Fjör og fræðsla á Nýnemadögum
Háskóli Íslands býður tæplega 4.000 nýnema velkomna með veglegum Nýnemadögum sem fara fram dagana 30. ágúst – 3. september. Þeir verða bæði á netinu og í formi minni viðburða í ljósi samkomutakmarkana.
Það er mikið fagnaðarefni að geta tekið á móti nýnemum og öðrum háskólanemum á háskólasvæðinu nú í haust en alls verða um 14.700 nemendur skráðir í skólann, þar af um 1.600 nemendur með erlent ríkisfang sem er met.
Háskólinn leggur mikið upp úr því að styðja nýnema þegar þeir stíga sín fyrstu skref innan háskólasamfélagsins og býður því upp á margháttaðan stuðning, fræðslu og fjör á Nýnemadögum.
Upplýsingaborð fyrir nýnema verður opið á Háskólatorgi frá kl. 10-14 alla vikuna en þar standa fulltrúar frá Stúdentaráði vaktina og veita ráð og spjalla við nemendur. Þar má fá svör við hinum ýmsu spurningum sem varða skólann, húsnæði, félagslíf, þjónustu og margt fleira.
Stúdentaráð býður nýnemum einnig í gönguferð um háskólasvæðið. Lagt verður af stað frá upplýsingaborði fyrir nýnema á Háskólatorgi kl. 12.20 mánudaginn 30. ágúst og þriðjudaginn 31. ágúst. Hægt er að skrá sig í gönguferðirnar í Uglu, sjá 30. ágúst og 31. ágúst. Einnig er hægt að rölta rafrænt um háskólasvæðið og kynna sér byggingar skólans í sérstöku myndbandi sem skólinn hefur gert.
Instagram-reikningur Háskólans verður tileinkaður nýnemum dagana 30. ágúst til 17. september. Þar verður kynnt ýmis þjónusta, stuðningur og félagslíf sem stendur nemendum til boða. Meðal þeirra sem kynna starf sitt er Stúdentaráð, Háskólakórinn, Háskóladansinn, Náms- og starfsráðgjöf, Nemendaskrá, Alþjóðasvið, Þjónustuborðið Háskólatorgi, Hugrún geðfræðslufélag, Árnastofnun og fulltrúar umhverfis- og sjálfbærnimála í skólanum. Nýnemar og aðrir geta líka horft á myndband þar sem farið er yfir allar helstu upplýsingar sem gott er að hafa á hreinu þegar byrjað er í Háskóla Íslands.
Spurningarleikur fyrir nýnema er hafinn í innri vef skólans, Uglunni. Þar verður spurt um ýmislegt sem tengist háskólalífinu. Glæsilegir vinningar eru í boði, s.s. gjafabréf frá Stúdentakjallaranum og Bóksölu stúdenta, prentkvótar, gjafabréf á haustönn hjá Háskóladansinum, áhugakönnun eða námskeið á vegum NSHÍ að eigin vali, háskólapeysur, kaffikort og fleira.
Grænn nýnemadagur verður haldinn í fyrsta sinn þriðjudaginn 31. ágúst. Þá mun Landvernd afhenda fulltrúum Háskóla Íslands og Stúdentaráðs grænfánann á Háskólatorgi kl. 12.30. Fánanum verður flaggað í þágu loftslagsins við Aðalbyggingu og tré gróðursett við Odda.
Alþjóðasvið býður nýnemum og öðrum nemum að kynna sér spennandi tækifæri á skiptinámi, starfsþjálfun og sumarnámi fimmtudaginn 2. september kl. 12.00-12.20. Kynningin verður á Zoom.
Botninn verður svo sleginn í Nýnemadaga með árlegu knattspyrnumóti Stúdentaráðs sem hefst kl. 11.30 föstudaginn 3. september í skeifunni fyrir framan Aðalbyggingu. Þar geta allir nemar tekið þátt með sínu nemendafélagi og þarf hvert lið að vera skipað 7-10 keppendum, þar af tveim nýnemum. Veitt verða vegleg sigurverðlaun auk farandbikars og þá fær það lið sem er í skemmtilegustu búningunum sérstakan vinning.
Við þetta má bæta að opnuð hefur verið sérstök Facebook-síða fyrir nýnema þar sem þeir geta kynnst hver öðrum og spurt um hvaðeina sem snýr að háskólalífinu.
Nýnemar geta enn fremur fengið svör um allt sem snertir fyrstu skrefin í háskólasamfélaginu á nýnemavef skólans.
Deildir og fræðasvið Háskóla Íslands hafa einnig boðið nýnemum á kynningarfundi á undanförnum vikum, ýmist í litlum hópum eða gegnum netkynningar.
Nánari upplýsingar um dagskrá Nýnemadaga.
Háskóli Íslands býður alla nemendur hjartanlega velkomna.