Sex styrkir til verkefna á Heilbrigðisvísindasviði
Fjórir doktorsnemar og tveir vísindamenn á Heilbrigðisvísindasviði hlutu styrki til verkefna úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og Háskólasjóði h/f Eimskipafélag Íslands þann 20. maí síðastliðinn. Alls fengu 25 doktorsverkefni við Háskóla Íslands styrki að þessu sinni.
Styrkirnir eru meðal annars veittir til rannsóknaverkefna í læknisfræði, lyfjafræði, lýðheilsuvísindum og líffræði.
Styrkþegar og verkefni þeirra eru:
Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild hlaut styrk úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands fyrir verkefnið „Náttúruefni sem lyfjasprotar gegn taugahrörnunarsjúkdómum – fjölþátta nálgun á verkunarmáta.“
Um verkefnið
Lífvirk náttúruefni gegna lykilhlutverki í meðferð margra erfiðra sjúkdóma, þar á meðal taugahrörnunarsjúkdóma á borð við Alzheimers-sjúkdóminn. Flest Alzheimers-lyf sem notuð eru í dag verka með því að hindra kólínesterasa ensímið sem brýtur niður taugaboðefnið asetýlkólín í heilanum. Lyfin hægja á framgangi sjúkdómsins en gagnast ekki þegar hann ágerist. Mikil þörf er á betri lyfjum með minni aukaverkanir. Nýlega varð ljóst að viðtakar í heila, sem nefnast nikótín asetýlkólín viðtakar (nAChRs), tengjast Alzheimers-sjúkdómsmyndinni og lyfjaþróun beinist í vaxandi mæli að efnum sem hafa fjölþætt áhrif á þessa viðtaka auk þess að vera kólínesterasa ensímhindrar. Markmið þessa verkefnis er að rannsaka áhrif náttúruefna, meðal annars úr íslenskum jöfnum og sjávarlífverum, á áðurnefnd ensím og viðtaka og leita efna með fjölþátta verkunarmáta. Langtímamarkmið væri að uppgötva lyfjasprota til frekari þróunar gegn Alzheimers-sjúkdómnum eða öðrum taugahrörnunarsjúkdómum.
Emma Marie Swift, doktorsnemi í lýðheilsuvísindum við Hjúkrunarfræðideild hlaut styrk úr Rannsóknasjóði Íslands fyrir verkefnið „Að efla eðlilegar fæðingar á Íslandi – rannsókn um fæðingarótta og viðhorf til notkunar tækni í fæðingum Promoting normal birth in Iceland“.
Um verkefnið
Framfarir í tækniþróun hafa aukið lífslíkur mæðra og barna en nýlega hafa verið settar fram spurningar um hvort aukin valkvæð inngrip geti haft skaðleg áhrif á móður og barn. Í þessari doktorsrannsókn er ætlunin að lýsa með faraldsfræðilegum aðferðum þróun fæðingarinngripa meðal allra kvenna á Íslandi síðastliðin 25 ár. Jafnframt auka við þekkingu á viðhorfum og væntingum kvenna til fæðinga og valkvæðra fæðingarinngripa með sérstaka áherslu á hvort fæðingarótti hafi áhrif á viðhorf og væntingar íslenskra kvenna. Sú þekking verður nýtt til að aðlaga nýja nálgun í mæðravernd íslenskum aðstæðum. Nálgunin felur í sér hópumönnun innan mæðraverndar með áherslu á fræðslu og stuðning til að minnka ótta og efla jákvætt viðhorf til eðlilegra fæðinga.
Leiðbeinendur eru Helga Gottfreðsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild, og Helga Zoéga, dósent við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Læknadeild.
Ingileif Jónsdóttir, prófessor við Læknadeild hlaut styrk Rannsóknasjóði Háskóla Íslands fyrir verkefnið „Kerfislíffræðileg greining á eflingu ónæmissvara nýbura“.
Um verkefnið
Ónæmiskerfi nýbura er vanþroskað sem veldur aukinni hættu á sýkingum og lélegum ónæmissvörum við bólusetningum. Í verkefninu verður kerfislíffræðilegri nálgun beitt og örflögutækni notuð til að mæla tjáningu allra erfðavísa í vefjum nýburamúsa einum til fjórum sólarhringum eftir bólusetningu með og án ónæmisglæða. Heildarmynstur genatjáningar verður ákvarðað í vef á stungustað, í eitlum og milta og ónæmissvör verða mæld. Þessi kerfislíffræðilega nálgun, sem sameinar heildstæða kortlagningu genatjáningar og greiningu á svipgerð og starfsgetu ónæmisfrumna, er nýstárleg og mun auka skilning á því hvernig má yfirvinna takmarkanir í ónæmissvörum nýbura. Niðurstöðurnar munu stuðla að þróun betri bóluefna og bólusetningaleiða fyrir ungviði.
Remina Dilixiati, doktorsnemi við Læknadeild hlaut styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélag Íslands fyrir verkefnið „Umritunarþættirnir MITF, TFEB, IRF4 og TFAP2A í litfrumum og sortuæxlum“.
Um verkefnið
Stjórnpróteinið MITF (microphthalmia associated transcription factor) er nauðsynlegt fyrir þroskun litfruma. Í sortuæxlum ákveður MITF hvort sortuæxlisfrumur fjölga sér eða verða þöglar frumur með fareiginleika sem geta myndað meinvörp. Ekki er ljóst hvernig MITF getur haft þessi ólíku áhrif í sortuæxlum og við þroskun litfruma en ein skýring er sú að MITF vinni með mismunandi umritunarþáttum á mismunandi tímum. Í þessu verkefni verður greint hvort umritunarþættirnir IRF4, TFAP2A og TFEB vinna með MITF í sortuæxlum. Þar sem MITF gegnir lykilhlutverki í þoli sortuæxla gegn lyfjameðferð er mikilvægt að skilja hvernig virkni próteinsins er stjórnað.
Leiðbeinandi er Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild.
Vilhjálmur Steingrímsson, doktorsnemi við Læknadeild hlaut styrk úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands fyrir verkefnið „Fylgisjúkdómar hjá sjúklingum með krónískt eitilfrumuhvítblæði“.
Um verkefnið
Í þessari rannsókn er ætlunin að meta áhrif fylgisjúkdóma á horfur sjúklinga með langvinnt eitilfrumuhvítblæði (CLL). Notast er við ítarleg gögn frá sænskum gagnagrunnum en þar er að finna upplýsingar um 14.000 sjúklinga með langvinnt hvítblæði og um 56.000 einstaklinga í samanburðarhópi. Langstærsti hluti sjúklinga með CLL eru eldri en 65 ára. Sýnt hefur verið fram á í fyrri rannsóknum að horfur CLL-sjúklinga hafa batnað en horfurnar eru enn slæmar hjá eldri sjúklingum. Aðstandendur rannsóknarinnar telja að fylgisjúkdómar hafi neikvæð áhrif á horfur sjúklinga sem greinast með CLL og að því fleiri sjúkdómar sem séu til staðar við greiningu, því verri séu horfurnar. Lagt verður til staðlað mat sem gæti hjálpað til við að meta áhrif fylgisjúkdóma þegar velja á bestu meðferð og meta horfur sjúklinga með CLL.
Leiðbeinandi er Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor við Læknadeild.
Xiaxia Di, doktorsnemi við Lyfjafræðideild hlaut styrk úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands fyrir verkefnið „Sjávarsvampar – leit að ónæmisstýrandi lyfjasprotum Marine sponges“.
Um verkefnið
Bólga er talin einn af aðalorsakavöldum framþróunar margra algengra sjúkdóma, þar með talið hjarta- og æðasjúkdóma, liðagigtar, krabbameins og Alzheimers-sjúkdóms. Hafsvæðið umhverfis Ísland gæti verið órannsökuð auðlind náttúruefna með bólguhemjandi áhrif en meira en þriðjungur allra lyfja á markaði í dag á rætur sínar að rekja til náttúrunnar. Markmið verkefnisins er að nota svokallaða lífvirknileidda einangrun til að finna efni í sjávarhryggleysingjum sem draga úr bólgu og hægt væri að þróa sem lyfjasprota. Búið er að rannsaka tvær svamptegundir og hafa komið út úr því þættir sem lofa góðu. Þættirnir verða rannsakaðir enn frekar og hrein bólguhemjandi efni einangruð og sameindabygging þeirra ákvörðuð. Bólguhemjandi áhrif verða enn fremur metin í angafrumulíkani þar sem skoðuð verður þroskun angafrumnanna og geta þeirra til að ræsa T-frumur. Niðurstöður verkefnisins geta leitt til uppgötvunar náttúruefna sem hafa sannanlega ónæmistemprandi virkni og gætu orðið að lyfjasprotum.
Leiðbeinendur eru Sesselja S. Ómarsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild, og Jóna Freysdóttir, prófessor við Læknadeild.