Skip to main content
5. desember 2019

Stofna teymi til að rannsaka sýklalyfjaónæmi á Íslandi

""

Teymi íslenskra og bandarískra vísindamanna hefur verið sett á laggirnar til að rannsaka sýklalyfjaónæmi á Íslandi. Sérstaða landsins gerir það að ákjósanlegum vettvangi til að rannsaka þessa vaxandi ógn við lýðheilsu. Rannsókn teymisins er ætlað að skapa þekkingu til að viðhalda lágu hlutfalli ónæmis í landinu og vinna gegn þróun ónæmis annars staðar í heiminum.

Rannsóknin byggist á svokallaðri „einnar heilsu“ aðferðarfræði og nær þannig til manna, dýra, matvæla og umhverfis á landsvísu með það að markmiði að auka þekkingu okkar á því hvernig sýklalyfjaónæmar bakteríur breiðast út. Ætlunin er að ná til sem flestra þátta með því að rannsaka E. coli bakteríuna sem finnst í búfénaði, umhverfi, svo og á innlendum og innfluttum kjötvörum og bera þær saman við E. coli bakteríur sem greinast í sýkingum í mönnum.

Teymið er skipað þverfaglegum sérfræðingum sem rannsaka munu vistfræði baktería og sýklalyfjaónæmis svo og áhrif þess á dýr, matvæli og menn. Þær stofnanir sem koma að rannsókninni eru Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, MATÍS (matvælarannsóknir Íslands), Matvælastofnun, Aðgerðarstofnun gegn sýklalyfjaónæmi við George Washington University, Washington D.C. (ARAC) og Vísindastofnun vistkerfis og þjóðfélags við Northern Arizona University, Arizona (ECOSS).

Sýklalyfjaónæmi í landinu er með því lægsta sem þekkist í heiminum en þeirri öfundsverðu stöðu er nú ógnað. Þar má nefna vaxandi ferðamannaiðnað með meira en tvær milljónir ferðamanna sem koma til lands með íbúafjölda um 360.000, auknar ferðir Íslendinga til svæða með meira sýklalyfjaónæmi og vaxandi innflutning á landbúnaðarafurðum, eins og fersku kjöti og grænmeti.

Sú sérstaða sem gerir Ísland bæði einstakt og ákjósanlegt til slíkra rannsókna er landfræðileg einangrun, íbúafjöldinn og hversu auðvelt er að fylgjast með sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi bæði hjá mönnum og dýrum. Sýklalyfjaónæmi í landinu er með því lægsta sem þekkist í heiminum en þeirri öfundsverðu stöðu er nú ógnað. Þar má nefna vaxandi ferðamannaiðnað með meira en tvær milljónir ferðamanna sem koma til lands með íbúafjölda um 360.000, auknar ferðir Íslendinga til svæða með meira sýklalyfjaónæmi og vaxandi innflutning á landbúnaðarafurðum, eins og fersku kjöti og grænmeti.

Mikilvægt er að átta sig á því hvers vegna hlutfall sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi er með því lægsta sem þekkist í heiminum þrátt fyrir að við notum meira af sýklalyfjum í menn en gert er í nágrannalöndum okkar. Við notum hins vegar mun minna af sýklalyfjum í landbúnaði en þekkist víðast hvar annars staðar. Vonast er til að sú þekking sem fæst með þessari rannsókn hjálpi til við að viðhalda lágu hlutfalli ónæmis í landinu. Sú vitneskja gæti einnig hjálpað til að vinna gegn ónæmisþróun annars staðar í heiminum.

Meginmarkmið rannsóknateymisins er að skapa þekkingu sem gæti nýst til þess að móta mótvægisaðgerðir byggða á gagnreyndum vísindum. 

Rannsóknateymið á Íslandi

Próf. Karl G. Kristinsson, Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og Læknadeild Háskóla Íslands
Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Próf. Viggó Marteinsson, MATÍS (matvælarannsóknir Íslands)
Vigdís Tryggvadóttir, Matvælastofnun og Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands

Myndrit með upplýsingum um rannsóknina