Skip to main content
26. maí 2015

Rannsóknir á svefnlyfjanotkun Íslendinga

""

Meistaranemendur í lyfjafræði við Háskóla Íslands vörðu lokaverkefni sín til MS-prófs þann 13. maí síðastliðinn í Öskju. Nemendur fluttu stuttar kynningar um verkefni sín og voru viðfangsefnin af ýmsum toga. Tvö þeirra fjölluðu um svefnlyfjanotkun Íslendinga og nutu nemendurnir, sem unnu þau, báðir leiðsagnar Lárusar S. Guðmundssonar, lektors við Lyfjafræðideild. Í niðurstöðum þessara rannsókna kemur fram að notkun á svefnlyfjum er algengari meðal kvenna. Enn fremur eiga Íslendingar þann vafasama heiður að vera Norðurlandameistarar í notkun á svefnlyfjum sem er í samræmi við fyrri rannsóknir.

Stærri skammtar og lengri meðferð
„Vísbendingar eru um að meðferðartími hafi lengst og skammtar lyfjanna stækkað,“ segir Ása Guðrún Guðmundsdóttir, MS-nemi í lyfjafræði. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem hún kynnti á lokaverkefnisdeginum en verkefni hennar ber heitið „Umframnotkun róandi- og svefnlyfja á Íslandi á árunum 2003-2013.“ Í rannsókninni kemur fram að umframnotkun svefnlyfja jókst á tímabilinu en með umframnotkun er átt við það sem tekið er af lyfi umfram það sem ráðlagt er. Ása segir að ýmsar mögulegar skýringar kunni að liggja að baki þessari hækkun. „Sú fyrsta sem kemur upp í hugann, er niðurskurður og álag í heilbrigðiskerfinu. Þetta getur leitt til þess að læknar hafi minni tíma til að fylgja sjúklingum eftir og skrifi jafnvel upp á fjölnota lyfseðla. Þegar að svefnlyfjameðferð er orðin löng og/eða skammtar eru stærri en ráðlagt er getur það bent til rangrar meðferðar. Undirliggjandi sjúkdómur getur leitt til svefnleysis og mikilvægt er að hann sé meðhöndlaður. Svefn- og róandi lyf eru ávanabindandi og þar af leiðandi er ákveðinn hætta á misnotkun. Einnig tel ég auðveldan aðgang að endurnýjun lyfseðla geta haft mikil áhrif,“ segir Ása og telur þetta alvarlegt vandamál í heilbrigðiskerfinu sem þurfi að bregðast við. 

Algengara að konur noti svefnlyf 
„Svefnvandamál er eitt algengasta heilsufarsvandamál Íslendinga og eru svefnlyf mikið notuð hér á landi,“  segir Tinna Arinbjarnardóttir, MS-nemi í lyfjafræði og ein þeirra sem kynnti verkefni sitt. Tinna varð mikið vör við ofnotkun á svefnlyfjun þegar hún starfaði í apóteki en það hafði áhrif á val hennar á viðfangsefni fyrir lokaverkefnið „Er nýgengi og notkun svefnlyfja breytilegt eftir landssvæðum, aldri og kyni?“. „Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til að nýjum notendum svefnlyfja hafi fækkað í aldurshópunum 40-79 ára sem er afar jákvæð þróun. Aftur á móti hefur nýgengið hækkað hjá yngra fólki sem er varhugavert og þarf að athuga betur. Þá kemur einnig fram að nýgengi notkunar á svefnlyfjum var hærra meðal kvenna í öllum aldurshópum,“ útskýrir Tinna en stuðst var við gögn úr lyfjagagnagrunn Embætti landlæknis. Aðspurð hvers vegna konur noti meira af svefnlyfjum en karlar segir Tinna að engin einföld skýring sé til á því. „Rannsóknir hafa sýnt að svefnleysi er algengara meðal kvenna en karla. Skýringarnar geta verið margar, meðal annars líf-, sál- og félagsfræðilegar. Þá hafa nokkrar rannsóknir sýnt að konur kvarta hugsanlega frekar yfir líkamlegum einkennum kvíða og þunglyndis, sem eru meðal annars verkir og svefnleysi, og leita sér frekar hjálpar,“ segir Tinna að lokum og kveðst afar spennt að hefja störf sem lyfjafræðingur. 

Alls ljúka níu nemendur tveggja ára MS-námi í lyfjafræði í vor og hafa þeir allir fengið vinnu í sumar við sitt fag. 

Svefnvandamál er eitt algengasta heilsufarsvandamál Íslendinga og eru svefnlyf mikið notuð hér á landi samanborið við aðrar Norðurlandaþjóðir.
Kynntu rannsóknir á svefnlyfjanotkun Íslendinga á lokaverkefnisdegi MS-nema í lyfjafræði. Frá vinstri: Ása Guðrún Guðmundsdóttir og Tinna Arinbjarnardóttir.
Svefnvandamál er eitt algengasta heilsufarsvandamál Íslendinga og eru svefnlyf mikið notuð hér á landi samanborið við aðrar Norðurlandaþjóðir.
Kynntu rannsóknir á svefnlyfjanotkun Íslendinga á lokaverkefnisdegi MS-nema í lyfjafræði. Frá vinstri: Ása Guðrún Guðmundsdóttir og Tinna Arinbjarnardóttir.