð í inntökuprófinu. Fall Ef umsækjandi nær ekki inntökuprófinu getur hann: Haft samband við Nemendaskrá (admission@hi.is) eða sent skilaboð í gegnum Samskiptagáttina til að biðja um að skipta yfir í hagnýtt nám í íslensku sem öðru máli. Skráning í hagnýta námið gerir þó kröfu um það að umsækjandi sýni fram á kunnáttu sína í ensku, með TOEFL-prófi (a.m.k. 79), IELTS-prófi (a.m.k. 6.5), eða PTE Academic (a.m.k. 58). Aðrar leiðir til að uppfylla kröfur um enskukunnáttu má finna hér. Sent beiðni til Mirko Garofalo (mig@hi.is) eða Gísla Hvanndal Ólafssonar (gislihva@hi.is) til að fá að taka prófið aftur þann 14. ágúst. Undanþága fyrir nemendur úr hagnýtu námi Nemendur sem útskrifast úr hagnýtu námi í íslensku sem öðru máli við HÍ frá og með árinu 2022 og eru að sækja um BA-námið í Íslensku sem öðru máli þurfa ekki að taka inntökuprófið ef meðaltal einkunna í skyldunámskeiðum er 7.25 eða hærra. Nánari upplýsingar Nánari upplýsingar um inntökuprófið veita: Mirko Garofalo (mig@hi.is) Gísli Hvanndal Ólafsson (gislihva@hi.is). Tengt efni Um Íslensku sem annað mál Íslenska sem annað mál - Grunndiplóma Íslenska sem annað mál, BA Icelandic Online Íslenska fyrir alla 1 facebooklinkedintwitter