Stefnumótun í brennidepli á sviðsþingi
Árlegt þing Heilbrigðisvísindasviðs fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 19. apríl sl. Þingið var vel heppnað og þátttaka var góð. Þingið var að mestu tileinkað vinnu í nýrri stefnu Heilbrigðisvísindasviðs.
Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, opnaði þingið með erindi sem bar heitið „Breyttir tímar í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu“. Svanhvít fór yfir helstu áskoranir í starfsemi heilsugæslunnar um þessar mundir og hvernig rekstur stofnunarinnar mun taka breytingum m.a. með auknu sjálfstæði heilsugæslustöðvanna. Hún greindi jafnframt frá sóknarfærum í kjölfar breytinganna. Svanhvít tók við fjölmörgum spurningum úr sal. Kynningu Svanhvítar má nálgast hér.
Inga Þórsdóttir, prófessor og forseti Heilbrigðisvísindasviðs, flutti skýrslu um starfsemi sviðsins á síðastliðnu ári. Í skýrslu sinni greindi Inga einnig frá helstu áherslum á árinu 2016 og má þar nefna nýja kennsluhætti, stefnu í alþjóðamálum, aukna rannsóknaþjónustu, tölfræðiráðgjöf HVS, samskiptaverkefni starfsmanna og endurskoðun deililíkans. Inga sagði frá því að stutt sviðsþing yrði haldið í haust til þess að vinna í nýrri stefnu Heilbrigðisvísindasviðs. Skýrslu forseta má nálgast hér.
Fráfarandi formaður sviðsráðs Heilbrigðisvísindasviðs, sem er hluti Stúdentaráðs, Páll Óli Ólason, nemi í læknisfræði, kom sjónarmiðum nemenda á framfæri. Páll Óli lagði ríka áherslu á fjárskort Heilbrigðisvísindasviðs í ræðu sinni. Hann hvatti starfsfólk og nemendur sviðsins að taka höndum saman og þrýsta á stjórnvöld, sérstaklega í ljósi komandi alþingiskosninga. Erindi Páls Óla má lesa hér.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, fjallaði um stefnu HÍ 2016 – 2021. Helstu áherslur í stefnu HÍ eru framsækin sýn á nám og kennslu sem býr nemendur undir þátttöku í atvinnu- og þjóðlífi; sterkir rannsóknainnviðir sem styðja við þekkingarsköpun og alþjóðlegt samstarf; starf Háskólans hafi víðtæk áhrif og takist á við áskoranir samtímans; góður vinnustaður; gæðamenning og skilvirk upplýsingatækni. Þessar áherslur eru útfærðar á formi markmiða og aðgerða í fjórum meginflokkum: nám og kennsla, rannsóknir, þátttaka í samfélagi og atvinnulífi og mannauður. Jón Atli greindi frá því að aðgerðir á vettvangi myndu hefjast fljótlega og rýni yrði gerð í lok vormisseris hvers árs. Kynningu rektors má nálgast hér.
Að lokinni umfjöllun rektors hófst vinna í stefnu Heilbrigðisvísindasviðs. Þátttakendum á þinginu var skipt upp í átta umræðuhópa. Umfjöllunarefni hópanna voru meginflokkarnir fjórir úr stefnu HÍ yfirfærðir á Heilbrigðisvísindasvið. Þeir eru nám og kennsla, rannsóknir – drifkraftur nýrrar þekkingar, virk þátttaka í samfélagi og atvinnulífi og mannauður. Tveir hópar fjölluðu um hvern flokk. Vinnan í umræðuhópunum gekk mjög vel. Helstu niðurstöður hópanna voru kynntar stuttlega í lok þings en svo verður unnið áfram með þær í vinnu við nýja stefnu Heilbrigðisvísindasviðs. Skipaður hefur verið stýrihópur fyrir þá vinnu. Í honum sitja Ása Vala Þórisdóttir, Björn Guðbjörnsson, Bryndís Eva Birgisdóttir, Erna Sigurðardóttir, Steinunn Gestsdóttir og starfsmaður hópsins er Sæunn Gísladóttir. Stýrihópurinn mun skila drögum að nýrri stefnu í haust sem svo verður lögð fyrir sviðsþingið þá.
Fundarstjóri þingsins var Guðjón Þorkelsson, prófessor og forseti Matvæla- og næringarfræðideildar.
Að þingi loknu var boðið upp á veitingar og héldu starfsmenn glaðir út í síðdegið.