Skip to main content
12. júní 2015

Fróðleiksfús ungmenni fræddust um heilsu og heilbrigði

""

Það var nóg um að vera í Læknagarði í dag þegar þemadagur Heilbrigðisvísindasviðs í Háskóla unga fólksins var haldinn hátíðlegur. Nemendur hvaðanæva af landinu fengu kennslu í sex greinum heilbrigðisvísinda.

Háskóli unga fólksins stendur yfir dagana 10.–13. júní og er fyrir börn á aldrinum 12–16 ára. Líkt og síðustu ár bjuggu nemendur til sína eigin stundatöflu þar sem valið stóð á milli 35 námskeiða og þrettán þemadaga af öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands.

Jæfnvægi lykillinn að góðri heilsu

Heilbrigðisvísindasvið hefur undanfarin ár boðið nemendum í Háskóla unga fólksins upp á þemadag tengdum heilsu og heilbrigði. Þemadagurinn í ár hófst á fyrirlestri Bryndísar Evu Birgisdóttur, dósents í næringarfræði, þar sem fjallað var um meginþemu næringarfræðinnar og mikilvægi þess að vera læs á næringartengdar upplýsingar.

Þar á eftir var boðið upp á kennslu í geislafræði, hjúkrunarfræði, lífeðlisfræði, næringarfræði, sálfræði og tannlæknisfræði. Nemendurnir fengu meðal annars kennslu í endurlífgun, lærðu að mæla blóðþrýsting og blóðsykur, prófuðu tannlæknaborinn, reyndu á bragðskynjun og fóru í vettvangsferð í Öskjuhlíð þar sem hópleikir voru í fyrirrúmi.

Um Háskóla unga fólksins

Háskóli unga fólksins hóf starfsemi sína árið 2004 og hefur notið gríðarlegrar vinsælda. Dagskránni lýkur með glæsilegri lokahátíð og vísindaveislu í stóra salnum í Háskólabíói á morgun, laugardaginn 13. júní. Á hátíðinni fá nemendur afhent viðurkenningarskjal fyrir þátttöku í skólanum og fagna tímamótunum með félögum sínum og forráðamönnum og starfsfólki Háskóla unga fólksins.

Sjá nánar á vefsíðu Háskóla unga fólksins.

Myndir frá Háskóla unga fólksins 2015.

Öskjuhlíðin er tilvalin til útivistar og hreyfingar. Nemendur í Háskóla unga fólksins gæddu sér á hollu nesti, fóru í leiki og sýndu stríðsminjum frá síðari heimsstyrjöldinni einstakan áhuga.