Fyrsta sameiginlega nýnemamóttakan á Heilbrigðisvísindasviði
Fyrsta sameiginlega móttakan fyrir alla nýnema á Heilbrigðisvísindasviði fór fram sl. föstudag í stóra salnum í Háskólabíó. Rúmlega 300 nýnemar mættu á kynninguna og stilltu saman strengi sína fyrir veturinn.
Dagskrá nýnemamóttökunnar var fjölbreytt og fróðleg. Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs setti dagskrána og bauð nemendur velkomna. Hún kynnt m.a. stjórnskipulag og uppbyggingu Heilbrigðisvísindasviðs og alla deildarforseta og námsbrautarstjóra á sviðinu. Inga hvatti nemendur til dáða en lagði sérstaka áherslu á að nám er vinna.
Nemendur fengu einnig kynningar á margvíslegri þjónustu og starfsemi í Háskólanum. Kristjana Mjöll Sigurðardóttir, náms- og starfsráðgjafi fór yfir starfsemi Náms- og starfsráðgjafar HÍ, Haukur Jóhann Hálfdánarson, kerfisfræðingur hjá Upplýsingatæknisviðið kynnti þjónustu sviðsins, Þorbjörg Sandra Bakke, verkefnisstjóri sjálfbærni- og umhversimála, kynnti umhverfis- og umgengnismál í skólanum og Theodóra Listalín Þrastardóttir, fulltrúi í sviðsráði Heilbrigðisvísindasviðs og sálfræðinemi, kynnti starfsemi Stúdentaráðs og sviðsráðs Heilbrigðisvísindasviðs. Fulltrúar allra nemendafélaga á Heilbrigðisvísindasviði tóku einnig til máls og fóru yfir hvað einkennir þeirra námsleiðir, við hverju nýnemar mega búast og gáfu þeim góð ráð fyrir komandi misseri.
Hér má nálgast glærur frá öllum kynningunum.
Móttaka nýnema á Heilbrigðisvísindasviði hefur hingað til farið fram hjá hverri deild fyrir sig. Þar fá nemendur hagnýtar upplýsingar varðandi deildirnar og skipulag námsins. Að þessu sinni var einnig efnt til sameiginlegrara móttöku þar sem markmiðið var að taka vel á móti nýnemum, kynna þá þjónustu sem stendur til boða við sviðið og skólann og gefa þeim tækifæri til þess að kynnast hvort öðru og sjá hvað námsleiðirnar eiga sameiginlegt.
Nýnemamóttakan var haldinn fyrir tilstuðlan kennslunefndar Heilbrigðisvísindasviðs en í undirbúningsnefndinni voru Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, formaður kennslunefndar HVS, Auður Ingólfsdóttir, starfandi kennslustjóri sviðsins, Ásta Bryndís Schram kennsluþróunarstjóri, Katrín Björg Jónasdóttir, markaðs- og vefstjóri, Sæunn Gísladóttir verkefnastjóri á sviðsskrifstofu auk Guðrúnar Svanlaugar Andersen frá Sviðsráði HVS.
Skoða fleiri myndir frá móttöku nýnema á Heilbrigðisvísindasviði 2018.