Alvotech og Háskóli Íslands endurnýja samstarfssamning til fimm ára
Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu í dag nýjan samstarfssamning háskólans og Alvotech við stutta athöfn í Aðalbyggingu HÍ.
„Við höfum verið afar ánægð með árangurinn af samstarfinu við Háskóla Íslands og fögnum því að geta haldið því áfram. Alvotech er hratt vaxandi nýsköpunarfyrirtæki og framboð af menntuðu og þjálfuðu starfsfólki skiptir okkur auðvitað miklu máli. Það er gríðarlegur kostur að geta átt svona náið samtal sem brúar betur bilið milli háskóla og atvinnulífs,“ sagði Róbert Wessman, stjórnaformaður og forstjóri Alvotech.
„Það er með mikilli ánægju sem við í Háskóla Íslands framlengjum þennan samstarfssamning eftir margra ára afar farsælt samstarf. Afurðir samstarfs HÍ og Alvotech hafa verið bæði í rannsóknum, kennslu og nýsköpun, eitthvað sem skiptir miklu máli fyrir land og þjóð. Nálægðin sem skapast af staðsetningu Alvotech á svæði Vísindagarða Háskóla Íslands skiptir hér verulegu máli. Við í Háskóla Íslands hlökkum sannarlega til framhaldsins,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Samstarfið hófst formlega árið 2018. Meðal helstu verkefna í samstarfinu má nefna:
- Hrundið var af stokkunum námsbraut fyrir meistaranema í iðnaðarlíftækni þar sem áhersla er lögð á rannsóknir og að veita hagnýta þjálfun og reynslu sem nýtist í starfi fyrir líftæknifyrirtæki.
- Alvotech hefur boðið upp á starfsþjálfun fyrir nýútskrifaða nemendur í líffræði, efnafræði, lífefnafræði, lífeindafræði, líftækni og lyfjafræði, sem leitt getur til framtíðarstarfs.
- Starfsmenn Alvotech hafa sótt meistaranám í iðnaðarlíftækni. Þá hefur starfsfólk tekið þátt í kennslu á námskeiðum í HÍ og í málstofum.
- Nemendur HÍ í iðnaðarlíftækni, lyfjafræði og öðrum greinum hafa fengið tækifæri til að vinna margvísleg rannsóknarverkefni innan vébanda Alvotech.
- Aðilarnir hafa unnið að því að styrkja innviði til rannsókna með sameiginlegum kaupum á rannsóknartækjum auk þess sem Alvotech hefur keypt þjónustu af rannsóknarstofum HÍ.
- Aðilarnir hafa skipulagt þrjú sameiginleg málþing um nýsköpun, líftækni og lyfjafræði með erlendum og innlendum fyrirlesurum.
Um Alvotech
Alvotech, stofnað af Róberti Wessman, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þættir í þróun og framleiðslu í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur meðal annars að þróun líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu, Rómönsku-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum.