Skip to main content
18. júní 2015

Vel heppnuð ráðstefna um heildræna samþætta hjúkrun

""

Alþjóðleg ráðstefna um heildræna samþætta hjúkrun fór fram í fyrsta sinn dagana 18.-20. maí síðastliðinn í Hörpu og tókst afar vel. Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands stóð fyrir ráðstefnunni í samstarfi við Hjúkrunarfræðideild Háskólans í Minnesota og Center for Spirituality and Healing við sömu stofnun. Hátt í þrjú hundruð manns frá tólf löndum sóttu ráðstefnuna, flestir frá Bandaríkjunum og Norðurlöndum. Flutt voru tæplega 70 erindi, boðið var upp á fjórar vinnusmiðjur og ríflega 40 veggspjöld voru kynnt.

Viðfangsefnin voru fjölmörg og spönnuðu vítt svið hjúkrunar- og ljósmóðurfræða. Á meðal efnisflokka á dagskrá má nefna samþætta geðhjúkrun, öldrunarhjúkrun, hjúkrun fólks með langvinna sjúkdóma og notkun ilmolíumeðferða og núvitundar í hjúkrun. Hér má nálgast dagskrána í heild sinni.

Aðalfyrirlesarar á ráðstefnunni voru: Dr. Janet Quinn, forstjóri hjá Healan Works í Colorado í Bandaríkjunum, sem fjallaði um heildrænar hjúkrunarmeðferðir, Jos de Blok, stofnandi og framkvæmdarstjóri Buurtzorg, hjúkrunarþjónustu fyrir aldraða í Hollandi, sem fjallaði um nýsköpun og kerfisbreytingar, og Lori Knútson, forstjóri hjá Health and Wellness Services í Minneapolis í Bandaríkjunum sem flutti erindi um samþætta hjúkrun, forrystu og kerfisbreytingar.

Næsta ráðstefna um heildræna samþætta hjúkrun verður haldin í Arizona í Bandaríkjunum árið 2017.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu ráðstefnunnar.

Hér má sjá myndir frá ráðstefnunni.

Fyrsta alþjóðlega ráðstefnan um heilræna samþætta hjúkrun fór fram í Hörpu í maí og tókst afar vel. Næst verður ráðstefnan haldin í Arizona í Bandaríkjunum árið 2017.