Áfram öflugt samstarf við Hjartavernd
Fulltrúar Háskóla Íslands og Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar undirrituðu á dögunum endurnýjað samkomulag um samstarf sem tekur til vísindarannsókna og kennslu.
Hjartavernd er sjálfseignarstofnun sem á sér yfir hálfrar aldar sögu. Á vegum Hjartaverndar hefur verið rekin öflug Rannsóknarstöð frá árinu 1967 þegar hinni afar víðtæku Hóprannsókn Hjartaverndar var ýtt úr vör en hún nær til yfir 30 þúsund Íslendinga. Markmið hennar er að finna helstu áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi og hafa margar aðrar rannsóknir hér á landi, þar á meðal innan Háskóla Íslands, tengst henni.
Rannsóknastöðin sem hefur um árabil verið einn af ötulustu samstarfsaðilum Háskólans. Þannig eru Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Rannsóknarstöðvarinnar, og Karl Andersen, stjórnarformaður hennar, jafnframt prófessorar við Læknadeild Háskóla Íslands.
Samningurinn tekur til samstarfs Háskólans og Rannsóknarstöðvarinnar á breiðum grunni og nær m.a. til kennslu, rannsókna og þjálfunar í vísindagreinum sem geta tengst heilbrigðisvísindum. Markmið samningsins er að efla frekar gott samstarf aðilanna á þessum sviðum og jafnframt tryggja aðgengi akademískra vísindamanna um ókomna tíð að gögnum úr vísindarannsóknum stofnunarinnar, sem nýtast vísindamönnum einkum á sviðum hefðbundinnar faraldsfræði, erfðafaraldsfræði, erfðafræði, öldrunarfræða og félagsvísinda en einnig á sviði verkfræði og tölfræði.
Þá er meðal annars gert ráð fyrir að einstakar deildir og kennarar Háskólans geti leitað til starfsmanna Rannsóknastöðvar Hjartaverndar um að leiðbeina nemendum í verklegu námi og samvinna sé um að skapa eftir föngum aðstöðu fyrir rannsóknatengt nám.
Þeir Vilmundur Guðnason og Karl Andersen undirrituðu samninginn nýja ásamt þeim Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, og Ingu Þórsdóttur, forseta Heilbrigðisvísindasviðs skólans.