Skip to main content
15. júní 2024

Ávarp rektors Háskóla Íslands við brautskráningu í Laugardalshöll

Ávarp rektors Háskóla Íslands við brautskráningu í Laugardalshöll - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ávarp Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, við brautskráningu kandídata í Laugardalshöll 15. júní 2024

Fyrrverandi rektor, aðstoðarrektor, forsetar fræðasviða, deildarforsetar, starfsfólk Háskóla Íslands, kandídatar, góðir gestir nær og fjær. 

Kæru kandídatar, innilega til hamingju með árangurinn. Það eru forréttindi að fá að ávarpa svo glæstan hóp af ungu menntafólki sem lagt hefur grunn að framtíð sinni með áralangri þekkingarleit sem krefst sjálfsaga og þrautseigju. Þið hafið lagt mikið á ykkur sem mun skila sér margfalt til baka bæði fyrir ykkur og samfélagið allt. Prófskírteinið sem þið takið við á eftir er lykill að nýjum atvinnutækifærum og áframhaldandi námi hérlendis og um heim allan. Prófgráðan er jafnframt staðfesting á þeirri umbreytingu sem þið hafið öll upplifað í eigin lífi, því menntun þroskar okkur og gerir okkur kleift að láta gott af okkur leiða.

Brautskráning frá háskóla eru merk tímamót og einstök að því leyti hve margir samfagna þeim með okkur. Fyrir hönd alls starfsfólks Háskóla Íslands vil ég nota tækifærið og þakka ykkur samfylgdina á undanförnum árum. Við treystum því að þið, kandídatar góðir, hugsið til baka til námsáranna með hlýhug og stolti. Vitaskuld hefur námið verið krefjandi og andvökustundir margar, en uppskeran er sannarlega rík og góð. Leyfum þakklæti að binda saman hugi okkar og hjörtu á þessari hátíðarstund. Þannig varðveitum við það besta úr liðinni tíð og leggjum um leið grunn að enn stærri sigrum. 

Við mannfólkið erum viðkvæmar og berskjaldaðar verur sem komumst ekki á legg og þrífumst nema með stuðningi annarra. Í ljóðabók sinni Til hamingju með að vera mannleg, birtir Sigríður Soffía Níelsdóttir, fallegt ljóð um þakklætið. Hún segir m.a.

takk fjölskylda og vinir
fyrir áþreifanlegu, hlýju ástina
stuðningurinn er ósýnilegt afl
sem heldur mér uppi

Já, stuðningur ástvina er ómetanlegt afl sem þið munuð búa að löngu eftir að þið eruð farin að láta að ykkur kveða á vettvangi atvinnu- og þjóðlífs. Kandídatar góðir, stórfjölskylda ykkar hefur stækkað hér í Háskóla Íslands. Þið hafið eignast nýja vini í hópi samnemenda og kennara sem munu reynast ykkur traustir bakhjarlar í framtíðinni hvert sem leiðir ykkar liggja. Verið velkomin í hóp þeirra yfir 60 þúsund einstaklinga sem brautskrást hafa frá Háskóla Íslands allt frá stofnun hans árið 1911. Útskrifaðir nemendur skólans hafa lagt grunn að velferðar-, þekkingar- og menningarsamfélagi Íslands í áranna rás – samfélagi sem nú er einstaklega vel í stakk búið til að taka á móti framtíðinni. Það er leitun að háskóla í heiminum sem lagt hefur jafn mikið til samfélags síns og Háskóli Íslands og nýtur jafn mikils trausts hjá þjóð sinni. 

Íslendingar hafa borið gæfu til að rækta fróðleiksfýsn sína með formlegri og óformlegri menntun. Þeir hafa í aldanna rás leitað ýmissa leiða til að hefja sig yfir óblíðar aðstæður og bæta lífskjörin. Þar hefur skipt sköpum að þekkja sitt nánasta umhverfi, læra að lesa í náttúruna, bæði umhverfis okkur og í okkur sjálfum. Forverar okkar öðluðust aðdáunarverða leikni í að lesa og skilja nærumhverfið og spá fyrir um hvernig viðraði til sjós og lands út frá skýjafari og vindum. Þessi viðleitni til að hlusta á náttúruna og byggja upp farsælt mannlíf og menningu hefur náð hámarki með nútíma vísindum og fræðum. Þar blasir hvarvetna við árangurinn af starfsemi háskóla, okkar fremstu mennta- og rannsóknastofnana, og alltaf fjölgar þeim sem njóta þeirra dýrmætu gæða sem felast í háskólamenntun. 

Í sigurgöngu lífvísinda undanfarna áratugi sjáum við t.d. ljóslega hvernig samtakamáttur fjölmargra fræði- og tæknigreina stuðlar að stórbættri lýðheilsu og betri lífskjörum alls almennings. Nýlegt dæmi um þetta eru rannsóknir undir forystu tveggja vísindamanna Háskóla Íslands sem umbylt hafa lyfjagjöf við augnsjúkdómum sem herja á milljónir fólks um heim allan og var nýsköpunarfyrirtæki þeirra nýlega skráð á bandaríska Nasdaq-hlutabréfamarkaðinn. Þetta er stórkostlegur árangur! Já, vísindafólk okkar leitar sífellt nýrra leiða og lausna svo við megum halda áfram að auka velsæld og njóta til fulls þeirra ævintýra sem lífið hefur upp á að bjóða.

Kæru kandídatar, fullyrða má að nýsköpun við Háskóla Íslands hafi aldrei staðið með meiri blóma en einmitt nú, og að aldrei hafi verið jafn spennandi að starfa á vettvangi vísinda og fræða. Um vísindin gildir það sama og um vináttuna: Því meira sem af þeim er gefið því stærri verða þau. Og af nógu er að taka. Við blasa óþrjótandi ráðgátur um eðli mannlegrar vitundar og hegðunar, grunngerð veruleikans, framtíð samfélagsheilda og lífríkis, eðli þekkingar og vægi uppeldis og tómstunda og þannig mætti lengi telja.

Við stöndum nú á þröskuldi nýrra tíma og ein ástæða þess er einmitt síaukið samstarf vísindamanna af ólíkum fræðasviðum. Veruleikinn er ekki hólfaður niður eftir faggreinum og áskoranir framtíðar krefjast þess að við tökum öll höndum saman.

Kæru kandídatar. 

Stórstígar framfarir í þróun og notkun gervigreindar munu vafalítið stórefla tækifæri til þverfræðilegs samstarfs. Og gríðarleg reiknigeta ofurtölva og risastór gagnasöfn munu auka sýn okkar yfir öll svið veruleikans og samfélagsins. Háskóli Íslands hefur verið í fararbroddi hér á landi þegar kemur að því að nýta tækifæri gervigreindar og bregðast við þeim áskorunum sem henni fylgja. Sé litið til möguleikanna má þó segja að við séum vart búin að taka fyrstu skrefin í nýtingu hennar. Gervigreindin mun ekki einvörðungu umbylta rannsóknum, heldur mun hún ekki síður gerbreyta umhverfi náms og kennslu og móta nýja starfshætti háskóla. Hún mun skapa ný tækifæri til að opna háskólanám fyrir ungu fólki og auka áhuga þess á vísindum og fræðum. Við getum notað hana til að efla ráðgjöf við nemendur og laga námið enn betur að þörfum hvers og eins. Í raun má segja að nú þegar hafi hver háskólanemi fengið aðgang að eigin aðstoðarkennara í formi mállíkana gervigreindar. Og máltækni fleygir fram á sviði íslenskrar tungu og mun hún meðal annars veita innflytjendum mikilvæga aðstoð. Hér hefur íslenskt hugvit ásamt markvissum samtölum íslenskra stjórnvalda við erlend hugbúnaðarfyrirtæki skilað góðum árangri.

En gervigreindin er ekki bara eins og hvert annað hjálpartæki. Hún birtist okkur líka sem sjálfstæður veruleiki. Tækni sem virðist geta hugsað eins og við eða jafnvel hugsað fyrir okkur. Hún vekur því ekki bara vonir og væntingar heldur líka spurningar um sjálfskilning okkar sem einstaklinga og þjóðar.

Vitaskuld geta tækniframfarir orðið svo hraðar að okkur svimar við sjálfa tilhugsunina. Við vitum einnig af biturri reynslu styrjalda og átaka að því fer fjarri að tækniframförum fylgi sjálfkrafa aukinn siðferðisþroski. Og enn á ný blása því miður vályndir vindar um jarðkringluna og mannvonska þrífst víða. Við sem vijum helga líf okkar leitinni að þekkingu, skilningi og frelsi treystum því að stríð og sundrung spilli ekki þroskabraut mannsins til frambúðar. Við minnumst orða skáldsins frá Fagraskógi, Davíðs Stefánssonar, um að „illgresi skal eyða með, öðrum betri gróðri“. Við trúum því staðfastlega að vísindi og traust skynsemi, leiðarljós varanlegra framfara, muni sigra að lokum. En til að svo megi verða þurfum við ávallt að hlúa að grunngildunum sem eru innsti kjarni menntunar og sjálfrar mennskunnar, sannleiksástinni, frelsinu og réttlætinu. 

Kæru kandídatar, í byrjun júní kusu Íslendingar sér nýjan forseta fyrir okkar unga lýðveldi sem nú fagnar áttatíu ára afmæli. Aldrei hafa jafn margir boðið sig fram til embættis forseta og umræðurnar hafa sjaldan verið fjörlegri og þeim miðlað með jafn fjölbreyttum hætti. Kosningabaráttan gaf okkur dýrmætt tækifæri til að staldra við og huga að því sem sameinar okkur og við viljum að framtíð okkar byggist á. Það er mikils virði að búa í landi þar sem val um þau sem við kjósum til forystu fyrir okkar hönd fer friðsamlega fram og við öll unum lýðræðislegri niðurstöðu. Við óskum Höllu Tómasdóttur til hamingju með kjörið og óskum henni velfarnaðar í þessu mikilvæga starfi. Á sama tíma bjóðum við fráfarandi forseta, Guðna Th. Jóhannesson, prófessor í sagnfræði, velkominn aftur til starfa við Háskóla Íslands. Einnig vil ég á þessari stundu þakka Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra, innilega fyrir hennar stuðning við starf Háskóla Íslands á undanförnum árum. Sá stuðningur hefur skipt okkur mjög miklu máli.

Kæru kandídatar, nú fögnum við brautskráningu ykkar. Eg óska ykkur og fjölskyldum ykkar innilega til hamingju með stóráfangann sem þið hafið nú náð. Þið megið sannarlega vera stolt af árangri ykkar undanfarin ár. 

Ég veit að ég tala fyrir hönd kennara ykkar og starfsfólks Háskóla Íslands þegar ég óska ykkur einlæglega alls hins besta um ókomin ár. 

Nú bíða ykkar ný og spennandi tækifæri og ótal áskoranir sem þið eruð vel í stakk búin til að takast á við og munið vaxa af hvert og eitt ykkar. Þið hafið því sannarlega ríka ástæðu til að fagna í dag og líta björtum augum fram á veginn. 

Látið gott af ykkur leiða. Með góðan ásetning og einlægan vilja getið þið gengið fagnandi til móts við framtíðina og notið líðandi stundar. Njótið dagsins og samverunnar. 
 

Jón Atli Benediktsson ávarpar gesti á brautskráningu í dag.