Áhugasöm leikskólabörn lífguðu upp á Læknagarð
Upplestrarfríum og prófatörnum í háskólum fylgir gjarnan lítill hávaði og umgangur. Það var því óvænt og skemmtileg uppákoma í Læknagarði í síðustu viku þegar fimmtán leikskólabörn gengu skyndilega inn. Nemendur á tanntæknabraut tóku þar á móti útskriftarárgangi leikskólans Garðaborgar og buðu honum í heimsókn á klíník Tannlæknadeildar Háskóla Íslands.Tilgangur heimsóknarinnar var að kynna fyrir börnum hvað er gert hjá tannlækni og skapa ánægjulega upplifun af slíkri heimsókn.
Tannlæknahræðsla er ekki óalgeng hjá börnum og því er brýnt að undirbúa þau vel fyrir fyrstu ferðina til tannlæknis. Berglind Þrastardóttir, tanntæknanemi og þátttakandi í verkefninu, segir að börn séu oft á tíðum smeyk og spennt í upphafi heimsóknar. „Oft er hræðslan komin frá foreldrum sem búa jafnvel sjálfir yfir slæmri reynslu. Þegar svo ber undir, er afar mikilvægt að yfirfæra ekki hræðsluna á börnin. Ég er þeirrar skoðunar að stundum sé betra að leyfa tannlækninum að vera einn með barninu og foreldrar bíði frammi.“ Berglind telur að best sé fyrir tannlækna að nálgast börn á jafningjagrundvelli, spjalla og fá þau til samvinnu. Þá sé reynt að höfða til þeirra með því að undirstrika að það sé gaman að vera með flottar og heilbrigðar tennur.
Ekki var annað að sjá en heimsóknin hefði tilætluð áhrif því áhugi og gleði skein úr hverju andliti. Sumir höfðu aldrei farið til tannlæknis áður og nutu sín við að prófa „stólinn“, „vatnsbyssuna“ og „ryksuguna“. Þá var tannsmíðaverkstæði opnað þar sem m.a. var hægt að skoða gervitennur og sitthvað annað forvitnilegt. Heimsóknin endaði á myndbandi um þá félaga, Karíus og Baktus, og afhendingu gjafapoka sem höfðu að geyma lítið saltað poppkorn og barm- og endurskinsmerki. Áður en börnin héldu heim á leið, reynslunni ríkari eftir viðburðaríkan dag, kvöddu þau starfsfólk Læknagarðs með fjöldasöng.
Undanfarið hafa tólf tanntæknanemar verið í verknámi við Tannlæknadeild en bóklegi hluti námsins er kenndur við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Ásthildur Dóra Kristjánsdóttir tannfræðingur er upphafsmaður verkefnisins en nemendur hennar hafa boðið leikskólabörnum í heimsókn á Tannlæknadeild síðan 1998. Sannarlega þarft samfélagsverkefni frá flottum nemendum.