Skip to main content
5. desember 2024

Dagur sjálfboðaliðans - 5. desember

Dagur sjálfboðaliðans - 5. desember  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Dagur sjálfboðaliðans er 5. desember en innan Deildar menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði HÍ hefur undanfarin ár verið boðið upp á spennandi námskeið sem ætlað er hvetja nemendur til að hafa áhrif á nærsamfélag sitt og tengja sjálfboðastarf við fræðilega ígrundun. Námskeiðið ber heitið Sjálfboðaliðastarf: Verkefni tengd menntun og velferð og var sett á laggirnar fyrir sex árum að frumkvæði Kolbrúnar Þ. Pálsdóttur, sviðsforseta Menntavísindasviðs, í kjölfar þess að Rauði krossinn nálgaðist sviðið og óskaði eftir samstarfi. Ragný Þóra Guðjohnsen, dósent í uppeldis- og menntunarfræði, mótaði námskeiðið á grunni doktorsverkefnis síns um borgaralega þátttöku ungs fólks og eigin reynslu af sjálfboðastarfi hérlendis og erlendis.

Eva Harðardóttir, lektor við Deild menntunar og margbreytileika, er kennari og umsjónarmanneskja námskeiðsins auk þess sem hún hefur einnig komið að þróun þess. „Markmið námskeiðsins er að skapa nemendum tækifæri til að hafa samfélagsleg áhrif á nærumhverfi sitt á sama tíma og við köfum ofan í fræðilegri kima sjáflboðaliðastarfsins meðal annars á grunni hugmynda um félagslegt réttlæti, hnattræna borgaravitund, virkni og þátttöku. Námskeiðið þróaðist áfram með aðkomu Susan Gollifer, lektors við Menntavísindasvið, sem hafði fengið styrk til þess að þróa samfélagsverkefni í samvinnu við starfsfólk og nemendur úr námsleiðinni alþjóðleg menntunarfræði við Menntavísindasvið HÍ. Þannig jókst breidd nemendahópsins sem sækir námskeiðið sem er bæði kennt á íslensku og ensku. Í námskeiðinu er lagt upp með að virkja sem flest til þátttöku á grunni fjölmenningarlegrar og skapandi nálgunar,“ segir Eva.

Samstarfið við Rauða krossinn hefur þróast með hverju árinu en fyrir tveimur árum tók Sigurbjörg Birgisdóttir við stöðu verkefnastjóra sjálfboðaliða hjá Rauða Krossinum. Sigurbjörg er mikilvægur tengiliður við námskeiðið og sér um kynningu á verkefnum Rauða krossins, gildum og hugsjónum auk þess að sinna eftirfylgni við nemendur í sjálfboðaliðastarfinu sjálfu.

„Þau (nemendurnir) hafa líka sagt okkur að þau upplifi aukið sjálfstraust og vellíðan, séu stolt af þátttöku sinni og að það hafi komið þeim á óvart að sjálfboðastörf tækju ekki meiri tíma.“

„Samstarfið við Menntavísindasvið hefur verið mjög spennandi og árangursríkt. Það er gaman að starfa með sjálfboðaliðum sem eru, samhliða sjálfboðastörfum sínum, að ígrunda þátttöku sína og áhrifin á þau sjálf og samfélagið. Við höfum heyrt frá nemendum að þau bæti við reynsluheim sinn í gegnum sjálfboðastarfið, kynnist fólki og aðstæðum sem þau annars myndu kannski ekki kynnast. Það eykur víðsýni og umburðarlyndi gagnvart viðkvæmum og jaðarsettum hópum í samfélaginu okkar. Þau hafa líka sagt okkur að þau upplifi aukið sjálfstraust og vellíðan, séu stolt af þátttöku sinni og að það hafi komið þeim á óvart að sjálfboðastörf tækju ekki meiri tíma. Fyrir okkur hjá Rauða krossinum er líka mikilvægt að tengjast háskólasamfélaginu og fjölbreyttum fræðasviðum. Við trúum því að það sé gagnkvæmur ávinningur af samstarfinu, m.a. því að nemendurnir koma með þekkingu sína og reynslu í starfið en við fáum einnig tækifæri til að kynna fyrir þeim grunngildi Rauða krossins og hvernig einstaklingar geta haft jákvæð áhrif á samfélag sitt í gegnum mannúðarstarf. Við viljum að sjálfboðaliðahópurinn okkar endurspegli samfélagsgerðina og nemendur HÍ eru mikilvægur hópur,“ segir Sigurbjörg.

Eva Harðardóttir segir samstarfið við Rauða krossinn vera afar dýrmætt og skili sér í aukinni þekkingu og skilningi nemenda á fjölbreytileika samfélagsins og þeim möguleikunum sem standa þeim til boða til áhrifa. Verkefnin hafi orðið fjölbreyttari með árunum og þörfin fyrir ýmiss konar sjálfboðaliðastarf aukist.

„Við fylgjum nemendum vel eftir í námskeiðinu. Hjálpum þeim að ígrunda eigin reynslu, tengja hana við fræðin og miðla áfram. Góð ígrundun og opin samræða hefur sýnt sig að skiptir sköpum fyrir nemendur til að skapa reynslunni í sjálfboðastarfinu dýpri fræðilegri og persónulegri merkingu. Langflest ætla sér að halda áfram að starfa sem sjálfboðaliðar eftir að námskeiðinu lýkur. Þau telja starf Rauða krossins samræmast eigin gildum og hafa upplifað ýmsar jákvæðar breytingar á sjálfum sér og umhverfinu við það að starfa sem sjálfboðaliðar,“ segir Eva að lokum.

„Ég tel mig hafa gefið sjálfri mér mikilvægt tækifæri til að vaxa og þroskast sem manneskja við það hafa tekið þátt í þessu sjálfboðaliðaverkefni.

Nemendur námskeiðsins hafa lýst þátttöku sinni sem umbreytandi reynslu. Hér á eftir fara lýsingar nemenda sem veittu leyfi til birtingar:

Nemandi A: „Ég tel mig hafa gefið sjálfri mér mikilvægt tækifæri til að vaxa og þroskast sem manneskja við það hafa tekið þátt í þessu sjálfboðaliðaverkefni og hver veit - jafnvel verið góð fyrirmynd fyrir börnin mín í leiðinni.“

Nemandi B: „Á námskeiðinu hjá Rauða krossinum fékk ég innsýn inn í hvað ég ætti að hafa í huga og taka með mér inn í samskipti við fólk sem hefur fjölbreytta reynslu. Einnig voru kynnt fyrir okkur grunngildi Rauða krossins sem byggja m.a. á mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi og sjálfstæði (Rauði krossinn, e.d.-a). Gildin rímuðu vel við það sem ég hafði hugsað mér þegar ég fór að hugsa um að gerast sjálfboðaliði.“ 

Nemandi C: „Það hefur sannarlega verið lærdómsríkt að fá þetta tækifæri til að kynnast öllum þessum ólíku einstaklingum og þeirra upplifun af því að dvelja eða setjast að á Íslandi. Það er gott að minna sig á að hingað eru ekki öll komin vegna þess að þau hafi valið sér það.“ 

Nemandi D: „Ég hef upplifað gleði og vellíðan og mér hefur fundist ég vera að leggja eitthvað gott til  samfélagsins. Ég hef einnig upplifað sjálfseflingu og mér finnst mér hafa verið sýnt mikið traust bæði af starfsfólki Rauða krossins og þeim sem ég hitti í verkefninu. Rannsóknir hafa sýnt að þátttaka ungmenna í sjálfboðaliðastarfi eða öðru ungmennastarfi getur haft jákvæð áhrif ýmsa aðra þætti, s.s. leiðtogahæfni, félags- og samskiptahæfni, skipulagshæfni, hæfni til að vinna í teymi og til að tala fyrir framan hóp fólks. Það er óhætt að segja að upplifun mín samræmist þessum niðurstöðum.“

Eva Harðardóttir, Ragný Þóra Guðjohnsen, Sigurbjörg Birgisdóttir, Susan Gollifer  og Þorsteinn Valdimarsson, verkefnastjóri í málefnum fólks á flótta hjá RKÍ.