Fyrirlestraröð Félags fornleifafræðinga: Guðmundur Ólafsson
Oddi
Stofa 202
Guðmundur Ólafsson flytur opinn fyrirlestur í fyrirlestraröð Félags fornleifafræðinga í stofu 202 í Odda, miðvikudaginn 29. janúar kl. 12:00-13:00. Erindið nefnist „Bærinn undir sandinum: Lykilrannsókn fyrir þróunarsögu grænlenska torfbæjarins og norrænna miðaldabæja“. Verið öll velkomin.
Einnig verður hægt að fylgjast með í streymi á Zoom.
Um fyrirlesturinn:
Í september 1990 fannst áður óþekkt rúst, innarlega í Lýsufirði í hinni fornu Vestribyggð á Grænlandi. Fornir veggir, húsaviðir og fleiri minjar stóðu þar út úr árbakka sem áin var að brjóta sér leið inn í. Forkönnun leiddi í ljós að þarna voru afar merkar fornleifar í bráðri hættu sem ákveðið var að reyna að bjarga sem mestu af áður en áin eyddi bæinn að fullu. Stór rannsókn var því skipulögð 1992 og var m.a. óskað eftir aðstoð frá Þjóðminjasafni Íslands við björgunarrannsóknina og var Guðmundur Ólafsson sendur af hálfu safnsins. Þannig hófst ein magnaðasta fornleifarannókn síðustu áratuga hér á norðurslóðum, sem stóð yfir í sex sumur. Rústin hafði varðveist í sífrera undir þykku sandlagi sem þakti bæinn og var varðveisla lífrænna minja ótrúlega góð. Fornleifafræðingar náðu að grafa niður á neðstu mannvistarlögin og ljóst var að bærinn hafði gengið í gegn um miklar breytingar frá landnámi í byrjun 11. aldar þar til bærinn var yfirgefinn við lok 14. aldar. Frá lokum uppgraftar hefur Guðmundur unnið að því að greina flókna byggingarsögu bæjarins, með dönskum samstarfsmönnum sínum. Í erindinu greinir hann frá spennandi niðurstöðum sem varpað hafa nýju ljósi á þróun grænlenska torfbæjarins, og væntanlegar eru í bók frá Þjóðminjasafni Grænlands.
Guðmundur Ólafsson flytur opinn fyrirlestur í fyrirlestraröð Félags fornleifafræðinga í stofu 202 í Odda, miðvikudaginn 29. janúar kl. 12:00-13:00.