Sjöundármálin frá sjónarhóli Bjarna Bjarnasonar
Út er komin bókin Dauðadómurinn eftir Steinunni Kristjánsdóttur. Í henni segir Bjarni Bjarnason, sem kenndur er við Sjöundá á Rauðasandi, frá lífi sínu en Bjarni var tekinn af lífi fyrir morð árið 1805. Sjöundármál eru almenningi vel kunn en þeim hefur margsinnis verið lýst út frá sjónarhorni yfirvalda. Í bókinni segir Bjarni hins vegar sjálfur frá æviskeiði sínu um leið og lífshlaup hans er tengt við tíðaranda 18. aldar. Frásögnin endar á aftöku Bjarna í Kristiansand í Noregi.
Steinunn Kristjánsdóttir er prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Eftir hana liggja verðlaunabækurnar Sagan af klaustrinu á Skriðu (2012) og Leitin að klaustrunum (2017) sem Sögufélag gaf út. Þá gaf Routledge út bók hennar Monastic Iceland (2023). Háskólaútgáfan gefur bókina um Bjarna út en hún byggir á rannsókn Steinunnar á aftökum eftir siðaskipti á Íslandi.
Í spilurunum hér að neðan er hægt að hlusta á upplestur Guðjóns Andra Jóhannssonar, nema í fornleifafræði, á köflum úr bókinni.