Skip to main content
28. október 2024

Nærri 300 fengu afhent brautskráningarskírteini frá HÍ á föstudag

Nærri 300 fengu afhent brautskráningarskírteini frá HÍ á föstudag - á vefsíðu Háskóla Íslands

Gleðin var allsráðandi í Aðalbyggingu á föstudag þegar Háskóli Íslands brautskráði kandídata í þriðja sinn á árinu. Að þessu sinni tóku 296 við brautskráningarskírteini sínu úr grunn- og framhaldsnámi. 

Ekki var um formlega brautskráningarathöfn að ræða frekar en undanfarin ár í október en í staðinn bauðst brautskráningarkandídötum að sækja prófskírteini sitt í Hátíðasal Aðalbyggingar. Mjög margir kandídatar nýttu sér þetta tækifæri og mættu prúðbúnir í Aðalbyggingu, sumir hverjir ásamt fjölskyldum sínum sem fögnuðu með þeim mikilvægum áfanga og góðu verki.

Þeir kandídatar sem útskrifuðustu á föstudag bætast í hóp 420 kandídata sem brautskráðust í Háskólabíói í febrúar síðastliðnum og einnig tóku 2.652 kandídatar á móti skírteinum sínum í Laugardalshöll í sumar. Skólinn hefur því samanlagt brautskráð 3.368 kandídata úr grunn- og framhaldsnámi á árinu 2024.

Háskóli Íslands sendir nýbrautskráðum kandídötum innilegustu hamingjuóskir með áfangann og óskar þeim alls hins besta í því sem nú tekur við.

Kandídat með foreldrum sínium