Húsnæðismál og þverfræðileg samvinna í brennidepli
Árlegt þing Heilbrigðisvísindasviðs fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands síðasta vetrardag, miðvikudaginn 22. apríl. Þingið var vel heppnað og þátttaka var góð.
Birgir Jakobsson landlæknir opnaði þingið með erindi sem bar heitið „Íslenskt heilbrigðiskerfi á krossgötum“. Birgir fór yfir núverandi stöðu heilbrigðiskerfisins með tilliti til afleiðinga efnahagshrunsins og hvaða aðgerðir eru í sjónmáli. Birgir lagði sérstaka áherslu á mikilvægi skýrrar stefnumótunar og hvaða hlutverki Embætti landlæknis gegnir í samfélaginu. Landlæknir tók fram að auka þyrfti þverfræðilega samvinnu heilbrigðisstétta.
Inga Þórsdóttir, prófessor og forseti Heilbrigðisvísindasviðs, flutti skýrslu um starfsemi sviðsins á síðastliðnu ári. Í máli sínu lagði Inga ríka áherslu á; uppbyggingu innviða til rannsókna og náms, nýjungar í kennslu, sjálfsmat deilda og námsbrauta, samstarf og samninga, húsnæðismál, sem og starfsmannamál og undirbúning að nýrri stefnumótun Háskóla Íslands og Heilbrigðisvísindasviðs. Slæður Ingu má nálgast hér.
Fráfarandi formaður sviðsráðs Heilbrigðisvísindasviðs, sem er hluti Stúdentaráðs, Margrét Unnarsdóttir, nemi í sálfræði, kom sjónarmiðum nemenda á framfæri. Kjarabarátta og verkföll heilbrigðisstétta hafa haft mikil áhrif á nám nemenda á Heilbrigðisvísindasviði í vetur. Þá minntist Margrét á húsnæðismál en dreifing bygginga sviðsins dregur úr samskiptum og samvinnu nemenda úr mismunandi greinum. Sviðsráðið gerði könnun á viðhorfi nemenda í verknámi við Landspítala síðasta haust og fór Margrét yfir helstu niðurstöður könnunarinnar. Ávarpið má lesa í heild sinni hér.
Guðmundur R. Jónsson, prófessor og framkvæmdastjóri fjármála og reksturs Háskóla Íslands, fór yfir stöðu húsnæðismála Heilbrigðisvísindasviðs. Áætlað er að um 9.300 m2 viðbygging við Læknagarð rísi fyrir lok ársins 2021 og munu framkvæmdir hefjast árið 2017 samkvæmt fyrirliggjandi áætlun. Það kom fram að viðbyggingin mun ekki rúma alla starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs. Háskólinn getur hafið framkvæmdir þó dráttur verði á uppbyggingu Landspítalans. Allt er þetta þó háð samþykki stjórnvalda.
Sóley S. Bender, prófessor og formaður stýrihóps Heilsutorgs, flutti erindi um Heilsutorg sem þverfræðilegt námskeið við sviðið, sem kennt var í fyrsta sinn í vetur. Tilgangur námskeiðsins er að nemendur kynnist námi og störfum annarra heilbrigðisstétta, tileinki sér þverfræðilega hugmyndafræði og æfi sig í samvinnu í þverfræðilegu teymi með öðrum nemendum. Sóley benti á að góð teymisvinna sé líkleg til að stuðla að öryggi sjúklinga, fækka mistökum í heilbrigðisþjónustunni, efla gæði þjónustunnar, ánægju sjúklinga og starfsfólks sem og fækkun endurinnlagna. Slæður Sóleyjar má nálgast hér.
Þorvarður Löve lektor og Ásta Thoroddsen prófessor greindu frá Heilsubrunni Háskóla Íslands sem er miðstöð gagnarannsókna. Verkefnið styður við innlendar vísindarannsóknir og rík áhersla er lögð á persónuvernd í meðferð gagna. Einn þáttur Heilsubrunns er að endurvekja nám í upplýsingatækni á heilbrigðissviði við Háskóla Íslands. Námið hefst aftur árið 2016 og í því tvinnast saman upplýsingatækni, þekking á heilbrigðiskerfinu og skilningur á aðferðum sem beitt er í rannsóknum. Í fyrstu verður eingöngu boðið upp á meistaranám og munu nemendur vinna verkefni við Heilsubrunn.
Fundarstjóri þingsins var Helga Jónsdóttir, prófessor og forseti Hjúkrunarfræðideildar.
Að þingi loknu var boðið upp á veitingar og héldu starfsmenn glaðir út í sumarið.