Hagsmunafélagið Ada tilnefnt til norrænna verðlauna
Ada - Hagsmunafélag kvenna og kynsegin einstaklinga í upplýsingatækni við HÍ er tilnefnt til verðlauna á vegum norrænna samtaka sem vinna að því að auka hlut kvenna í tölvu- og tæknigeiranum. Verðlaunin verða afhent í Osló í nóvember.
Verðlaunin nefnast Nordic Women in Tech Awards og eru veitt árlega á vegum félagasamtakanna WonderCoders sem vinna að því að valdefla og styðja konur sem hyggja á frama í upplýsingatækni. Alls bárust yfir 600 tilnefningar í þá tíu flokka sem verðlaunin ná til en aðeins fimm einstaklingar, félög eða fyrirtæki eru tilnefnd á endanum í hverjum flokki. Ada er tilnefnt fyrir hönd Íslands í flokknum Bandamaður kvenna í tækni (e. Women in Tech Ally) ásamt Helenu S. Jónsdóttur. Þau sem tilnefnd eru í þessum flokki eru félög eða einstaklingar sem þykja hafa lagt umtalsvert af mörkum til að valdefla konur í tækni á undanliðnum tveimur árum, gengið á undan með góðu fordæmi og unnið að því að auka fjölbreytileika í tækniiðnaðinum.
Árangur hagsmunafélagsins Ada er afar athyglisverður þegar horft er til þess í hversu stuttan tíma það hefur starfað. Félagið var sett á laggirnar haustið 2018 innan Háskóla Íslands en lagðist í dvala í COVID-19-faraldrinum. Það var svo endurvakið af kröftugum hópi kvenna í tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði haustið 2022 og hefur síðan þá staðið fyrir fjölbreyttum viðburðum og fræðslu sem miða að því að valdefla konur og kynsegin einstaklinga í upplýsingatækni, hvort sem er í námi eða á atvinnumarkaði.
Nafn félagsins, Ada, er sótt í söguna, nánar tiltekið til Ada Lovelace, greifynju og stærðfræðings sem uppi var á fyrri hluta 19. aldar og er talin hafa verið fyrsti forritarinn.
Lærdóms- og fræðslukvöld og Skvísó
Ein af þeim tók þátt í að endurvekja Ada eftir COVID-faraldurinn er tölvunarfræðineminn Saeeda Shafaee, sem er á þriðja ári í tölvunarfræði. Hún gegnir í vetur starfi forseta félagsins en var viðburðastýra í fyrravetur. „Við stóðum fyrir meira en 20 viðburðum í fyrra, þar á meðal fræðslukvöldum sem fyrrverandi varaforseti félagsins, Theresia Mita Erika, stýrði. Þar var m.a. fjallað um ofbeldi í samböndum, boðið upp á fjármálafræðslu fyrir nema og þau sem eru nýkomin út á vinnumarkaðinn og ferilskrárvinnustofur þar sem þátttakendur fengu aðstoð við að setja upp ferilskrá og síðu á LinkedIn, sérstaklega með sumarstörf nemenda í huga,“ segir Saeeda.
Þá stóð ADA einnig fyrir fjölmörgum Skvísóum, vísindaferðum í upplýsingatæknifyrirtæki, með það fyrir augum að kynna kvenkyns stúdentum og kvárum fyrir atvinnumöguleikum í upplýsingatæknigeiranum og efla tengslanet þeirra. Auk þess stóðu Saeeda og Mita fyrir vel heppnaðri vikulangri dagskrá nú í upphafi skólarárs í samstarfi við Ada undir yfirskriftinni Stelpur forrita. Markmið viðburðarins var að kynna áhugasömum konum og kynsegin einstaklingum fyrir töfrum upplýsingatækninnar.
Frá einum af viðburðunum sem Ada stóð fyrir á síðasta vetri.
Þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið reynt og ráðist í ýmis átaksverkefni sækja enn mun færri konur en karlar í nám í upplýsingatækni og STEM-greinum almennt að sögn Saeedu. Ada er mikið í mun að breyta því. „Við viljum vera til staðar fyrir konur og kynsegin einstaklinga frá upphafi. Það er mikilvægt að þau viti að að sama hversu erfið staðan virðist vera þá er alltaf hægt að leysa hana. Þau eiga ekki að óttast það að mistakast en einblína í staðinn á það að halda áfram í námi og leita aðstoðar hvenær sem hennar er þörf. Það að eiga að stuðningshóp og fólk til að tala við á erfiðum stundum getur skipt höfuðmáli,“ segir Saeeda.
Aðspurð um tilnefninguna til Nordic Women in Tech verðlaunanna segir Saeeda hana mikinn heiður. „Við endurvöktum félagið eftir COVID-faraldurinn algjörlega á okkar eigin forsendum og það hefur mikla þýðingu að fá viðurkenningu fyrir þá vinnu. Hvort sem við vinnum verðlaunin eða ekki þá þýðir tilnefningin að okkar starf skiptir máli. Þarna er verið að segja við okkur: Þú ert að standa þig vel!“
Sem fyrr segir verða verðlaunin afhent á ráðstefnu WonderCoders í Osló sem fer fram dagana 12.-14. nóvember. Þangað ætla Saeeda og þrjár stöllur hennar í starfi Ada, þær Helena Stefánsdóttir, sem var forseti félagsins í fyrravetur, Guðrún Ísabella Kjartansdóttir varaforseti og Kristín Fríða Sigurborgardóttir samfélagsmiðlastýra.
Stjórn Ada er skipuð eftirfarandi aðilum í vetur:
Forseti: Saeeda Shafaee
Varaforseti: Guðrún Ísabella Kjartansdóttir
Ritari: Andrea Eiríksdóttir
Gjaldkeri: Elma Karen Gunnarsdóttir
Viðburðastýra: Ásdís Valtýsdóttir
Samfélagsmiðlastýra: Kristín Fríða Sigurborgardóttir
Fulltrúi nýnema: Hildur Agla Ottadóttir