Skip to main content
1. október 2021

Ný vefverslun Háskólaútgáfunnar

Ný vefverslun Háskólaútgáfunnar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskólaútgáfan hleypti nýverið af stokkunum nýjum vef sem er ekki eingöngu upplýsingavefur fyrir höfunda, nemendur og almenning heldur einnig vefverslun. Nýi vefurinn á að auðvelda markaðssetningu útgefinna bóka, einkum á samfélagsmiðlum, og auka sýnileika Háskólaútgáfunnar innan HÍ en einnig út á við. Vefverslunin á að vera þægileg og einföld í notkun, ekki síst í snjalltækjum. 

Í nánustu framtíð mun Háskólaútgáfan einnig bjóða upp á sölu rafbóka. „Í rafbókaforminu ætlum við að notast við EPUB en það er ólæst kerfi og hægt að nota á öllum tækjum. Nýi vefurinn mun einnig auðvelda forpantanir á óútgefnum verkum og einfaldar okkur að bjóða bækur á tilboðsverði með þar til gerðum afsláttarkóðum,“ segir Styrmir Goðason, skrifstofustjóri Háskólaútgáfunnar.

Háskólaútgáfan hefur gefið út á annað þúsund titla á um 30 ára tímabili og með tíð og tíma munu allir titlar sem til eru á lager útgáfunnar verða aðgengilegir í vefversluninni. 

Möguleikarnir með nýrri síðu eru ótæmandi að sögn Styrmis og mun vefurinn verða í stöðugri þróun með það að markmiði að bæta þjónustu Háskólaútgáfunnar við nemendur, starfsfólk HÍ og allan almenning.

 

Kápur þriggja bóka.