Skip to main content
1. nóvember 2024

Æskuslóðirnar sögusvið síðustu aftökunnar

Æskuslóðirnar sögusvið síðustu aftökunnar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tæpu ári eftir að Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum sótti námskeiðið Upp úr skúffunni hjá Endurmenntun HÍ barst frá honum tölvupóstur í aðalnetfang stofnunarinnar þar sem hann sagði meðal annars: „Sendi ykkur þetta (boðskort) með þökk fyrir frábært námskeið sem kom mér á fullan skriðþunga sem leiddi til handrits. Það var sent útgefanda í byrjun apríl og skrifum í samstarfi við útgefanda var lokið í byrjun september. Öll velkomin á útgáfufagnaðinn.“

Eins og gefur að skilja þótti starfsfólki Endurmenntunar HÍ afar vænt um þessa kveðju og auðvelt var að samgleðjast Magnúsi á þeim tímamótum að gefa út sína fyrstu bók 76 ára gamall.

Bókin Öxin, Agnes og Friðrik fjallar um morðið á Natani Ketilssyni fyrir hartnær tveimur öldum síðan - og síðustu aftökuna á Íslandi tveimur árum síðar, árið 1830.

Sagan stendur höfundi bókarinnar nær en mörgum öðrum, vegna þess að Þrístapar, þar sem aftakan fór fram, er í landi Sveinsstaða í Húnavantssýslu, á æskuslóðum Magnúsar. „Þar hafa mín ættmenni búið í margar aldir. Ég bjó þarna og ólst upp; smalaði kindum og hestum á Þrístöpum og man eftir mér við gröfina sem ungum dreng og var að hugsa um örlög þessa fólks. Sakamenn voru grafnir eins og skepnur í óvígðri mold á þessum tíma,“ segir Magnús. Í beinan karllegg hefur jörðin verið setin síðan 1844. Magnús tók við búskapnum af föður sínum. Nú búa sonur hans og tenggdadóttir á jörðinni.

Faðir og afi Magnúsar grófu upp beinin

Faðir hans og afi komu að því að grafa upp beinin árið 1934, 104 árum eftir aftökurnar. „Pabbi var 19 ára. Hann talaði aldrei um þetta en þetta tengir mig sögunni. Einnig að forfaðir minn í 5. lið var verjandi sakborninganna en þau höfðu þó engan málsvara hjá sér við yfirheyrslur. Sigríður var aðeins 16 ára við fyrst yfirheyrslu. Friðrik var ári eldri en Agnes var komin yfir þrítugt.“

Meira en 100 árum eftir aftökuna hafi Agnes svo komið skilaboðum til afa Magnúsar, sem þá bjó á jörðinni, um það að bein þeirra Friðriks Sigurðssonar lægju og bað um að þau yrði færð í vígða mold. „Afi fann líkamsleifarnar, ásamt pabba, og þeir grófu þær upp - og töluðu aldrei um það síðan.“

landnamssetur

Magnús fer yfir sögusviðið í sýningunni Öxin, Agnes og Friðrik í Landnámssetrinu fyrir nokkrum árum.

Kominn tími á bók

Magnús hefur miðlað þekkingu sinni á þessari merkilegu sögu á ýmsan hátt. Sýning hans í Landnámssetrinu fyrir fjórum árum naut mikilla vinsælda og hann hefur í mörg ár farið með hópa, ríðandi eða akandi, um sögusviðið. Hann hafði einnig skrifað nokkrar færslur á Facebook. Innra með honum bærðist þó ávallt löngun til að koma öllum vinklum saman í eitt verk. „Þegar ég sá auglýst námskeiðið Upp úr skúffunni hjá Endurmenntun HÍ, þá sló ég til!“

Aðspurður segir Magnús að það mikilvægasta sem hann lærði á námskeiðinu bar að ráða ritstjóra, sérstaklega fyrst ég hafði ekki gefið út bók áður. „Ég var einu sinni í blaðamennsku og þingfréttaritari, skrifað margar greinar en aldrei skrifað bók. Þetta var mjög notadrjúgt. Það sem er mikilvægt fyrir fólk er að læra og nýta svo það sem það lærir. Ég er ekki viss um að útgefandinn hefði stokkið á handritið mitt ef það hefði verið sundurlaus saga. Mér þótti líka mjög eftirminnilegt að prófa að skrifa hluta af sögunni í fyrstu persónu; vera rödd Agnesar. Það var mjög áhrifaríkt þó útgefandi samþykki það ekki endilega á endanum.“

Ásdís Káradóttir og Sæunn Þórisdóttir kenndu á námskeiðinu Upp úr skúffunni hjá Endurmenntun HÍ haustið 2023.

Mikilvægt að ráða ritstjóra

Magnús leggur áherslu á að eitt sé að segja sögu og annað koma henni í bókarform. „Eftir námskeiðið réði ég Ásdísi sem fylgdi mér í þrjá mánuði. Hún leiðbeindi mér á mjög mikivægan hátt. Ég ætlaði ekki endilega að gefa þetta út en hún hvatti mig til þess. Hún bjó mig undir það, á mjög vinalegan hátt, að ég væri í eldri kantinum sem höfundur að senda inn mitt fyrsta handrit að bók. Í 90% tilfella fá höfundar engin svör frá forlögum. Í byrjun apríl sendi ég síðan handritið til Péturs Más hjá Bjartri veröld og nú er þetta allt saman orðið að veruleika,“ segir Magnús glaðbeittur.

magnus og asdis

Magnús ásamt ritstjóra bókarinnar, Ásdísi Káradóttur, sem einnig var annar tveggja kennara á námskeiðinu.

Margar af myndunum sem prýða bókina tók Magnús sjálfur úr flugvél, en hann lauk flugmannsprófi fyrir um 40 árum. Hann segir framvinduna í þessu ferli hafa verið hlaðið einkennilegum tilviljunum. „Ég komst að því að afabróðir minn  hafði átti frumkvæði að því að teikning var gerð af gamla bænum á Þingeyrum, þ.e. bænum þar sem Friðrik var  í varðhaldi eftir morðin og fram að aftöku. Frumdrögin voru frá árinu 1790 en afabróðir minn studdist síðan við úttektir sem oft voru gerðar. Mágur hans fullgerði teikninguna, en enginn hefur vitað af henni lengi en teikningin kom til mín í þegar ég var að ganga frá þessari bók. Hluti af henni er notuð í kápumynd. Skjalið framan á kápunni er svo hluti af skírnarvottorði Agnesar Magnúsdóttur.“

Aldrei of seint að læra

Magnús segir að fólk sé aldrei of gamalt til þess að læra. „Þegar ég hætti búskap réði ég mig á lögmannsstofu. Þá fór ég námskeið hjá Háskólanum á Akureyri í opinberri stjórnsýslu. Þegar COVID var datt mér í hug að fara í fjarnám í leiðsögunámi hjá Ferðamálaskóla Íslands. Ég fór ekki í menntaskóla á sínum tíma og var ekki góður í ensku og ætlaði ekki að fara að leiðsegja erlendum ferðamönnum. Ég bjó til ferð um söguslóðir, áður ríðandi en núna akandi með hópa. Svo var farið að hafa samband við mig til að vera með skipaleiðsögn fyrir erlenda ferðamenn. Ég endaði með því að styrkja mig með netnámskeiðum og æfði mig bara vel. Þegar ég tók á móti fyrsta erlenda hópnum á Þrístöpum til að segja söguna þar ætlaði ég bara að tala á íslensku og vildi að fararstjórinn (ung kona) túlkaði. Fararstjórinn hvatti mig til eindregið til að nota enskuna. Hún hjálpaði mér ef ég lenti í vandræðum og þetta gekk vel og hefur gengið vel síðan,“ segir Magnús að endingu.

Endurmenntun HÍ býður upp á fjölbreytt námskeið tengd skrifum og útgáfu:

Magnús með bókina nýju.