Skip to main content
28. janúar 2015

Margþætt störf hjúkrunarfræðinga kynnt á krossgötum

„Á krossgötum“, kynningardagur nemenda á lokaári BS-náms í hjúkrunarfræði við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, fór fram sjötta sinn í Eirbergi þann 23. janúar sl. Fjöldi fólks lagði leið sína í Eirberg til þess að kynna sér fjölbreyttan starfsvettvang hjúkrunarfræðinga.

Þar kenndi ýmissa grasa og gátu gestir og gangandi m.a. kynnt sér hjúkrun í tengslum við endurhæfingu, hjálparstarf erlendis, nýburagjörgæslu, Frú Ragnheiði - skaðaminnkunnarverkefni Rauða krossins og hunda sem notaðir eru til hjúkrunarmeðferðar. Einnig var kynning á framhaldsnámi í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild og fulltrúar heilbrigðisstofnana og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga lýstu sinni starfsemi.

Verðlaun voru veitt fyrir besta kynningarbásinn en þar var hópur sem kynnti starfsemi vökudeildar hlutskarpastur. Hluti sigurliðsins hefur verið í verknámi á vökudeild Barnaspítala Hringsins en þar er starfrækt nýburagjörgæsla. Ein þeirra sem stóð að kynningunni var Margrét Inga Gísladóttir en hún hefur verið í verknámi á sængurlegudeild þar sem hún kynntist störfum vökudeildar. „Starfsfólk vökudeildar lánaði okkur ýmsa hluti, t.d.  bleiur, snuð, þvagleggi, æðaleggi, blóðþrýstingsmansettur, sondu, fatnað og vöggur. Þá útbjuggum við m.a. grjónapoka í sömu þyngd og minnsti fyrirburi sem lifað hefur í heiminum vó við fæðingu eða 244 grömm,“ lýsir Margrét og segir að almenningur hafi verið mjög áhugasamur um starfsemi vökudeildar.

Hópurinn undirbjó kynningu sína afar vel, var með reynslusögur frá foreldrum fyrirbura og kynnti sér sýn þeirra sem notið hafa starfa hjúkrunarfræðinga á deildinni. Til að gefa betri mynd af starfseminni voru sett upp tvö ólík tilfelli á básnum. „Annað var fullburða barn sem hafði fengið barnabiksásvelgingu í fæðingu og var með sýkingu í lungum. Hitt tilfellið var lítill fyrirburi sem þurfti t.d. að fá öndunaraðstoð í svokallaðri CPAP-vél og næringu í gegnum sondu. Við fræddum gesti um þá hjúkrun sem er veitt í slíkum tilfellum og hversu mikil áhersla er lögð á fjölskylduhjúkrun á vökudeild en það getur reynst mikið áfall fyrir foreldra að eignast fyrirbura eða veikt barn,“ segir Margrét sem stefnir ótrauð á frekara nám í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands.

Margrét kveðst ánægð með grunnnámið í hjúkrunarfræði. „Ég er búin að læra ótrúlega margt og ýmislegt hefur komið mér á óvart. Ég hef ekki hvað síst lært mikið um sjálfa mig,“ segir Margrét sem hlakkar til útskriftarferðarinnar í vor en áætlað er að annar hópurinn fari til Mexíkó og Kúbu og hinn suður til Spánar.

Kynningardagurinn er liður í námskeiðinu Hjúkrun sem starfs- og fræðigrein en tilgangur námskeiðsins er að auka innsýn og skilning nemenda á þáttum sem hafa áhrif á störf og starfsþróun hjúkrunarfræðinga.

Að venju stóðu nemendur fyrir kaffisölu til styrktar útskriftarferð þeirra í vor.

Krossgötur 2015
Krossgötur 2015
Hjúkrunarfræðinemar og hundar
Krossgötur 2015
Krossgötur 2015
Ólöf og Brynja
Kaffisala nemenda