Skip to main content
11. mars 2015

Öndvegissetur um loftgæði og lýðheilsu fær risastyrk

""

Vísindamenn við Háskóla Íslands og Landspítala eru aðilar að nýju norrænu öndvegissetri um loftgæði og lýðheilsu sem fékk á dögunum ríflega 500 milljóna króna styrk frá NordForsk, stofnun sem hefur umsjón með rannsóknasamstarfi á Norðurlöndum.

Alls bárust 86 umsóknir um styrki til NordForsk vegna áætlunar sem snýr að heilsu og velferð á Norðurlöndum (Nordic Programme on Health and Welfare). Fram kemur á heimasíðu NordForsk að margar umsóknanna hafi verið afar góðar og hlutu fimm rannsóknarverkefni styrk að þessu sinni, samtals að upphæð 140 milljónir norskra króna, jafnvirði tæplega 2,4 milljarða íslenskra króna. Öndvegissetur um loftgæði og lýðheilsu er eitt þeirra og hlýtur styrk að upphæð 30 milljónir norskra króna, jafnvirði um 510 milljóna króna, á fimm árum.

Að öndvegissetrinu kemur hópur norrænna vísindamanna undir forystu umhverfisfræðinga í Danmörku.  Það hefur fengið nafnið ADHIW, sem stendur fyrir Understanding the link between Air pollution and Distribution of related Health Impacts and Welfare in the Nordic countries. Hugmyndin á bak við það byggist á þeim einstöku aðstæðum sem norrænu ríkin hafa til að tengja uppsprettu, eðli og magn loftmengunar við upplýsingar um heilsufar, sjúkdóma, lyfjanotkun og dánarorsök þeirra sem fyrir menguninni verða.  Það gefur mikilvægar upplýsingar um umfang vandans og möguleg áhrif á heilsu mismunandi hópa, sem aftur gerir mögulegt að áætla kostnað heilbrigðis- og velferðarkerfisins vegna þessa. Upplýsingarnar eru einnig mikilvægar vegna aðgerða til að draga úr loftmengun. Niðurstöður rannsóknanna munu ekki aðeins koma að gagni á Norðurlöndum heldur um allan heim, en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, staðhæfir að loftmengun valdi nú mestum heilsuskaða allra umhverfisþátta.

Við Háskóla Íslands hafa um árabil verið stundaðar rannsóknir á áhrifum loftmengunar á heilsufar, m.a. undir stjórn Þórarins Gíslasonar, prófessors við Læknadeild og yfirlæknis á lungnadeild Landspítala.  Háskólinn mun koma að mörgum þáttum þessa víðfeðma fimm ára öndvegisseturs með þátttöku lungnadeildar Landspítala, Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum, námsbrauta í umhverfis- og auðlindafræði og landfræði og Stofnunar Sæmundar fróða. 
 

Áhersla hins nýja öndvegisseturs er á loftgæði og lýðheilsu.
Áhersla hins nýja öndvegisseturs er á loftgæði og lýðheilsu.