Skip to main content
20. ágúst 2021

Samningur háskólanna um Rannsóknamiðstöð ferðamála endurnýjaður

Samningur háskólanna um Rannsóknamiðstöð ferðamála endurnýjaður - á vefsíðu Háskóla Íslands

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Ingibjörg Sigurðardóttir, deildarstjóri ferðamáladeildar Háskólans á Hólum, undirrituðu í gær endurnýjaðan samning milli skólanna um Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF). Samningurinn var undirritaður í Grósku – hugmyndahúsi í Vatnsmýri og gildir til næstu tveggja ára. 

RMF er miðstöð rannsókna, fræðslu og samstarfs í greinum sem tengjast ferðamálum. RMF er starfrækt af Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Háskólanum á Hólum í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu. Stefna RMF er að efla rannsóknir og skilning á áhrifum ferðamennsku á hagkerfi, samfélag og umhverfi. Öflugar rannsóknir eru forsenda markvissrar stefnumótunar, áætlunargerðar og markaðssetningar í greininni. Markmið RMF er að skapa þekkingargrunn sem byggir undir og styður við ábyrga ferðaþjónustu og ferðamennsku.

Fyrsti samstarfssamningur um RMF var undirritaður af rektorum háskólanna árið 1999. Aðalskrifstofa RMF er við Háskólann á Akureyri en frá árinu 2012 hefur RMF einnig haft skrifstofu við Háskóla Íslands.

Vefsíða Rannsóknamiðstöðvar ferðamála
 

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Ingibjörg Sigurðardóttir, deildarstjóri ferðamáladeildar Háskólans á Hólum, „olnboga“ nýjan samstarfssamning um Rannsóknarmiðstöð ferðamála.