Ólympíuliðin í raungreinum á leið til keppni víða um heim
Ólympíuliðin í raungreinum hafa undanfarnar vikur æft í húsakynnum Háskólans fyrir þátttöku í alþjóðlegum mótum sem fara fram víða um heim í sumar. Þau heimsóttu rektorsskrifstofu á dögunum og ræddu við rektor um verkefnin fram undan.
Liðið skipa þeir framhaldsskólanemar sem náð hafa bestum árangri í árlegum landskeppnum í greinunum sem fram fara á hverju skólaári. Landsliðin hafa í mörg ár haft aðstöðu í Háskóla Íslands til undirbúnings fyrir átök sumarsins en þar að auki hafa kennarar og nemendur við HÍ komið að þjálfun liðanna.
Ólympíuliðið í líffræði skipa þau Magnús Máni Sigurgeirsson, Sigríður Margrét Bjarkadóttir, Sigþór Haraldsson og Unnur Birna Gunnsteinsdóttir. Þjálfari þeirra og fararstjóri er Ólafur Patrick Ólafsson, kennari við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ. Liðið tekur þátt í Alþjóðaólympíukeppnin í líffræði sem fer fram í Astana, höfuðborg Kasakstans, 7.-14. júlí. Þetta er í 35. sinn sem keppnin er haldin.
Í Ólympíuliðinu í stærðfræði eru þau Hrafnkell Hvanndal Halldórsson, Ragna María Sverrirsdóttir, Álfrún Haraldsdóttir, Magnús Thor Halloway, Merkúr Máni Hermannsson og Valur Einar Georgsson. Þau hafa notið leiðsagnar Álfheiðar Eddu Sigurðardóttur, Atla Fannars Franklín, Breka Pálssonar, Marteins Þórs Harðarsonar, Elvars Wang Atlasonar og Sigurðar Jens Albertssonar undanfarnar vikur. Liðið tekur þátt í Alþjóðlegu ólympíukeppninni í stærðfræði í Bath á Englandi 11.-22.júlí en í aðdraganda hennar tekur liðið einnig þátt í æfingakeppnini Viking Battle í Sorö í Danmörku.
Ólympíuliðið í eðlisfræði skipa þau Bjartþór Steinn Alexandersson, Fannar Grétarsson, Todor Miljevic, Sigurður Baldvin Ólafsson og Katrín Hekla Magnúsdóttir. Stór hópur fólks innan HÍ hefur komið að þjálfun liðsins, þar á meðal Unnar Arnalds prófessor og Ásgeir Tryggvason doktorsnemi sem sjá um verklega þáttinn auk þess sem stór hópur dokors- og meistaranema hefur einnig komið að undirbúningi liðsins. Þá æfir liðið eina viku í HR undir leiðsögn Sigurðar Inga Erlingssonar og Ágústs Valfells. Viðar Ágústsson, sem verið hefur formaður landskeppninnar í eðlisfræði í 40 ár, hefur einnig komið að þjálfuninni og það gerir einnig Matthias Harksen, doktorsnemi í eðlisfræði við HÍ, sem verður jafnframt fararstjóri liðsins þegar það tekur þátt í Evrópuleikunum í eðlisfræði í Kutaisi í Georgíu 15.-19. júlí. Ísland er í hópi þeirra Evrópuþjóða sem ekki munu senda lið á alþjóðlegu Ólympíuleikana í ár þar sem þeir verða haldnir í Isfahan í Íran en utanríkisráðuneytið hefur varað við ferðum þangað vegna óstöðugleika í landinu.
Ólympíuliðið í efnafræði skipa fjórmenningarnir María Margrét Gísladóttir, Kristján Geir Hirlekar, Erik Yngvi Brannan og Frigg Einarsdóttir. Þau hafa undafnfarnar vikur notið leiðsagnar Katrínar Lilju Sigurðardóttur, aðjunkts í efnafræði, Benjamíns Ragnars Sveinbjörnssonar, dósents í efnafræði, og Þorsteins Hálfdánarsonar. Þau fara öll með liðinu út til keppni, annars vegar í Norrænu efnafræðikeppnina sem fram fer í 18.-20. júlí í Osló og hins vegar Ólympíukeppnina í efnafræði sem fram fer 21.-30. júlí í Riyadh í Sádi-Arabíu.