250 nemendur sækja Háskóla unga fólksins 12.-16. júní
Von er á 250 krökkum á aldrinum 12-14 ára á háskólasvæði Háskóla Íslands á mánudag til þess að taka þátt í hinum árlega Háskóla unga fólksins sem standa mun alla vikuna. Réttarvísindi, geðheilbrigði og tilfinningar, heimspeki og kvikmyndir, hin gleymdu stríð, samskipti og einelti og tölvuleikjahönnun er meðal þess sem þau munu fást við í skólanum.
Háskóli unga fólkisins hefur verið starfræktur í nærri tvo áratugi við Háskóla Íslands er þar kynnast fróðleiksfúsir og fjörugir krakka alls kyns vísindum og fræðum út frá ýmsum spennandi og skemmtilegum sjónarhornum en áherslan er á lifandi miðlun og virka þátttöku nemenda.
Nemendur gátu valið á milli alls 30 námskeiða í 16 ólíkum stundatöflum að þessu sinni. Í þeim er að finna námskeið af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands, í félagsvísindum, hugvísindum, menntavísindum, heilbrigðisvísindum, verkfræði, raun- og náttúruvísindum og þverfræðilegum greinum.
Meðal annars er boðið upp á stundatöflu þar sem jafnólík viðfangsefni og efnafræði, hönnun og smíði kappakstursbíls, íþrótta- og heilsufræði, endurlífgun, mannréttindi og blaða- og fréttamennska koma við sögu og aðra þar sem nemendur kynnast skurðlækningum, kynjafræði, hönnun vélmenna, samskiptum og einelti og lyfjafræði.
Kennsla fer aðallega fram fyrir hádegi í tveimur byggingum skólans, Öskju og Odda. Nemendur sækja tvö námskeið hvern dag að undanskildum miðvikudeginum 14. júní, en þá verja þeir öllum tímanum í tiltekinni grein í svokölluðu þema sem er mismunandi eftir stundatöflum. Háskóla unga fólksins lýkur svo með grillveislu og lokahátíð í hádeginu 16. júní.
Kennsla í Háskóla unga fólksins er að mestu í höndum vísindamanna og nemenda við Háskóla Íslands.
Hægt verður að fylgjast með skólastarfinu bæði á vefsíðu skólans og Facebook-síðu hans