Algengt að ungt fullorðið fólk með ADHD hætti meðferð
Niðurstöður nýrrar rannsóknar, sem nær til yfir 1,2 milljóna manna á Íslandi og í átta öðrum löndum víða um heim, benda til þess að algengt sé að fólk hætti snemma eða detti fljótt út úr lyfjameðferð vegna ADHD. Þetta á einkum við unga fullorðna einstaklinga. Fjallað var um rannsóknina í vísindatímaritinu The Lancet Psychiatry í liðinni viku og meðal höfunda eru tveir vísindamenn Háskóla Íslands.
Rannsóknin er hluti af TIMESPAN-verkefninu svokallaða sem er samstarfsvettvangur heilbrigðisstarfsfóks og vísindamanna í tíu löndum. Markmið verkefnisins er að efla meðferð við hjarta- og efnaskiptasjúkdómum og draga úr ósamfellu í meðferð hjá fullorðnu fólki með ADHD. Verkefnið hlaut styrk úr Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins.
Rannsóknin sem sagt er frá í The Lancet Psychiatry beindist sérstaklega að meðferðarheldni við einkennum ADHD, þ.e. hversu margir haldast í meðferð og hversu margir hætta. Því er hér á ferðinni ný þekking um langtímanotkun ADHD-lyfja.
Í rannsókninni voru heilbrigðisgagnagrunnar á Íslandi, í Ástralíu, Danmörku, Hong Kong, Hollandi, Noregi, Svíþjóð, Bretlandi og Bandaríkjunum notaðir til að finna einstaklinga þriggja ára og eldri sem höfðu hafið ADHD-lyfjameðferð á árunum 2010 til 2020. Það reyndust alls 1.229.972 manns. Skoðað var hve margir hættu meðferð og hve margir voru enn í meðferð 5 árum eftir að hún hófst. Niðurstöður voru skoðaðar út frá aldri (börn [4–11 ára], unglingar [12–17 ára], ungir fullorðnir [18–24 ára], og fullorðnir [aldur ≥25 ára]) og kyni.
Börn voru ólíklegust til að hætta meðferð 1–5 árum eftir að hún hófst en algengast var að ungir fullorðnir og unglingar hættu meðferð. Innan eins árs frá upphafi meðferðar voru 65% barna, 47% unglinga, 39% ungra fullorðinna og 48% fullorðinna enn þá í lyfjameðferð. Hlutfall þeirra sem hættu meðferð var hæst hjá 18 til 19 ára. Meðferðarheldni var meiri þegar tekið var tillit til þeirra sem hófu lyfjameðferð á ný eftir að hafa hætt en eftir 5 ár voru 50–60% barna og 30–40% unglinga og fullorðinna í lyfjameðferð í flestum löndum. Lyfjameðferðarmynstur voru svipuð hjá kynjum.
Niðurstöður sýna því að algengt er að ADHD-lyfjameðferð sé hætt snemma, sérstaklega meðal ungra fullorðinna. Þrátt fyrir að algengt sé að meðferð sé hafin að nýju er meðferðarheldni hjá unglingum og ungum fullorðnum minni en búast mætti við miðað við það að hamlandi einkenni haldast yfirleitt stöðug hjá þessum aldurshópum.
Þverfræðilegur hópur vísindamanna kemur að verkefninu en þeirra á meðal eru þær Helga Zoega, prófessor í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, og Unnur Jakobsdóttir Smári, doktorsnemi í sömu grein.
Vísindagreinina má nálgast á vef The Lancet Psychiatry.