Skip to main content
6. september 2021

Í áratug í hópi fremstu háskóla heims

Í áratug í hópi fremstu háskóla heims - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands er í 400.-500. sæti á nýjum lista Times Higher Education World University Rankings yfir bestu háskóla heims sem birtur var í liðinni viku. Skólinn hefur nú verið á listanum í heilan áratug. Hann er jafnframt eini íslenski háskólinn sem kemst á bæði lista Times Higher Education og Shanghai-listann sem eru tveir virtustu matslistarnir á þessu sviði.

Listi Times Higher Education hefur verið birtur um árabil og byggist á úttekt tímaritsins á 13 mælikvörðum innan skóla sem snúa að rannsóknastarfi, áhrifum rannsóknanna í alþjóðlegu vísindastarfi, gæðum kennslu, námsumhverfi og alþjóðlegum tengslum. Tímaritið setti metfjölda skóla undir smásjána í ár, alls nærri 1.700 skóla í 99 löndum, og þrátt fyrir harðnandi samkeppni í alþjóðlegu vísindasamfélagi heldur Háskólinn stöðu sinni milli ára. 

Háskóli Íslands komst í fyrsta sinn á lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á aldarafmælisárinu 2011 og hefur verið á honum alla tíð síðan.

Fyrr í sumar birtu samtökin ShanghaiRanking Consultancy sinn lista yfir bestu háskóla heims 2021. Þar reyndist Háskólinn í 500.-600. sæti og hélt þannig stöðu sinni milli ára í harðri samkeppni öflugra rannsóknarháskóla um allan heim. Þetta er fimmta árið í röð sem Háskólinn kemst á Shanghai-listann og sem fyrr er hann þar einn íslenskra háskóla. 

Við þetta má bæta að ShanghaiRanking Consultancy birti einnig í vor lista yfir fremstu háskóla heims á afmörkuðum vísinda- og fræðasviðum. Háskóli Íslands komst þar á 14 lista. Skólinn er þar áfram í allra fremstu röð á sviði fjarkönnunar, í hópi þeirra 45 bestu á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði og í sæti 51-75 í hjúkrunarfræði

Nýjan lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims má finna á vef tímaritsins.