Skip to main content
22. nóvember 2024

Án aðgerða getur ofbeldi ungmenna náð inn í fullorðinsárin

Án aðgerða getur ofbeldi ungmenna náð inn í fullorðinsárin - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Ofbeldi meðal ungmenna hefur verið áberandi í umfjöllun fjölmiðla síðustu ár og þá vaknar spurningin hvort sú umfjöllun, þar sem ungt fólk kemur við sögu sem bæði gerendur og þolendur, endurspegli raunverulega þróun. Þar á ég við aukinn vopnaburð og aukið ofbeldi hjá þessum aldurshópi. Ýmis gögn benda einmitt til að svo sé, að það sé einhver raunveruleg aukning, a.m.k. hjá ákveðnum hópum.“ Þetta segir Margrét Valdimarsdóttir, dósent í félags- og afbrotafræði við Háskóla Íslands. 

HÍ leggur kapp á að þekkingarsköpun og rannsóknir við skólann hafi víðtæk áhrif og takist á við þær flóknu áskoranir sem Ísland og heimurinn standa nú frammi fyrir. Margrét er í hópi fjölmargra frá HÍ sem eru gjarnan kallaðir til úr fræðasamfélaginu til að túlka og ræða þessar áskoranir. Margrét hefur t.d. ítrekað fjallað um ofbeldi og vopnaburð ungs fólks á Íslandi í fjölmiðlum.  

Nú mun hún beina sjónum að þessum þætti í hádegisviðburði í Hátíðasal HÍ sem verður miðvikudaginn 27. nóvember. Viðburðurinn er í röð sem kallast HÍ og heimsmarkmiðin og auk Margrétar tekur til máls fjölbreyttur hópur fólks sem vinnur með börnum og ungmennum auk Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, sem mun eiga samtal við Hafdísi Hönnu Ægisdóttir, forstöðumann Sjálfbærnistofnunar HÍ, um stöðu og þróun mála tengdu ofbeldi meðal barna og ungmenna.

Eitt heimsmarkmið verður tekið fyrir í hverjum viðburði þar sem framúrskarandi fræðimönnum, frá öllum fræðasviðum HÍ, verður teflt fram til að kryfja og ræða markmiðin og verkefnin sem þeim tengjast og  frá sem flestum hliðum. Í þessum viðburði mun Margrét beina sjónum að sextánda heimsmarkmiðinu sem fjallar um frið og réttlæti.  

COVID og verri staða heimilanna hefur áhrif 

Þegar Margrét rýnir í eigin gögn og rannsóknir annarra aðila segir hún að nokkrir ólíkir þættir geti skýrt þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Annars vegar þarf að skoða einstaklingsbundna áhættuþætti, hvers vegna einn unglingur fremur en annar taki til dæmis með sér vopn í skólann. Hins vegar þurfum við að skýra hvaða samfélagslegu þættir skýra aukningu.  

„Íslendingar eru t.d. nýstignir út úr COVID-faraldri sem leiddi til einangrunar ungmenna, sem kom einstaklega illa niður á þeim. Félagleg einangrun hafði mikil áhrif á margt af þessu unga fólki.“Þá segir Margrét að fjárhagsstaða á mörgum heimilum hafi versnað sem geti haft ýmsar afleiðingar fyrir fjölskyldur. Lakari fjárhagsstaða heimilanna dragi ekki bara úr orku foreldra til að sinna börnum sínum heldur styttist hreinlega tíminn sem þeir hafi til að fylgjast með börnunum.

„Það er mjög brýnt að skoða alla áhættuhegðun ungmenna, það er helst á unglingsaldri sem við getum haft áhrif þessa hegðun, að inngrip geti skilað árangri til framtíðar. Ef ekkert er gert er hætta á að hegðunin nái inn í fullorðinsárin,“ segir Margrét Valdimarsdóttir.

Snjalltæki og samfélagsmiðlar ný ógn

Borið hefur á góma í umræðunni að aðgengi að ofbeldi á netinu og í alls kyns afþreyingu ýti undir ofbeldi hjá ungu fólki og jafnvel börnum. Margrét svarar því til að ofbeldi í afþeyingu hafi lengi verið til staðar, t.d. í kvikmyndum og tölvuleikjum en snjalltæki og samfélagsmiðlar séu vissulega ný ógn. 

„Það sem er hins vegar nýtt núna eru snjalltækin og samfélagsmiðlarnir. Allir ungingar eru með snjallsíma á sér, alltaf! Það sem er líka nýtt eru þessi óskýru mörk milli raunveruleika og afþreyingar.“

Margrét segir að fræðafólk hafi haft miklar áhyggjur af dreifingu á raunverulegu ofbeldi á netinu og sú spurning krefji þau um svar hvort ungt fólk sem verði ítrekað vitni að slíku ofbeldi, verði svolítið ónæmt fyrir alvöru málsins.

Verðum að standa saman til að finna lausn 

Margrét segir að ofbeldi, hvort sem verið er að skoða gerendur eða þolendur, geti haft langtímaáhrif. „Það er mjög brýnt að skoða alla áhættuhegðun ungmenna, það er helst á unglingsaldri sem við getum haft áhrif þessa hegðun, að inngrip geti skilað árangri til framtíðar. Ef ekkert er gert er hætta á að hegðunin nái inn í fullorðinsárin.“

Margrét segir að til að ná árangri í baráttunni við við þessi flóknu viðfangsefni þá þurfi eiginlega allt samfélagi að leggjast á árarnar. Það sé enginn einn sem leysi þetta. „Þetta er verkefni fyrir foreldra, fræðafólk, frístundirnar, skólana, lögreglu og stjórnvöld.”

Margrét segir að við sem þjóð höfum áður sameinað kraftana til að leysa vandamál og verkefni, og það sé alveg hægt í þessu tilviki ef allir leggjast á eitt. 

Margrét Valdimarsdóttir, dósent í félags- og afbrotafræði við Háskóla Íslands.