Skip to main content

2. háskólaþing 15. maí 2009

2. háskólaþing Háskóla Íslands haldið 15. maí 2009 í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13.00-16.30

Dagskrá

Kl. 13.00 - 13.05 Rektor setur háskólaþing, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir fundargögnum.

Kl. 13.05 - 13.25 Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands. 

Kl. 13.25 - 14.55 Dagskrárliður 2. Umsögn um drög að endurskoðuðum reglum Háskóla Íslands. 

Kl. 14.45 - 15.10 Fundarhlé.

Kl. 15.10 - 16.30 Dagskrárliður 3. Umsögn um drög að endurskoðuðu matskerfi rannsókna.

Kl. 16.30 Rektor slítur háskólaþingi.

Kl. 13.00-13.05: Fundarsetning

Rektor setti 2. háskólaþing Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Háskólaþing er haldið í samræmi við lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 sem tóku gildi 1. júlí 2008 og er það arftaki háskólafundar sem var settur á laggirnar samkvæmt lögum nr. 41/1999 um Háskóla Íslands. Sérstaklega bauð rektor velkomna fulltrúa starfsfólks, stúdenta og háskólaráðs sem mættir voru í fyrsta sinn á háskólaþing sem og gesti frá öðrum stofnunum, þær Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra Landspítala og Guðrúnu Nordal, forstöðumann Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 

Þá gerði rektor grein fyrir dagskrá, tímaáætlun og gögnum fundarins og fól Magnúsi Diðrik Baldurssyni, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu og gæðastjóra Háskólans, að vera fundarritari.

Kl. 13.05-13.25 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands

Rektor fór yfir helstu verkefni umliðins vetrar og stærstu mál framundan í starfi Háskóla Íslands. 

Starfshættir samkvæmt nýju skipulagi Háskóla Íslands.

Unnið hefur verið eftir nýju skipulagi Háskóla Íslands í u.þ.b. 6 mánuði. 

· Háskólaráð fundar að jafnaði fyrsta fimmtudag í mánuði hverjum.

· Háskólaþing skal skv. lögum halda a.m.k. einu sinni á háskólaári, en sú venja hefur skapast að efna til þings að jafnaði einu sinni á misseri. 

· Rektor og forsetar fræðasviða funda að jafnaði vikulega ásamt aðstoðarrektor vísinda og kennslu og framkvæmdastjóra fjármála og reksturs. 

· Stjórnir fræðasviða funda reglulega, í mörgum tilvikum vikulega.

· Deildarforsetar halda reglulega fundi með starfsfólki deilda.

· Starfsnefndir háskólaráðs, vísindanefnd, kennslumálanefnd, fjármálanefnd, gæðanefnd, jafnréttisnefnd og samráðsnefnd um kjaramál halda reglulega fundi. Skipan kennslumálanefndar hefur verið breytt á þann veg að í henni sitja nú formenn kennslunefnda fræðasviða auk formanns sem háskólaráð skipar. Unnið verður að því að breyta skipan annarra nefnda með hliðstæðum hætti. 

· Fræðslufundir stjórnenda á fræðasviðum og í sameiginlegri stjórnsýslu eru haldnir mánaðarlega.

· Rektor heldur opna fundi með öllu starfsfólki tvisvar á hverju misseri. 

· Rektor heldur mánaðarlega fundi með helstu stjórnendum sameiginlegrar stjórnsýslu.

· Mynduð hafa verið samráðsteymi sviðsstjóra sameiginlegrar stjórnsýslu og fulltrúa fræðasviðanna sem fara með viðkomandi málaflokka. 

· Miðstöð framhaldsnáms fundar mánaðarlega með samráðsteymi þeirra sem fara með málefni framhaldsnáms á fræðasviðunum.

· Að auki starfa ýmsar nefndir á vegum rektors og háskólaráðs tímabundið að afmörkuðum verkefnum. 

Nám og kennsla.

Háskóli Íslands hefur stækkað gífurlega á stuttum tíma. Nemendum fjölgaði um 25% við sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og nemendum fjölgaði enn um 10% um síðustu áramót í kjölfar efnahagskreppunnar. Um 76% nemendahópsins leggur stund á grunnnám, 22% eru í meistaranámi og 2% í doktorsnámi. Árið 2008 fóru fram 23 doktorsvarnir og bendir allt til þess að þeim muni fjölga mikið á næstu árum. 

Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.

Í framhaldi af sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands 1. júlí 2008 var áfram unnið að því að festa í sessi nýtt skipulag og stjórnkerfi og að þróa ýmis tæknileg kerfi sameinaðs háskóla, s.s. sameiginlegt skjalastjórnunarkerfi og nýjan sameiginlegan vef.



Viðbrögð við hruni efnahagskerfisins.

Miklar sviptingar urðu í ríkisfjármálum í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Í fjárlagafrumvarpi fyrir 2009, sem lagt var fram 1. október 2008, var gert ráð fyrir að staðið yrði við samning Háskóla Íslands og ríkisvaldsins um viðbótarframlög vegna Stefnu Háskóla Íslands 2009-2011.  Samkvæmt frumvarpinu nam viðbótarframlagið 720 m.kr. með verðbætum fyrir árið 2009, og hefði bæst við 670 m.kr. framlag vegna ársins 2008 og 340 m.kr. framlag vegna ársins 2007, samtals 1.730 mia. Eftir hrunið ákvað ríkisvaldið að fresta framkvæmd ákvæði samningsins fyrir 2009.  Niðurskurður á framlögum til skólans var um einn milljarður króna. Þrátt fyrir þetta mun Háskóli Íslands kappkosta að standa vörð um helstu atriði stefnu sinnar, tryggja gæði starfseminnar og leita nýrra sóknarfæra. Benti rektor í þessu sambandi á mikilvægi þess að starfsfólk og stúdentar stæðu saman á erfiðum tímum til að sýna að Háskóli Íslands muni eftir sem áður standa undir þeim væntingum sem til hans eru gerðar. 

Stefna í málefnum kennslu.

Í Stefnu Háskóla Íslands er m.a. kveðið á um áframhaldandi þróun formlegs gæðakerfis kennslu og setningu skýrra kennslumarkmiða fyrir deildir skólans. Ýmislegt hefur áunnist í þessu efni. Á háskólaþingi árið 2008 var m.a. rætt um tillögur þáverandi kennslumálanefndar háskólaráðs um stefnu í málefnum kennslu og voru þær samþykktar á fundinum og í háskólaráði. Ný kennslumálanefnd vinnur nú af krafti við að hrinda tillögunum í framkvæmd. Ein megintillaga fyrri kennslumálanefndar var að innleiða fyrir allan Háskólann kennsluferilskrár og hafa drög að skránni verið sendar til umsagnar kennslunefnda fræðasviða, sem teknar eru til starfa skv. tillögum nefndarinnar. Þá er unnið að því að efla enn frekar tengsl Háskólans og framhaldsskóla landsins og var m.a. haldinn sameiginlegur fundur stjórnenda Háskóla Íslands og skólameistara framhaldsskólanna 11. maí sl. að frumkvæði formanns kennslumála­nefndar HÍ. Var það niðurstaða fundarins að settur yrði á laggirnar formlegur samráðsvettvangur þessara aðila. Þá hefur verið haft samráð við Keili um uppbyggingu frumgreinanáms sem mun nýtast við að styrkja tengsl framhaldsskólanna og Háskólans. Einnig hefur vinna við skilgreiningu hæfniviðmiða fyrir öll námskeið og allar námsleiðir gengið vel og hannaði Kennslumiðstöð í þessu sambandi sérstakt skapalón sem auðveldar deildum og kennurum vinnuna. Loks vinnur kennslumálanefnd að því að hrinda í framkvæmd tillögum skýrslu starfshóps háskólaráðs um aðgerðir gegn brottfalli sem kynnt var á háskólafundi í júní 2008.

Nefnd um fýsileika sameiningar Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Nefnd um fýsileika sameiningar Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands hefur starfað um nokkurt skeið að beiðni menntamálaráðherra og mun skila tillögum sínum á næstunni. Engin ákvörðun hefur þó verið tekin um hugsanlega sameiningu.

Viðurkenning fræðasviða og heimild til að bjóða doktorsnám.

Öll fræðasvið Háskóla Íslands hafi hlotið viðurkenningu menntamálaráðherra skv. lögum um háskóla nr. 63/2006. Í kjölfarið sóttu fræðasviðin um heimild til að bjóða doktorsnám og hafa Hugvísindasvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið þegar fengið slíka heimild en matsferli vegna umsókna Félagsvísindasviðs, Heilbrigðisvísindasviðs og Menntavísindasviðs er rétt ólokið.

Fræðasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni.

Mikil gróska er í starfsemi fræðasetra Háskóla Íslands á landsbyggðinni, en þar fer fram kraftmikið vísindastarf. Hópur afbragðs vísindamanna með mikla rannsóknavirkni starfar við fræðasetrin.

 

Viðbrögð við áföllum í efnahagslífi þjóðarinnar.

Háskóli Íslands hefur með margvíslegum hætti brugðist skjótt og ákveðið við áföllunum í efnahagslífi þjóðarinnar. Háskólinn tók inn óvenju mikinn fjölda nýrra nemenda (1.400) um síðustu áramót og hópur sérfræðinga skólans hefur verið kvaddur til starfa fyrir ríkisstjórn landsins og opinberar stofnanir. Fjöldi erlendra sérfræðinga hefur haldið fyrirlestra um efnahagsástandið við Háskóla Íslands, nú síðast komu hingað Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, Robert Aliber frá Chicago-háskóla, John Greenwood, aðalhagfræðingur INVESCO, Michael R. Czinkota, prófessor í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum við Georgetown-háskólann í Washington, Alonso Perez, efnahagsráðgjafi forseta Ekvador, Antonin Scalia, hæstaréttardómari frá Bandaríkjunum og Rosalind Higgins, forseti Alþjóðadómstólsins í Haag. 



100 ára afmæli Háskóla Íslands 2011.

Undirbúningur er hafinn fyrir aldarafmæli Háskólans árið 2011. Aldarsaga skólans er í ritun og afmælisnefnd sem skipuð var af háskólaráði hefur skilað fyrstu tillögum sínum. Fræðasvið Háskólans veittu umsögn um tillögurnar og lögðu fram viðbótartillögur. Á næstunni verður unnið úr þessum efnivið og einstökum hugmyndum komið á framkvæmdastig. 



Byggingamál.

Smíði nýrra stúdentagarða við Skógarveg stendur nú sem hæst og er áætlað að verklok verði á hátíðardegi stúdenta, fullveldisdegi Íslendinga 1. desember nk. Um er að ræða þrjú fjögurra hæða íbúðarhús en í þeim verða 80 tveggja og þriggja herbergja fjölskylduíbúðir. Gert er ráð fyrir að íbúar verði allt að 200 talsins. 



Endurskoðun á fyrirkomulagi brautskráninga kandídata og doktorsvarna.

Um nokkurn tíma hefur verið unnið að endurskoðun á fyrirkomulagi brautskráninga kandídata og doktorsvarna. Gert er ráð fyrir að brautskráning í október og febrúar verði framvegis sameinaðar í eina athöfn sem haldin verður í febrúar. Þetta mun ekki raska námsskipulagi stúdenta því þeir munu geta fengið staðfestingu á námslokum sínum á milli athafna. Næsta brautskráningarathöfn fer fram 20. júní 2009. 

Kl. 13.25-14.55 - Dagskrárliður 2: Umsögn um drög að endurskoðuðum reglum Háskóla Íslands

Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, gerði grein fyrir málinu.

Markmið

· Markmið Háskóla Íslands er að veita góða menntun og stunda vandaðar rannsóknir.

· Reglur Háskóla Íslands eru umgjörð um starfsemina.

· Háskólinn þarf skýrar reglur til að starfa eftir, sem í senn stuðla að festu og sveigjanleika.

Verkefnið

· Endurskoðun allra reglna Háskóla Íslands og aðlögun þeirra að nýjum lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 og breyttu skipulagi.

· Tvíþætt verkefni:

- Sameiginlegar reglur fyrir Háskóla Íslands

- Sérreglur fyrir stofnanir, meistara- og doktorsnám o.fl.

Tímarammi

· Vinna að endurskoðun reglna Háskóla Íslands hófst í september 2008.

· Minnisblað um verklag samþykkt í háskólaráði 16. október 2008.

· Verklok áætluð í júní 2009. Gildistaka sameiginlegra reglna 1. júlí 2009. Sérreglur fylgja í kjölfarið; sumt unnið samhliða.

· Sviðsstjóri kennslusviðs og lögfræðingur Háskólans hafa umsjón með verkinu.

· Með þeim vinnur nefnd skipuð (27. nóv. 2008) þeim Önnu Agnarsdóttur, Sigríði Ólafsdóttur og Sigrúnu Ingibjörgu Gísladóttur, fulltrúum í háskólaráði.

· Til aðstoðar er Kristín Benediktsdóttir, doktorsnemi í lagadeild.

Verklag við endurskoðun reglna

· Að stofni til er byggt á eldri reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000, reglum Kennaraháskóla Íslands og eldri sérreglum um stofnanir Háskóla Íslands og um meistara- og doktorsnám.

· Framsetning er hliðstæð og verið hefur:

- Í fyrri hluta sameiginlegar reglur fyrir Háskóla Íslands.

- Í seinni hluta sérreglur fyrir hvert fræðasvið og hverja deild.

· Gert er ráð fyrir að framsetning reglna um stofnanir Háskólans og um meistara- og doktorsnám verði einnig hliðstæð og í eldri reglum.

Forsendur

· Lagarammi.

· Ytri úttektir, Stefna Háskóla Íslands 2006-2011, samningar o.fl.

· Ýmsar ákvarðanir sem hafa verið teknar.

· Niðurstöður nefnda og starfshópa, athugasemdir, mál í vinnslu o.fl.

· Eldri reglur.

Lagarammi

· Lög nr. 85/2008 um opinbera Háskóla.

· Lög nr. 63/2006 um háskóla.

· Stjórnsýslulög nr. 37/1993.

· Lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

· Lög nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins.

· Lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

· Upplýsingalög nr. 50/1996.

· Önnur lög.

Samsvörun laga um opinbera háskóla og samþykkta Háskóla Íslands

· Nýtt skipulag og stjórnkerfi Háskóla Íslands hefur skýra lagastoð:

- Háskólanum skipað í skóla (fræðasvið) og deildir (4. og 11. gr.).

- Skólum (fræðasviðum) stjórnað af forsetum og deildum af formönnum (forsetum) (12. gr.).

· Greinar 4, 11 og 12 eru forsenda skipulags og stjórnkerfis Háskólans.

· Auglýsing nr. 633/2008 um skipulag Háskóla Íslands. Nú felld inn í drög að reglum.

Úttektir, stefna, samningar o.fl.

· Ytri úttektir og úrvinnsla þeirra innan HÍ.

· Stefna Háskóla Íslands 2006-2011.

- Samþykkt á háskólafundi 5. maí, staðfest í háskólaráði 11. maí 2006.

· Samningur Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytisins um fjármögnun stefnunnar.

- Undirritaður 11. janúar 2007.

- Gildir til ársloka 2011. - frestað að hluta vegna efnahagsástandsins.

· Endurskoðun á stjórnskipulagi Háskóla Íslands á grunni stefnunnar.

- Lokatillögur samþykktar á háskólafundi 19. október og í háskólaráði 23. október 2007, nánari útfærsla samþykkt í háskólaráði 6. mars 2008.

· Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands 1. júlí 2008.

Ýmsar ákvarðanir sem hafa verið teknar

· 17. janúar 2008. Fyrirvarar um hvaða reglur gilda uns endurskoðun hefur farið fram o.fl.

· 24. september 2008. Erindisbréf fyrir forseta fræðasviða Háskóla Íslands.

· 26. september 2008. Reglur um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins og nemenda í háskólaráð HÍ (að fenginni umsögn háskólaþings sama dag).

· 26. september 2008. Reglur um skipan og fundarsköp háskólaþings (að fenginni umsögn háskólaþings sama dag).

· Erindisbréf fyrir deildarforseta.

· 30. október 2008. Verklagsreglur um aukastörf starfsmanna Háskóla Íslands.

Niðurstöður nefnda, ákvarðanir, mál í vinnslu o.fl.

· Skýrsla um inntöku nýnema og aðgerðir gegn brottfalli úr námi, júní 2008.

· Tillögur kennslumálanefndar um framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 á sviði náms og kennslu, háskólafundur 17. apríl og háskólaráð 8. maí 2008. 

· Nefnd um breytt framgangskerfi. Er í vinnslu. 

· Endurskoðun á matskerfi rannsókna. Er á dagskrá á eftir.

· Verklagsreglur um aukastörf, samþykktar í háskólaráði 30. október 2008.

· Verklagsreglur um launalaus leyfi starfsmanna, samþykktar í háskólaráði 2. apríl 2009.

· Starfshópur um framtíðarfyrirkomulag stofnana Háskóla Íslands skipaður 2. apríl.

Eldri reglur

· Reglur Háskóla Íslands nr. 458/2000. 

· Reglur Kennaraháskóla Íslands.

· Reglur fyrir stofnanir Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.

· Reglur deilda um meistara- og doktorsnám.

· Ýmsar sérreglur.

· Verklagsreglur um ýmis málefni.

Breytingar sem leiða af nýjum lögum og breyttu skipulagi Háskóla Íslands

· Fimm fræðasvið og 25 deildir.

· Breytingar á valdsviði eininga - vald færist frá háskólaráði, rektor (stúdentamál og starfsmannamál) og deildum (fjármál og stoðþjónusta) til fræðasviða.

· Í hnotskurn: 

- Fræðasvið (forseti) ber ábyrgð á fjármálum og rekstri og annast stjórnsýslu og stoðþjónustu sviðs - og hefur eftirlit með starfsemi þess í heild.

- Deildir bera ábyrgð á faglegum málefnum, kennslu, rannsóknum og veitingu prófgráðu við námslok.

- Forsetar deilda og forseti fræðasviðs (eftirlit) bera sameiginlega ábyrgð á gæðamálum á vettvangi fræðasviðs og deilda.

Hvers ber að gæta ...

· Verkaskipting sameiginlegrar yfirstjórnar, fræðasviða og deilda.

· Hlutverk einstakra eininga og mörk milli þeirra.

· Samræmi á milli ábyrgðar og ákvörðunarvalds (rektor, háskólaráð, forsetar fræðasviða, deildarforsetar, námsbrautastjórar, kennarar).

· Samræmi í stjórnsýslu/framkvæmd fræðasviða - jafnræðis gætt, hliðstæð mál lúti samsvarandi málsmeðferð.

Til minnis um endurskoðunarferlið

· Drög að reglum eru í vinnslu fyrir háskólaráð til að undirbúa ákvörðun þess.

· Háskólaþing setur fram athugasemdir sem síðan er unnið úr á vettvangi ráðsins.

· Að því búnu setur háskólaráð reglurnar.

· Tími og aðstæður leiða vitanlega fram sjónarmið sem kalla á breytingar er fram líða stundir.

· Tillögur að breytingum á settum reglum koma því síðar eðlilega fram og er þá á þeim tekið. 

Um athugasemdir sem borist hafa

· Endurskoðun reglna kynnt og rædd á fræðslufundi stjórnenda Háskóla Íslands 12. mars sl.

· Drög send fræðasviðum 24. apríl sl.

· Athugasemdir bárust frá fræðasviðum og fleirum innan Háskóla Íslands.

- Athugasemdir um efnisatriði sem eru bundin í lög og ekki er unnt að hafa með öðrum hætti í reglunum.

- Athugasemdir sem varða kafla um fræðasvið og deildir (II. hluti) hafa verið felldar inn í textann - og eru ekki sérstaklega auðkenndar. Sumt þarfnast enn leiðréttingar við og er í vinnslu.

- Athugasemdir sem felldar hafa verið inn og eru auðkenndar í textanum. Um er að ræða tillögur að breytingum sem fram hafa komið. 

Efnisyfirlit sameiginlegra reglna

I. Meginskipulagseiningar og stjórn Háskólans.

II. Fræðasvið, háskóladeildir og stofnanir.

III. Akademískir starfsmenn. (Háskólakennarar og sérfræðingar)

IV. Stúdentar.

V. Kennsla, próf, lærdómstitlar o.fl. (þar með endurmenntun, fræðsla)

VI. Meistarar og doktorar.

VII. Fjárhagsmálefni, gjöld fyrir þjónustu, ráðstöfun þeirra, samningar o.fl.

VIII. Sjóðir til styrktar rannsóknum, kennslu og stjórnun og félags- og menningarstarfsemi stúdenta.

IX. Ársfundur.

X.-XIV. Sérreglur fræðasviða og deilda. 

XV.   Birting reglna, ákvæði um breytingar og gildistaka. 

Um einstakar greinar: Tillögur að breytingum

6. gr. Kosning, tilnefning og embættisgengi rektors

· Ábending um atkvæðisrétt og vægi atkvæða starfsmanna í samhliða störfum. 

· Tillaga er gerð að breytingu á 6. tölul. 

· Byggt er á bókun sem var gerð í háskólaráði 6. mars 2003. 

· Í 11. tölul. er breytt ákvæði frá eldri reglum. 

· Engin ákvæði eru í lögum um staðgengil rektors - og sá sem skipar hann verður því að formi til að ákveða hver er staðgengill ef til þess kemur. 

10. gr. Fulltrúar á háskólaþingi

· Lagt er til (3. mgr.) að fulltrúar í háskólaráði hafi seturétt á háskólaþingi með tillögurétt án atkvæðisréttar 

· og (4. mgr.) að rektor sé heimilt að kveðja til setu á háskólaþingi starfsmenn úr stjórnsýslu háskólans, formenn starfsnefnda og aðra eftir því sem þurfa þykir. 

· Þetta er í samræmi við viðtekna venju sem skapast hefur við Háskóla Íslands.

· Þá er lagt til að fulltrúi Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands á landsbyggðinni eigi sæti á þinginu. 

17. gr. Skipan deildarfundar

· Aftast í 1. mgr. er bætt við ákvæði um að deild sé heimilt að fela samtökum stúdenta í deildinni ákvörðunarvald um hvernig þeir standa að vali á sínum fulltrúum á deildarfund. (Sömu reglur eiga við um fundi í námsbrautum, sbr. 21. gr.).

22. gr. Þing fræðasviðs

· Rekstrarstjóra fræðasviðs er bætt við í upptalningu fastra fulltrúa. 

· Ábendingar bárust um mismunandi útfærslur þings fræðasviðs. Lagt er til að í nánari reglum sem fræðasvið setur sé heimilt að kveða á um að allir fastir starfsmenn fræðasviðsins hafi rétt til að sitja fræðasviðsþing.  

23. gr. Kennsluskrá og kennslunefndir

· Lagt er til að klausa um námsnefndir falli brott. Deildir geta þó að sjálfsögðu haft slíkar nefndir. Í samræmi við stefnu háskólans er hlutverk kennslunefnda til muna skerpt og efld tengsl þeirra við kennslumálanefnd háskólaráðs. Hið sama á við um faglega forystu og eftirlitshlutverk deildarforseta. 

27. gr. Stofnanir sem heyra undir fræðasvið eða deildir

· Greinin er að mestu óbreytt frá eldri reglum. Fyrsta setningin er að efni til úr 11. gr. laganna.

· Fram komu ábendingar um að greinin ætti, að svo stöddu, ekki að geyma tillögu að nýju fyrirkomulagi, sem enn er órætt, t.d. um það hvort að jafnaði skuli vera ein rannsóknastofnun á hverju fræðasviði.

· Núverandi reglur stofnana, sem háskólaráð hefur samþykkt, gildi áfram uns annað verður ákveðið.

· Háskólaráð skipaði starfshóp 2. apríl sl. til að fjalla um framtíðarfyrirkomulag rannsóknastofnana háskólans og mun greinin koma til endurskoðunar þegar tillögur eru fram komnar.  Í hópnum eru vararektor vísinda og kennslu, forsetar fræðasviða, fulltrúar háskólaráðs, o.fl.

· Nokkrar tillögur að minni háttar breytingum eru auðkenndar í textanum, s.s. að eitt af hlutverkunum skuli vera að sinna þjónustu við rannsóknir.

33. gr. Rannsóknamisseri

· Tillaga kom fram um að í stað „Sé óskað lengra leyfis skal forseti senda rektor erindið ásamt umsögn sinni um hvort leyfið skuli veitt.“ í niðurlagi greinarinnar komi:  „... Sé óskað lengra leyfis tekur forseti ákvörðun um það og sendir rektor erindið ásamt umsögn sinni um það af hverju leyfið er veitt.“ Lagaákvæði hindra þetta ekki, en gæta þarf að samræmi í framkvæmd. 

37. gr. Umsóknir og meðferð þeirra [ekki listað á útsendu athugasemdablaði]

· Lagt er til að felld verði út heimild umsækjanda um starf til að vísa til þess hvar ritverk eru aðgengileg á rafrænu formi. 

40. og  44. gr. um skipan og málsmeðferð dómnefnda og skipan valnefnda

· Lagt er til að meginreglan sé sú að dómnefndarmenn hafi doktorspróf. 

· Athugasemdir bárust um að erfitt geti reynst að uppfylla áskilnað um kynjahlutföll í dómnefndum og valnefndum. 

· Háskólinn fer að ákvæðum jafnréttislaga sem kveða á um virka skyldu til þess að tryggja að sem jafnast kynjahlutfall sé í nefndum. Mikilvægt er að reglur háskólans mæli fyrir um þessa skyldu með afdráttarlausum hætti - eins og gert er. 

43. gr. Meðferð dómnefndarálits og afgreiðsla máls [ekki listað á útsendu athugasemdablaði]

· Lagt er til að dómnefnd skuli að jafnaði ljúka störfum innan fjögurra vikna frá því að gögn bárust henni.

45. gr. Málsmeðferð valnefnda [ekki listað á útsendu athugasemdablaði]

· Lagt er til að valnefnd skuli að öllu jöfnu bjóða umsækjendum sem til greina koma að halda fyrirlestur. 

56. gr. Próf og próftímabil

· Bent var á að ekki eigi við lengur að munnleg próf séu haldin í heyranda hljóði (opin öllum) auk þess sem fyrirkomulagið kunni að stangast á við sjónarmið um persónuvernd. Ábendingin er réttmæt. 

59. gr.  Prófdómarar og réttur stúdenta til að fá útskýringar.

· Lagt er til að orðið „fullnaðarpróf“ verði fellt niður í upphafsmálsgreininni, þar sem munnleg próf eru í mörgum tilvikum hlutapróf, en í ýmsum greinum hefur verið krafa um að prófdómari sé í hlutaprófi.

· Lagt til að í 2. ml. 1. mgr. verði orðunum „þar með talin framsaga og kynning á verkefnum,“ skeytt inn í textann  - í ljósi ábendingar um að í mörgum tilvikum eru hlutaeinkunnir gefnar fyrir framsögu og kynningar á verkefnum. 

60. gr. Prófverkefni og mat úrlausna [ekki listað á athugasemdablaði]

· Lagt er til að skerpt verði á því að sami skilafrestur gildi fyrir námskeið sem lýkur án skriflegs prófs og fyrir próf og verkefnaskil sem fram fara utan reglulegra próftímabila. 

Atriði í farvegi eða til frekari umfjöllunar

3. gr. Fulltrúar í háskólaráði

· Reglur um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins og nemenda í háskólaráð Háskóla Íslands nr. 985/2008 eru felldar inn í þessa grein. 

· Félagsvísindasvið benti á að fyrirkomulag kjörs tveggja fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð á háskólaþingi - bókstafsliðir c-d - þurfi að endurskoða og að rétt sé að skipa starfshóp til þess. Þetta er sjálfstætt efnisatriði sem ekki hindrar setningu hinna sameiginlegu reglna, að svo stöddu. 

5. gr. Hlutverk rektors

· Spurt var um ákvæðið um vanhæfi í 7. mgr., sem er hér óbreytt frá eldri reglum. Þetta ákvæði var sett inn árið 2002 til þess að bregðast við ábendingum umboðsmanns Alþingis. 

11. gr. Fræðasvið háskólans og deildir 

· Athugasemdir frá Menntavísindasviði um að skipulag Háskóla Íslands í deildir, deildarráð, deildarfundi, og námsbrautir falli illa að skipulagi kennslu á Menntavísindasviði sem þróað hefur verið innan Kennaraháskóla Íslands. Verið er að fara yfir hvaða leiðir eru færar til að koma til móts við þau sjónarmið.

12. gr. Hlutverk, starfsemi og stjórn fræðasviða

· Ábendingar um framsal á ákvörðunarvaldi stjórnar fræðasviðs til einstakra deilda.

· Stjórnin fer hins vegar ekki með ákvörðunarvald í eiginlegum stjórnsýslumálum, heldur forseti fræðasviðs. Í framkvæmd myndi forseti fræðasviðs þó jafnan leita umsagnar hjá stjórninni. 

14. gr. Fundir stjórnar fræðasviðs

· Ábendingar um staðgengil forseta fræðasviðs. 

· Samkvæmt lögum ræður rektor forseta fræðasviðs og starfar hann í umboði rektors og háskólaráðs og á grundvelli sérstaklega útgefins erindisbréfs. Ekki er því unnt að setja almenna staðgengilsreglu, nema jafnframt sé þá kveðið á um að rektor gefi út erindisbréf hverju sinni. 

· Betur fer á því að rektor setji mann hverju sinni til þess að vera forseti fræðasviðs í forföllum þess sem ráðinn er, ef þörf er talin vera á slíku. Sömu sjónarmið eiga hér við og um staðgengil rektors. 

24. gr. Mat á starfsemi fræðasviða og deilda og eftirlit með henni

· Menntamálaráðuneytið hefur nýlega gefið út reglur um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum nr. 321/2009. Laga þarf ákvæði 24. greinar að þeim skuldbindingum sem þar er að finna varðandi innra og ytra mat. 

· Lagt er til að gæðanefnd hafi umsjón með því.

27. gr. Stofnanir sem heyra undir fræðasvið eða deildir

· Er í vinnslu hjá starfshópi háskólaráðs, sbr. hér að framan.

III. KAFLI - Háskólakennarar og sérfræðingar, gr. 28-46.

· Verið er að vinna að endurskoðuðu matskerfi rannsókna og reglum um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna. 

· Þessi efnisatriði munu verða tengd III. kafla með tilvísun til sérstakra reglna um þessi atriði. 

· Slík tilvísun er verður væntanlega felld inn í 2. mgr. 29. gr. 

29. gr. Ákvörðun um ráðningu

· Spurning um hvort ákvörðun um ráðningu stundakennara geti verið á vettvangi deildar eða námsbrautar. Á vegum rektors verður farið sérstaklega yfir þetta með hliðsjón af lögum. 

54. gr.  Kennsla og kennsluhættir

· Hugvísindasvið leggur til að heimilt verði að gera kröfu um þátttöku í kennslustundum og að taka megi tillit til mætingar við einkunnargjöf. 

· Um er að ræða nýmæli - og ef til vill er eðlilegt að tillagan hljóti nánari umfjöllun áður en afstaða er tekin til hennar. 

57. gr. Endurtaka prófs og úrsögn úr prófi [ekki listað á útsendu athugasemdablaði]

· Gerðar eru örlitlar breytingar á texta og jafnframt lagt til að kennslumálanefnd verði falið að skoða sérstaklega fyrirkomulag endurtökuprófa. 

61. gr. Einkunnir, varðveisla þeirra og lágmarkseinkunnir

· Hugvísindasvið leggur til að heimild til þess að gefa staðið/fallið, lokið/ólokið verði útvíkkuð og geti að vissum skilyrðum uppfylltum einnig tekið til annars náms en verklegs náms.

· Tillagan felur í sér umtalsvert nýmæli og endurskoðun á starfsháttum við kennslu og próf - og því er e.t.v. eðlilegt að nánari umfjöllun fari fram áður en afstaða er tekin til hennar. 

66. gr. Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands

· Fram komu fáeinar athugasemdir við hlutverk Miðstöðvar framhaldsnáms. Um er að ræða nýja grein í hinum sameiginlegu reglum þar sem gildandi sérreglur um Miðstöðina eru felldar inn í þær. Reglur um Miðstöðina eru tiltölulega nýjar og voru drög að þeim rædd ítarlega á háskólafundi vorið 2007. 

69. gr. Skipulagt framhaldsnám til meistara- og doktorsgráðu

· Efasemdir komu fram um að taka upp mismunandi heiti meistaragráða, enda þarfnist það sérstakrar umfjöllunar. 

· Hins vegar var tekið undir að skipta 69. gr. í tvær greinar. 

· Lagt er til að gæðanefnd og kennslumálanefnd verði falið að fara yfir efni greinarinnar.

· Gerð er tillaga í 4. tölulið um að ekki skuli heimilt að taka akademískan starfsmann í deild í doktorsnám í sömu deild. 

Rektor þakkaði Þórði fyrir greinargóða kynningu og gaf orðið laust.

Málið var rætt ítarlega og báru fulltrúar á háskólaþingi lofsorði á mikla og vandaða vinnu við undirbúning regludraganna. Í umræðunni var m.a. vikið að eftirtöldum einstökum atriðum málsins. 

Fulltrúi Félags prófessora lagði áherslu á að mikilvægt væri að í tengslum við gerð nýrra reglna yrði hugað að endurskoðun starfshátta háskólaþings. Einnig gerði hann að umtalsefni 6. tölul. 6. gr. um atkvæðisrétt og vægi atkvæða við kosningu rektors annars vegar og námsnefndir deilda, sem hann taldi eiga að fá reglustoð í formi heimildarákvæðis. Varðandi síðasttalda atriðið var því til svarað að þótt ekki væri kveðið á um námsnefndir deilda í reglunum væri deildum og fræðasviðum frjálst að skipa slíkar nefndir. 

Forseti Jarðvísindadeildar ræddi skilgreiningu hugtaksins „akademískir starfsmenn“ í 28. gr. og greinarmuninn á prófessorum, dósentum og lektorum annars vegar og vísindamönnum, fræðimönnum og sérfræðingum hins vegar. Vísaði hann í þessu sambandi til 69. gr. þar sem segir að aðeins kennarar í fyrri hópnum geti verið leiðbeinendur í doktorsnámi en ekki vísindamenn. Taldi deildarforsetinn að eyða ætti þessum greinarmun. Var því svarað að almenna skilgreiningin á hugtakinu „akademískur starfsmaður" væri sá sem ráðinn er á grundvelli dómnefndarálits. Ekkert væri því til fyrirstöðu að aðrir en þeir sem taldir væru í 69. gr. gætu verið leiðbeinendur ef þeir uppfylltu akademískar kröfur. 

Forseti Menntavísindasviðs gerði að umtalsefni muninn á reglum Háskóla Íslands og þeim reglum sem gilt hefðu í Kennaraháskóla Íslands. Taldi hann að síðarnefndu reglurnar ættu að sumu leyti betur við Menntavísindasvið en reglur Háskóla Íslands, einkum hvað varðar sjálfstæði deilda og þverfræðilega samvinnu. Þar sem setning sameiginlegra reglna fyrir Háskóla Íslands væri að vissu leyti síðasta formlega skrefið við sameiningu háskólanna skipti máli að hafa þær nægilega sveigjanlegar til að venjur og starfshættir ólíkra fræðasviða rúmuðust innan þeirra. Með öðrum orðum væri setning nýrra reglna fyrir Háskóla Íslands tækifæri til að hugsa ýmsa hluti upp á nýtt. 

Forseti Félags- og mannvísindadeildar spurði um verklag við endurskoðun reglnanna. Deildin hefði skilað umsögn og athugasemdum, en aðeins sumar þeirra hefðu ratað inn í regludrögin en aðrar ekki. Spurði deildarforsetinn hvert áframhald málsins yrði og hvort gert væri ráð fyrir frekara samráðsferli og hvort enn væri hægt að senda inn athugasemdir og tillögur. 

Fulltrúi Raunvísindastofnunar lagði einnig orð í belg varðandi umræðuna um málsmeðferð og óskaði eftir því að stofnunin fengi tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum. Gilti þetta sérstaklega um endurskoðun á stofnunum Háskólans sem áformað væri að ráðast í þegar reglusetningunni væri lokið. 

Í svari til forseta Menntavísindasviðs, forseta Félags- og mannvísindadeildar og fulltrúa Raunvísindastofnunar kom fram að þótt Menntavísindasvið stæði á grunni fyrrverandi Kennaraháskóla Íslands þar sem skipulagið hafi verið með nokkuð öðrum hætti en innan Háskóla Íslands, skipti máli fyrir einingu starfseminnar að fella skipulag fræðasviðsins að almennu skipulagi Háskóla Íslands. Mikil áhersla hefði verið á að hafa gott samráð um mótun reglnanna og yrði svo áfram. Hins vegar hefði verið ákveðið að ljúka reglusmíðinni fyrir 1. júlí og því væri málið á lokastigi. Þótt áfram yrði leitast við að taka mið af framkomnum sjónarmiðum þyrfti að setja skýr tímamörk fyrir lúkningu vinnunar, t.d. 10 dögum eftir háskólaþingið. Voru fulltrúar á þinginu hvattir til að senda inn athugasemdir á þeim tíma. 

Annar fulltrúi Menntavísindasviðs sagðist hvorki vera sammála því sjónarmiði forseta fræðasviðsins um að reglurnar þyrftu að vera mjög sveigjanlegar og veita svigrúm til undanþága fyrir sviðið né því sjónarmiði af fella þyrfti Menntavísindasvið alfarið undir sameiginlegar reglur Háskóla Íslands. Hvorugt sjónarmiðið væri fullnægjandi eitt og sér. Þess í stað ætti í 1. gr. reglnanna að skilgreina, hver Háskóli Íslands væri og hver hann vildi vera. Staðreyndin væri sú að þótt Háskólinn væri mjög fjölbreytt samfélag væru engar skýrar reglur til um þverfræðilegt samstarf. Þess í stað byggði allt skipulagið á sjálfstæðum og aðgreindum einingum, fræðasviðum, deildum, námsbrautum o.s.frv. Í háskólum í Bandaríkjunum t.d. væri ekki byggt á slíkri „kassahugsun“ og greiddi það götu fjölbreytilegs þverfræðilegs samstarfs. 

Forseti Félags- og mannvísindadeildar gerð að sérstöku umtalsefni heiti stjórnsýslusviða sameiginlegrar stjórnsýslu og sagði betur fara á því að þau yrðu kölluð skrifstofur til að forðast rugling við fræðasvið skólans. Þannig gæti heiti kennslusviðs verið skrifstofa kennslu, heiti vísindasviðs skrifstofa vísinda o.s.frv., sem félli að auki vel að heitinu skrifstofa rektors. 

Forseti Viðskiptafræðideildar vék að 69. gr. regludraganna sem fjallar um skipulegt framhaldsnám til meistara- og doktorsgráðu. Taldi hann til bóta að greininni yrði skipt í tvo hluta en spurði jafnframt, hvort skynsamlegt væri að gera greinarmun á heitum meistaragráða eftir því hvort námið fæli í sér rannsóknaritgerð eða ekki. Í Viðskiptafræðideild væri t.d. boðið nám til MBA- og Master of Accounting-gráðu sem væri meistaranám án rannsóknaritgerðar. Í öðrum tilvikum væri gert ráð fyrir 30 ETCS rannsóknaritgerð. Með framangreindum greinarmun skapaðist hætta á að sumar tegundir meistaranáms yður settar skör lægra en aðrar.

Forseti Hugvísindasviðs beindi sjónum að 27. gr., um stofnanir sem heyra undir fræðasvið eða deildir, og lagði einnig orð í belg varðandi umræðuna um hugtakið „akademískir starfsmenn“ fyrr á fundinum. Sagði hann Hugvísindasvið vilja nota hugtakið „fastir kennarar“ til að tryggja að aðjunktar verði með í þessum hópi, enda beri þeir oft mikla faglega ábyrgð. Einnig vék forsetinn að ákvæðum regludraganna um skipan dómnefnda og hlutfalli kynjanna í þeim. Þótt ljóst væri að fylgja þurfi landslögum um þessi mál teldi Hugvísindasvið til bóta að kveða sérstaklega á um það í reglum fyrir Háskóla Íslands að háskólaráð skyldi ætíð tilnefna tvo, konu og karl, þannig að ekki yrðu vandræði þegar kæmi að skipun ytri sérfræðings í dómnefndum. 

Forseti Heilbrigðisvísindasviðs ræddi um staðgengil forsetans í fjarveru eða forföllum hans. Sagði hann Heilbrigðisvísindasvið hafa ákveðið þá skipan mála að deildarforsetar leystu forseta fræðasviðsins af í 6 mánuði í senn í forföllum og væri fylgt stafrófsröð nafna deildarforsetanna. Einnig vék forsetinn að ákvæðum regludraganna um námsbrautir. Af því ákvæði mætti skilja að ef deild væri skipað í námsbrautir þá þyrfti það að ná yfir allar greinar sem væru kenndar í deildinni. Taldi hann heppilegra að skýrt væri að heimilt væri að skipa námsbrautir innan deilda utanum tilteknar námsleiðir. Loks vék forseti Heilbrigðisvísindasviðs að umræðunni fyrr á fundinum um tvo flokka akademískra starfsmanna, þ.e. lektora, dósenta og prófessora annars vegar og sérfræðinga, fræðimenn og vísindamenn hins vegar. Taldi hann þetta fyrirkomulag óheppilegt, bæði vegna þess að greinarmunurinn væri óskýr í hugum margra og einnig vegna þess að starfsmenn í síðarnefnda flokknum hefðu ekki kennsluskyldu sem leiddi til þess að ef þeir önnuðust kennslu þyrfti að greiða fyrir það í formi yfirvinnu. 

Fulltrúi Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum greindi frá því að um Tilraunastöðina hefðu hingaðtil gilt sérlög, en væntanlega yrði þess ekki langt að bíða að hún félli undir lög og reglur Háskóla Íslands. Þetta vekti margar spurningar, t.d. um mögulega ábyrgð stofnunarinnar á meistara- og doktorsnemum. Fagnaði fulltrúinn því að búið væri að skipa starfshóp um málefni rannsóknastofnana og óskaði eftir að samráð yrði haft við viðkomandi stofnanir þótt þær heyrðu ekki undir fræðasvið og deildir skv. núverandi fyrirkomulagi. 

Forseti Sagnfræði- og heimspekideildar taldi að þótt tekið hefði verið tillit til margra ábendinga í fyrirliggjandi regludrögum stæði tvennt útaf. Í fyrsta lagi segði í 60. gr. um prófverkefni og mat úrlausna að „einkunnir skulu birtar í síðasta lagi tveimur vikum eftir hvert próf, en þremur vikum eftir hvert próf á próftímabili í desember.“ Hér væri kveðið á um styttingu skilafrestsins frá því sem áður hefur verið sem gerði kennurum í fjölmennum námskeiðum örðugt um vik. Í öðru lagi lagði deildarforsetinn til að í stað hugtaksins „námsbrautarstjóri“ yrði notað „formaður námsbrautar“.

Að umræðu lokinni færði rektor öllum sem að reglusmíðinni hefðu komið miklar þakkir, sérstaklega Þórði Kristinssyni, en einnig Ingibjörgu Halldórsdóttur, lögfræðingi Háskólans, Önnu Agnarsdóttur, Sigríði Ólafsdóttur og Sigrúnu Ingibjörgu Gísladóttur, fulltrúum í háskólaráði og Kristínu Benediktsdóttur, doktorsnema í Lagadeild.

Þá rifjaði rektor stuttlega upp forsögu málsins. Á háskólafundi 19. maí 2000 hefði verið fjallað um drög að nýjum reglum fyrir Háskóla Íslands í kjölfar laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999. Með þeim lögum hefði orðið sú grundvallarbreyting að Háskóli Íslands hefði sjálfur fengið reglugerðarvaldið, en áður hefði það fallið í hlut menntamálaráðherra að setja Háskólanum reglur. Enda þótt nú væri verið að setja Háskólanum reglur á grunni nýrra laga um opinbera háskóla og breytts skipulags skólans, hefðu breytingarnar á reglunum vorið 2000 verið mun róttækari en nú, bæði hvað varðaði framsetningu þeirra og efni. Háskólinn byggi að þeirri vinnu nú.

Rektor bar upp til samþykktar, að drögum að endurskoðuðum reglum fyrir Háskóla Íslands verði vísað til rektors ásamt ábendingum og athugasemdum sem fram komu á háskólaþingi 15. maí 2009. Fulltrúum a háskólaþingi verði gefinn kostur á að senda inn athugasemdir á næstu 10 dögum. Gengið verði frá reglunum í júní nk. og þær taki gildi frá og með 1. júlí 2009. 

- Samþykkt einróma 

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Þórðar Kristinssonar, þau Allyson Macdonald, Ástráður Eysteinsson, Bryndís Brandsdóttir, Eggert Þór Bernharðsson, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Ingjaldur Hannibalsson, Jón Torfi Jónasson, Magnús Tumi Guðmundsson, Rúnar Vilhjálmsson, Sigurður Guðmundsson og Sigurður Ingvarsson.

Kl. 14.45-15.10: Fundarhlé

Kl. 15.10-16.30 - Dagskrárliður 3: Umsögn um drög að endurskoðuðu matskerfi rannsókna.

Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, gerði grein fyrir málinu. Halldór lagði í upphafi máls síns áherslu á að fyrir lægju viðamiklar athugasemdir og ábendingar um tillögu vísindanefndar frá öllum fræðasviðum skólans, einstökum deildum og kjarafélögunum. Hann vísaði til fyrirliggjandi greinargerðar, sem unnin hefur verið á vettvangi rektors og forseta fræðasviða, en þar er að finna yfirlit um þær athugasemdir sem borist hafa og vangaveltur um það hvernig við þeim megi bregðast.

Endurskoðunarferlið

· Stefna Háskóla Íslands 2006-2011.

- Markmið um endurskoðun ákveðinna atriða.

· Tillaga vísindanefndar.

· Umsagnir fræðasviða, kennarafélaga og fleiri aðila.

- Gagnlegar og uppbyggjandi ábendingar.

· Áfram verði unnið úr tillögu vísindanefndar, ábendingum umsagnaraðila og sjónarmiðum háskólaþings á vettvangi rektors og forseta fræðasviða.

· Haft verður samráð við Menntavísindasvið, sem ekki hefur átt beina aðild að mótun tillagna á fyrri stigum, m.a. verður lögð áhersla á undirbúning sambærilegra gagna um fræðasviðið (2006).

Áætluð gildistaka nýs matskerfis

· Breytingum verði lokið fyrir árslok 2009.

· Nýtt rannsóknamatskerfi gildi frá ársbyrjun 2010.

· Verði fyrst notað við mat á verkum sem birtast árið 2010, þ.e. kemur til framkvæmda í ársbyrjun 2011.

Stefna Háskóla Íslands 2006 til 2011

· Birtingum í ISI tímaritum fjölgi um 100%, að slíkar greinar fái aukið vægi.

· Sérstök umbun fyrir bestu tímarit heims á hverju fræðasviði.

· Bækur sem birtast hjá helstu útgefendum heims fái aukið vægi.

· Hvatt til birtinga í virtum ritrýndum íslenskum tímaritum.

· Fjölhöfundagreinar fái meira vægi og aðalhöfundur fái fleiri stig en meðhöfundar.

· Tekið verði tillit til veittra styrkja úr samkeppnissjóðum.

· Efla nýsköpun og tengsl við atvinnu- og þjóðlíf.

Meginsjónarmið í núverandi kerfi

· Strangar fræðilegar kröfur. 

- Ritrýni. 

- Höfnunarhlutfall. 

- Birtingarvettvangur, vinnubrögð útgefanda.

· Dreifing, aðgengi og áhrif. 

- Er ritverkið aðgengilegt með hefðbundnum aðferðum.

· Deiliregla vegna fjölhöfundaefnis. 

- Stig *1,5/fjölda höfunda (ef tveir). 

- Stig *1,8/fjölda höfunda (ef þrír). 

- Stig *2/fjölda höfunda (ef fjórir eða fleiri).

Tillaga vísindanefndar

· Ný deiliregla - aðalhöfundur.

· Meistararitgerðir ekki lengur metnar.

· Breytt mat á bókum og bókaköflum.

· Ráðstefnurit.

· Nýsköpun og tengsl við atvinnu- og þjóðlíf.

· Styrkir úr samkeppnissjóðum.

· Aðferð við flokkun tímarita (könnun).

Deiliregla samkvæmt tillögu vísindanefndar

· Meginforsendur tillögu vísindanefndar.

- Vægi bestu birtinga á öllum fræðasviðum er aukið.

- Vegna ólíkra hefða um höfundafjölda eru grunnstig fyrir tímaritaflokka mismunandi (eins og áður).

- Aðalhöfundur fær öll stig óskert (nýtt).

- Deilt með kvaðratrót af höfundafjölda og meðhöfundar fá stig samkvæmt því (nýtt).

· Vakti sterk viðbrögð.

- Enn er mismunur á milli ISI og annarra greina.

- Of langt gengið í mati á fjölhöfundaefni.

- Erfitt að greina hver sé aðalhöfundur.

Um mismunandi „gagnagrunna“

· ISI - Web of Science.

- Science Citation Index.

- Social Science Citation Index.

- Arts & Humanities Citation Index.

· European Research Index for Humanities (ERIH).

- Á vegum European Science Foundation.

- Ný flokkun sem enn er í vinnslu.

- Flokkar tímarit í 15 greinum hug- og félagsvísinda, þ.m.t. menntavísindi.

· Scopus.

- Mjög sambærilegur við ISI - virðist ekki bæta miklu við.

- Verið að skoða m.t.t. félagsvísinda.

· Aðrir grunnar.

Grunnstig tímaritsgreina

Núverandi kerfi Tillaga vísindanefndar 
 ISI, 10% hæsti áhrifastuðull  -  25
 ISI, hin 90%  15  20
 Aðrar ritrýndar greinar  10  5 til 15

Vandinn í hnotskurn

· Ógagnsæi.

· Samanburður erfiður.

· Meint ójafnræði á milli fræðasviða.

· Veldur misskilningi.

· ISI grein gefur 15 grunnstig .

- Gefur hverjum höfundi í raun 5,45 stig að meðaltali.

· Grein utan ISI getur að hámarki gefið 10 grunnstig.

- Gefur hverjum höfundi í raun 7,14 stig að meðaltali.

Rauntölur um fjölda höfunda 2006

ISI greinar Aðrar ritrýndar
Fjöldi greina  350 173
Fjöldi höfunda 1943 357 
Meðaltal höfunda  5,5  2,1 
Fjöldi höfunda frá HÍ  459  201 
Meðaltal höfunda frá HÍ  1,3  1,2 

Fjöldi höfunda tímaritsgreina 2006

Fjöldi höfunda  ISI  Aðrar  ISI%  Aðrar gr.% 
25  102  7,1 

59 

47  31  13,4  17,9 (upps. 76,9) 
69  13  19,7  7,5 
51  14  14,6  8,1 
45  12,9 (upps. 67,7)  2,9 (upps. 95,4) 
17  4,9  0,6 
23  6,6  0,6 
20  5,7  0,6 
13  3,7 (upps. 88,6)  0,6 
10+  40 (10-45)  4 (10-12)  11,4  2,2 
Alls  350  173  100 

100 

Nánar um ERIH - I

· Ekki gagnagrunnur - flokkun byggð á jafningjamati.

· Flokkar tæplega 6000 tímarit í þrjá flokka:

- A (21%), B (46%) og C (33%).

· Meginsjónarmið við flokkun eru ritrýni og alþjóðleg skírskotun.

· Íslensk tímarit í ERIH:

- Ekkert er í A, 

- 5 í B og 

- 14 í C.

Nánar um ERIH - II

· HÍ höfundar birtu 68 greinar í tímaritum árið 2006 sem nú eru flokkaðar í ERIH.

· Þar af voru 22 greinar einnig ISI greinar.

· 46 af 173 „öðrum ritrýndum greinum“ eru flokkaðar í ERIH (27%).

· Skipting 68 ERIH greina í flokka:

- 8 eru í A flokki og allar líka ISI.

- 41 í B flokki, þar af 14 líka ISI.

- 19 í C flokki.

Tilraun með nýja deilireglu og flokkun tímaritsgreina

· Forsendur deilireglu.

- Eingöngu deilt með fjölda höfunda frá HÍ.

- Nemendur ekki meðtaldir.

- Sama aðferð notuð við deilingu og í gildandi deilireglu.

- Horfið frá hugmyndum um að umbuna aðalhöfundi sérstaklega.

· Stigaflokkar tímarita verði

- 20 - tímarit í A-flokki ERIH + 10% efstu ISI tímarita + val, skv. könnun.

- 15 - tímarit í B-flokki ERIH + 90% ISI tímarita + val, skv. könnun.

- 10 - tímarit í C-flokki ERIH + val, skv. könnun.

- 5 - val, skv. könnun.

Stig samkvæmt nýrri deilireglu

Einn HÍ höf.  Tveir HÍ höf.  Þrír HÍ höf.  Fjórir HÍ höf. 
Grunnst. 20  20  15 (30)  12 (36)  10 (40) 
Grunnst. 15  15  11,25 (22)  9 (27)  7.5 (30) 
Grunnst. 10  10  7,5 (15)  6 (18)  5 (20) 
Grunnst. 5  3,75 (7,5)  3 (9)  2,5 (10) 

Kostir nýrrar deilireglu og breyttrar flokkunar tímarita

· Tímaritsgreinar metnar á jafnréttisgrundvelli.

- Sami fjöldi grunnstiga fyrir sambærileg verk óháð hefðum fræðasviðanna.

· Aukið gagnsæi og samanburður á milli fræðasviða verður einfaldari.

· Stig höfunda skerðast minna fyrir fjölhöfundaefni.

- Bestu ritverk hvers fræðasviðs fá aukið vægi.

· Stigahámark á hverju ritverki.

· Hvetur áfram til samstarfs.

- Innan Háskóla Íslands en ekki síður við aðila utan Háskólans.

Til athugunar vegna nýrrar deilireglu

· Reglan veldur talsverðri verðbólgu.

- Um 12% miðað við núverandi útfærslu.

· Lækka grunnstig?

· Breyta viðmiðunum í öðrum kerfum?

· Blönduð leið?

· Hvort jafnræði ríki á milli ISI og ERIH.

- 10% hæsti áhrifastuðull vs. 21% í A-flokk ERIH.

· Aðalhöfundur.

- Enn til athugunar hvernig hægt yrði að umbuna aðalhöfundi sérstaklega.

Ábendingar sem brugðist verður við

· Meistararitgerðir.

· Skilgreina betur einstaka flokka bóka og bókakafla.

- Alþjóðleg skírskotun.

· Þak á fjölda ráðstefnugreina (erinda, veggspjalda).

· Of langt gengið þegar innlend ritrýnd ráðstefnurit eru lækkuð í 3 stig?

· Ekki hægt að gera kröfu um að (10 stiga) ráðstefnurit komi út reglulega.

· Hvaða skilyrði þarf ráðstefna að uppfylla til að teljast alþjóðleg?

· Ritstjórn, ritdómar og þýðingar.

- Verði metin til fleiri stiga undir vissum kringumstæðum.

· Sprotafyrirtæki og einkaleyfi, skoða með hugverkanefnd.

· Nýsköpun í A-hluta (krafa um birtingarform nýrrar þekkingar).

- Opna þetta ákvæði fyrir öll fræðasvið.

· Styrkir úr samkeppnissjóðum.

- uppruni styrkja vegi meira en fjárhæð minna.

- skýra þarf betur hver fær stigin (deiliregla).

· Lagafrumvörp geti gefið fleiri stig í vissum tilvikum.

· Matskerfi og óskir Menntavísindasviðs verði skoðað sérstaklega í vinnu við samræmingu matskerfanna.

· „Sérstakt mat“.

· Áfrýjunarleið.

Næstu skref

· Rektor og forsetar fræðasviða hafa farið yfir umsagnir og undirbúið málið fyrir háskólaþing.

· Háskólaþing fjallar um endurskoðun matskerfis í dag.

· Unnið verði áfram að málinu á vegum rektors og forseta fræðasviða í því skyni að ná sátt um endurskoðað kerfi innan Háskólans í haust.

Í lokin ítrekaði Halldór að hugmynd að nýrri deilireglu vegna fjölhöfundaefnis væri tilraun sem hefði ýmsa kosti, en margt benti engu að síður til þess að hún gengi ekki upp. Þessi tillaga væri því marki brennd, líkt og tillaga vísindanefndar, að hún ylli of mikilli verðbólgu í kerfinu og krefðist því annað hvort viðamikilla hliðarráðstafana, sem m.a. þyrftu að fela í sér breytingar á deililíkani vegna rannsókna og jafnvel breytingar á kjarasamningum, eða almenn niðurfærslu stiga fyrir einstök ritverk í matskerfinu. Halldór benti á að veruleg lækkun grunnstiga, fyrir t.d. hefðbundin vísindatímarit, þætti ekki æskileg og fæli í sér óheppileg skilaboð. 

Halldór ítrekaði að framundan væri mikil vinna með fulltrúum fræðasviðanna við að leið þetta mikilvæga mál til lykta. Ekki mætti gleyma því, að þó sitt sýnist hverjum um einstök atriði kerfisins, væri brýnt að hafa hugfast að hvatakerfið hefur eflt rannsóknastarf Háskólans gríðarlega undanfarin ár. Við lausn málsins verður að líta til heildarhagsmuna Háskóla Íslands.

Rektor þakkaði Halldóri fyrir framsöguna og gaf orðið laust. 

Málið var rætt ítarlega og komu fram fjölmörg sjónarmið og ábendingar. 

Forseti Félagsvísindasviðs sagði að viðbrögð fræðasviðsins við fyrstu tillögum vísindanefndar að endurskoðuðu matskerfi hefðu verið mjög gagnrýnin. Í framhaldinu hefði verið farið vandlega yfir málið með aðstoðarrektor vísinda og kennslu og vísindasviði og hefði góður andi verið í þeim hópi. Mikilvægt væri að gera sér grein fyrir því að hér væri um að ræða flókið mál sem hefði áhrif víða. Með Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 hefðu verið sett metnaðarfull markmið um framúrskarandi rannsóknir og kennslu og hefði m.a. átt að ná þeim með því að bæta hlutfall kennara og nemenda. Fyrir hefði legið að þetta myndi kosta mikla peninga og hefði samningur Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytisins um fjármögnun stefnunnar gefið von um að takast mætti að ná settum markmiðum. Nú væru aðstæður hins vegar gerbreyttar. Í kjölfar efnahagshrunsins væri búið að fresta framkvæmd samningsins og það hefði m.a. í för með sér að öll tilfærsla fjármuna á milli skipulagseininga innan Háskólans yrði erfiðari en ella. Samkvæmt fyrstu tillögum vísindanefndar um endurskoðað matskerfi rannsókna hefði virst sem færa ætti umtalsvert fé á milli fræðasviða, einkum frá þeim fræðasviðum sem væru í lægstu reikniflokkum og fengju minnst fyrir kennslu, til þeirra sem fengju meira fé fyrir kennslu og fengju þá einnig meira fyrir rannsóknir. Gagnrýnin viðbrögð Félagsvísindasviðs þyrfti því að skoða í því ljósi að hlutfall kennara og nemenda innan fræðasviðsins væri u.þ.b. 1:50 og í sumum tilvikum allt að 1:80. Þá væru ýmis einstök mál varðandi matskerfið óútkljáð, s.s. varðandi fjölhöfundaregluna. Í framsögunni hefði verið kynnt ný tillaga um fjölhöfundareglu sem virtist áhugaverð. Þetta þyrfti allt að ræða betur og væri mikilvægt að sú umræða tengdist öðrum peningamálum. 

Forseti Heilbrigðisvísindasviðs sagði að mikil vinna hefði verið lögð í þetta mál og það hefði verið rætt af ákefð innan skólans. Eins og fram hafi komið í framsögunni ætti málið sér langan aðdraganda sem rekja mætti allt aftur um áratug. Í núverandi matskerfi væri innbyggt mikið ójafnræði, einkum gagnvart heilbrigðisvísindum og verkfræði- og raunvísindum, þar sem höfundar eru iðulega fleiri en einn og birta niðurstöður sínar í hópum. Það væri staðreynd að munur væri á eðli rannsókna á milli fræðasviða, en ekki á mikilvægi og gæðum rannsóknanna þótt aðferðir og hefðir væru ólíkar. Sú tillaga að fjölhöfundareglu sem kynnt hefði verið í framsögunni virtist í fljótu bragði til þess fallin að draga úr þessu ójafnræði. Þá þyrfti að skoða sérstaklega hlutfall ERIH-greina í A-flokki og hlutverk aðalhöfunda í rannsóknahópum. Mikilvægast væri þó í allri vinnunni við endurskoðun matskerfisins að hvika ekki frá metnaðarfullum vísindamarkmiðum stefnu Háskólans og að leysa málið í sátt og sameiningu innan alls Háskólans. 

Forseti Lagadeildar sagðist líta svo á að málið væri til skoðunar en ekki afgreiðslu. Tók deildarforsetinn undir með forseta Félagsvísindasviðs að það væri mikið áhyggjuefni ef breytingartillögurnar myndu hafa í för með sér umtalsverðan flutning á fjármunum á milli fræðasviða, einkum ef það bitnaði á þeim fræðasviðum sem einnig hallaði á varðandi fjármögnun kennslu. Ekki væri unnt að líta framhjá þessu. Þar sem framundan væri mikill niðurskurður fjárveitinga til Háskóla Íslands í kjölfar efnahagshrunsins yrði breytingum á rannsóknamatskerfinu ekki mætt með nýju fé heldur aðeins með tilflutningi fjár innan skólans. Þá sagði deildarforsetinn að við Lagadeild væru mikil rannsóknaafköst. Fyrir það ætti að umbuna deildinni en ekki refsa henni með því að draga hugsanlega úr vægi mats fyrir að þjóna íslensku samfélagi. Í fyrirliggjandi tillögum væri of einhliða áhersla á alþjóðlegar birtingar sem hefði í för með sér að ef fræðibók hefði ekki alþjóðlega skírskotun væri hún samstundis sett skör lægra en að öðrum kosti. Þar fyrir utan ætti alveg eftir að skilgreina hvað fælist í alþjóðlegri skírskotun, nýsköpun og þjónustu við atvinnulíf. 

Fulltrúi Félags prófessora sagði að innan félagsins hefði mikið verið fjallað um upphaflegar tillögur vísindanefndar, en þær tillögur sem nú væru komnar fram væru all frábrugðnar þeim. Það væri framför að nú væri greint á milli tegunda ISI-tímarita, gerður greinarmunur á bókum og bókarköflum með alþjóðlega skírskotun og sem uppfyllir strangar vísindalegar kröfur annars vegar og lítt ritrýndu efni hins vegar. Um fjölhöfundagreinar sagði fulltrúinn að þær myndu leiða til fjölgunar birtinga og hefði Félag prófessora sett fram tillögur í þessu efni. Ekki væri óyfirstíganlegt vandamál hvernig gera mætti greinarmun á framlagi aðalhöfundar og annarra höfunda. Þá sagðist fulltrúinn hafa efasemdir um fyrirliggjandi tillögu um mat á meistararitgerðum, enda gætu sumar þeirra haft að geyma mikilsvert vísindalegt framlag. Að lokum hélt fulltrúinn fram þeirri skoðun að meðal fræðimanna væri miklu meira sammæli um gildi birtinga í vísindatímaritum en um mat á bókum. Bækur gætu verið allt frá 100 bls. að umfangi til stórra doðranta sem geymdu heilt ævistarf. Allt félli þetta undir flokkinn „bækur“ og því þyrfti að gera skýrari greinarmun á þeim. Loks væru bókakaflar óaðgengilegri en tímaritsgreinar og því þyrfti að fara betur yfir hvernig þeir eru metnir. 

Sviðsstjóri vísindasviðs svaraði helstu framkomnum athugasemdum. Byrjaði hann á því að taka fram að endurskoðaðar matsreglur tækju ekki gildi fyrr en árið 2011 fyrir mat á birtingum ársins 2010. Áhrifin af sumum breytingum í gegnum deililíkan skólans kæmu því ekki fram fyrr en um 2014 og þá gætu verið komnar allt aðrar aðstæður í íslensku efnahagslífi. Almennt hefði matskerfi Háskóla Íslands óvenju breiðan matsgrunn miðað við háskóla í öðrum löndum sem sum hver einblíndu á tiltekna birtingarflokka. Lagði hann áherslu á að fundin yrði lausn sem leiðrétti það ranglæti sem verið hefði í eldra matskerfi án þess að stuðla að deilum á milli fræðasviða. Orðaði hann það svo að það væri ekki vandamál að sum fræðasvið og deildir kæmu vel út í kerfinu, en það væri hins vegar vandamál að aðrar deildir og fræðasvið kæmu illa út úr því. Þá tók sviðsstjórinn undir það sjónarmið að skoða þyrfti betur mat á sprotafyrirtækjum og lagafrumvörpum. Lagafrumvörp gætu verið af ólíku tagi, ýmist smávægileg eða réttnefnd stórvirki með vísindalegu nýmæli. Einnig tók hann undir þá athugasemd að mat á bókarköflum þyrfti að taka mið af breytileika þeirra. Hvað tímaritsgreinar varðaði gilti hins vegar að þær væru það algengt birtingarform sem hlyti óhjákvæmilega að leiða til þess að matið verði að mestu vélrænt. Bækur væru hins vegar mun óalgengara birtingarform sem gæfi aukin sveigjanleika til gæðamats þar sem farið væri nákvæmlega ofan í hvert verk. 

Forseti Hagfræðideildar lagði áherslu á að niðurskurður fjárveitinga til Háskólans myndi óhjákvæmilega leiða til sársaukafullra sparnaðar- og hagræðingaraðgerða. Mikilvægt væri að það yrði gert í sátt. Á slíkum tímum væri ekkert mál líklegra til þess að valda deilum en matskerfi rannsókna sem ræður svo miklu um ráðstöfun fjármuna Háskólans. Ekki væri unnt að leysa ágreining um matskerfið án þess að einhverjir yrðu óánægðir og betra að fresta málinu um nokkur ár. Sagði deildarforsetinn fyrirliggjandi tillögur vera óásættanlegar fyrir Félagsvísindasvið, en deildir þess hefðu búið við mikið óréttlæti varðandi skiptingu fjármuna í mörg ár. Á fræðasviðinu væri mjög óhagstætt hlutfall á milli nemenda og kennara og undir þeim kringumstæðum væri óráð að leggja fram tillögu um enn meiri millifærslu fjár frá félagsvísindunum til annarra fræðigreina. Tillögurnar mótuðust af aðstæðum á vettvangi heilbrigðisvísinda og raunvísinda. „Fjölhöfundagreinar“ væri hugtak sem aðeins þekktist á sumum fræðasviðum en væri með öllu óþekkt á öðrum. Einnig væri sú hugmynd röng að leggja áherslu á höfunda innan Háskóla Íslands og meta lítils samstarf við t.d. fræðimenn við aðra innlenda háskóla eða erlenda háskóla. Í stað þess að breyta öllu kerfinu væri betra að taka frá t.d. 20-30 m.kr. og mynda afrekssjóð fyrir heilbrigðisvísindin eða önnur fræðasvið þar sem fjölhöfundabirtingar tíðkuðust.

Annar fulltrúi Félagsvísindasviðs tók í svipaðan streng og sagði sterk rök vera fyrir því að önnur verkefni væru brýnni en endurskoðun vinnumatskerfisins. Þótt núverandi matskerfi væri ekki gallalaust væru breytingartillögurnar sem til umræðu væru svo umdeildar að erfitt yrði að ná sátt um þær. Á tímum efnahagslegra erfiðleika skipti mestu að einbeita sér að aðalatriðunum og því að komast í gegnum brimrótið.

Aðstoðarrektor vísinda og kennslu lagði áherslu á að aðalatriði endurskoðunar matskerfisins væri að leita leiða til að umbuna fyrir það sem best væri gert í rannsóknum á hverju fræðasviði. Núverandi matskerfi væri úrelt og tímabært að endurskoða það. Margt sem vel væri gert væri lítils metið í kerfinu. Til dæmis fengju höfundar fjölhöfundagreina aðeins fá stig þótt þeir birtu í bestu vísindatímaritum heims. Mikilvægt væri að umræðan um endurskoðunina færi fram á sjálfstæðum og málefnalegum forsendum og að henni yrði haldið aðskilinni frá umræðunni um deililíkan vegna kennslu og rannsókna. Endurskoðun þess væri sjálfstætt verkefni sem kæmi í kjölfarið. Vinnunni við endurskoðun rannsóknamatskerfisins væri ekki lokið, fram hefðu komið fjölmargar umsagnir sem leitast hefði verið við að taka tillit til og framundan væru engin óyfirstíganleg verkefni. Þá minnti hann á að á grundvelli samnings Háskólans við menntamálaráðuneytið hefði nú þegar verið ýmislegt gert til að rétta hlut Félagsvísindasviðs, t.d. hefði fræðasviðið fengið 6 af 19 nýjum störfum í fyrstu úthlutun og gert hefði verið ráð fyrir margvíslegum frekari aðgerðum.

Annar fulltrúi Félagsvísindasviðs sagði það vera höfuðgalla á núverandi kerfi að það tæki ekki nægilegt tillit til gæða birtingarvettvangs. Þannig lægi stærsta ágreiningsefnið varðandi fjölhöfundaefni í sjálfum breytingartillögunum því þær gerðu aðeins illt verra. Framkomin gagnrýni á tillögurnar snérist ekki síst um það að á þeim fræðasviðum þar sem væru starfandi stórir rannsóknahópar ætti sér stað mikil greinafjölgun. Þetta hefði ekkert með það að gera hversu margir höfundar slíkra greina væru innan Háskóla Íslands. Ef tveir vísindamenn tækju sig saman og stofnuðu rannsóknahóp yrðu óðara úr því fleiri greinar en ella. Í breytingartillögunum við upphaflegar tillögur vísindanefndar væri mikið gefið eftir gagnvart fjölhöfundagreinum, sem margir teldu þó að væru ofmetnar fyrir. 

Forseti Jarðvísindadeildar hélt því fram að málið snérist um réttlæti og launamál einstaklinga. Núverandi kerfi umbunaði eldri starfsmönnum og refsaði ungum vísindamönnum, þótt tillögurnar væru vissulega spor í rétta átt. Það væri misskilningur að líta á tillögurnar í ljósi heilla fræðasviða þegar málið snérist fyrst og fremst um einstaklinga, launamál þeirra og réttlæti. Lagði deildarforsetinn til að þeim peningum sem væru í pottinum yrði deilt út til fræðasviða miðað við hausatölu og síðan yrði beitt ólíkum reglum við útdeilingu fjár á milli einstaklinga. Þótt þetta hefði í för með sér að rannsóknastig yrðu misverðmæt eftir fræðasviðum gerði það ekkert til. 

Forseti Menntavísindasviðs minnti á að í upphafi hefði matskerfið verið réttlætismál varðandi viðurkenningu á vísindaframlagi einstaklinga. Nú væri hins vegar komin upp sú staða að málið snérist um það hvernig einstaklingum væri mismunað fyrir þau verkefni sem þeir ynnu. Í sjálfu sér ætti þó ekki að vera vandamál að leysa þetta. Spurningin væri, hvernig best væri að búa til nýtt réttlæti og að skilgreina réttláta úthlutun og hvað væru bitastæð verk? Tók fræðasviðsforsetinn fram að hann teldi málið í farsælu ferli og að allar framkomnar athugasemdir væru teknar alvarlega. Þegar búið væri að ræða málið í þaula yrði að taka ákvörðun um það, hvaða vandamál væru hægt að leysa og hver ekki. Ef málið snérist aðeins um vinnumatssjóði væri ekki um að ræða neitt vandamál. Hins vegar væri stigamatskerfið ekki aðeins notað í tengslum við vinnumatssjóði, heldur tæki úthlutun styrkja til doktorsnema einnig tillit til rannsóknastiga leiðbeinandans og þau væru einnig lögð til grundvallar við ákvörðun styrkja til sérstakra rannsóknasviða, auk útdeilingar rannsóknafjár til fræðasviða og deilda. Það væri mikilvægt verkefni að útskýra tengingu þessa kerfis við önnur kerfi og að kúpla kerfunum í sundur. Að öðrum kosti yrði umræðan um rannsóknamatskerfið óðara að umræðu um háskólapólitíkina eins og hún legði sig. 

Fulltrúi stúdenta beindi orðum sínum að skilyrðunum fyrir röðun tímarita í flokka. Benti fulltrúinn á að í tilviki tímaritsins Úlfljótur væri gerð krafa um að ritstjóri hefði að lágmarki meistarapróf og spurði, hvort ástæða væri til að gera slíka kröfu. 

Forseti Matvæla- og næringarfræðideildar sagði það þjóna heildarhagsmunum Háskóla Íslands að tillagan um mat á fjölhöfundagreinum sem kynnt hefði verið í framsögunni næði fram að ganga. Máli sínu til stuðnings benti hún á að viðurkenning á gildi fjölhöfundagreina myndi hvetja til þverfræðilegs samstarfs bæði innan Háskólans og við stofnanir utan hans. Þetta væri ekki aðeins gott fyrir framþróun vísindanna heldur væri þetta einnig hagsmunamál Háskólans, því í þessum stofnunum lægju mikil verðmæti og því skipti máli að Háskólinn tengdist þeim sem best. 

Forseti Stjórnmálafræðideildar sagði að þótt margt væri til bóta í þeim tillögum sem lægju fyrir fundinum væru stór mál enn óleyst. Vandinn við rannsóknamatskerfi Háskólans væri sá að það ætti í senn að vera matskerfi og hvatakerfi. Sumt sem væri gott í mælingaskyni gæti nefnilega verið vont í hvataskyni. Þessi vandi kæmi skýrt fram í umræðunni um fjölhöfundagreinar. Með því að auka vægi þeirra væri að vissu leyti hvatt til misnotkunar með því að fjölga greinum. Þá taldi hann tillögurnar um tengingu við höfunda innan og utan Háskólans ekki skynsamlega. 

Framkvæmdastjóri fjármála og reksturs vék að áhyggjum sumra fundarmanna um að endurskoðað rannsóknamatskerfi myndi leiða til umtalsverðra fjármagnsflutninga á milli fræðasviða. Taldi framkvæmdastjórinn að lausleg áætlun benti til þess að fjármagnsflutningar yrðu óverulegir.

Fulltrúi Raunvísindastofnunar fagnaði framkomnum tillögum um mat á fjölhöfundagreinum. Sagði fulltrúinn slíkar greinar fyrst og fremst endurspegla það hversu marga höfunda hefði þurft til að skrifa tiltekna grein en væri ekki sprottið af launahagsmunum einstaklinganna sem kæmu við sögu.

Að umræðu lokinni bar rektor upp til samþykktar, að á vegum rektors og forseta fræðasviða verði áfram haldið endurskoðun matskerfis rannsókna við Háskóla Íslands á grundvelli þeirra hugmynda sem kynntar voru í framlagðri „Greinargerð um framkomnar athugasemdir um endurskoðun matskerfis við Háskóla Íslands og viðbrögð við þeim" og með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram komu á háskólaþingi 15. maí 2009. Stefnt er að því að endurskoðað matskerfi taki gildi 1. janúar 2010 og komi til fullrar framkvæmdar á árinu 2011.

- Samþykkt með þorra atkvæða, en einn var á móti.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Halldórs Jónssonar, þau Björg Thorarensen, Bryndís Brandsdóttir, Guðmundur R. Jónsson, Gunnar Helgi Kristinsson, Gylfi Zoëga, Inga Þórsdóttir, Jón Atli Benediktsson, Jón Torfi Jónasson, Magnús Tumi Guðmundsson, Ólafur Þ. Harðarson, Rúnar Vilhjálmsson, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Sigurður Guðmundsson, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þórhallur Örn Guðlaugsson.

Að lokum þakkaði rektor fulltrúum á háskólaþingi fyrir góðan fund og málefnalegar umræður og bauð þeim að þiggja hressingu í anddyri Hátíðasalar. 

Fleira var ekki gert. Fundi slitið kl. 16.30. 



Útsend gögn og gögn sem lögð voru fram á 2. háskólaþingi 15. maí 2009:

1. Dagskrá og tímaáætlun 2. háskólaþings 15. maí 2009.

2. Listi yfir fulltrúa á háskólaþingi.

3. Fundargerð 1. háskólaþings 25. september 2008.

4. Um athugasemdir við drög að endurskoðuðum reglum fyrir Háskóla Íslands. (Skjal tilheyrir dagskrárlið 2).

5. Drög að endurskoðuðum reglum fyrir Háskóla Íslands. (Skjal tilheyrir dagskrárlið 2).

6. Tillögur vísindanefndar um breytingar á matskerfi rannsókna og þjónustu. (Skjal tilheyrir dagskrárlið 3). 

7. Greinargerð með endurskoðun vísindanefndar á matskerfi rannsókna og þjónustu. (Skjal tilheyrir dagskrárlið 3).

8. Leiðbeiningar með tillögum vísindanefndar. (Skjal tilheyrir dagskrárlið 3).

9. Greinargerð með mati á íslenskum tímaritum. (Skjal tilheyrir dagskrárlið 3).

10. Greinargerð um framkomnar athugasemdir um endurskoðun matskerfis rannsókna við Háskóla Íslands og viðbrögð við þeim. (Skjal tilheyrir dagskrárlið 3).