Skip to main content
23. mars 2015

Háskólatorg undirlagt af áhuga og þekkingu á heilsu

Fjölmargir lögðu leið sína á Háskólatorg fimmtudaginn 19. mars sl. en þá var Heilsudagur sviðsráðs Heilbrigðisvísindasviðs (SHÍ) haldinn í fyrsta sinn. Í boði voru ýmsir viðburðir, fyrirlestrar og kynningar þar sem heilsutengd málefni voru í brennidepli.

Fullt var út úr dyrum á pallborðsumræðum í Stúdentakjallaranum en þar sátu sérfræðingar á sviði næringar- og læknisfræði fyrir svörum. Tekist var á um nokkrar umdeildar staðhæfingar tengdar heilsu, s.s. notkun náttúrulyfja, erfðabreytt matvæli, glútenóþol og margt fleira.

Kynningar á námi og margs konar heilbrigðisþjónustu fóru fram á Háskólatorgi. Þar kenndi ýmissa grasa og gáfu nemendur í sjúkraþjálfun starfsfólki háskólans m.a. ráðleggingar um líkamsbeitingu við tölvuna. Nemendurnir stóðu jafnframt fyrir sýnikennslu um það hvernig draga má úr stoðkerfisvanda með einföldum æfingum.

Fulltrúar frá Hlíf, áhugafélagi hjúkrunarfræðinema, fræddu gesti og gangandi um hugmyndafræðina að baki skaðaminnkun en markhópur félagsins eru jaðarsettir einstaklingar, t.d. heimilislausir og fíkniefnaneytendur. Þjónustan sem Hlíf veitir er að stórum hluta fólgin í fræðslu um ábyrga notkun sprautubúnaðar og getnaðarvarna.

Háfit sem býður upp á fag­lega fjarþjálf­un fyr­ir nem­end­ur og starfs­fólk háskólans kynnti sína starfssemi. Starfsmenn Háfit eru útskrifaðir nemendur í næringarfræði, íþróttafræði og sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands. Fjarþjálfuninni hefur verið tekið fagnandi og er hún sér­stak­lega hönnuð með þarf­ir nú­tíma­mannsins í huga. Æfingar eru stuttar og mataráætlanir gera ráð fyrir ódýrum mat sem auðvelt er að útbúa.

Auk þess voru kynningar frá öllum deildum Heilbrigðisvísindasviðs, Sálfræðiþjónustu háskólanema, Heilsutorgi háskólanema, nokkrum félagasamtökum og fyrirtækjum.

Botninn á Heilsudeginum var sleginn með áhugaverðum fyrirlestri Karls Andersen, hjartasérfræðings og prófessors við Læknadeild Háskóla Íslands, um lífsstílstengda sjúkdóma.

Ljóst er að margir gestir gengu út með hagnýtan fróðleik í farteskinu sem vonandi stuðlar að bættri heilsu og betri líðan.

Sviðsráð Heilbrigðisvísindasviðs (SHÍ) þakkar öllum þeim, sem lögðu leið sína á Háskólatorg á Heilsudaginn, kærlega fyrir komuna og hyggst endurtaka leikinn að ári.

Hér má sjá myndir frá Heilsudeginum.

Háskólatorg iðaði af lífi á Heilsudeginum þegar nemendur Heilbrigðisvísindasviðs kynntu nám sitt og ýmsa heilsutengda þjónustu.