Atburðarásin undanfarna daga
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starsfólk og stúdenta skólans í dag 15. nóvember:
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Atburðarásin sem orðið hefur í Grindavík undanfarna daga snertir með ýmsum hætti þá nemendur Háskóla Íslands sem þar búa og hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín.
Háskóli Íslands leggur áherslu á að styðja vel við nemendur í þessum aðstæðum og gera þeim kleift að halda áfram námi með sem minnstri röskun. Mælst er til þess að kennarar taki tillit til aðstæðna nemenda eins og frekast er unnt þótt námskröfur verði eftir sem áður óbreyttar.
Mannauðssvið HÍ er í beinu sambandi við það starfsfólk sem býr í Grindavík og einnig er til skoðunar að bjóða nemendum í Grunnskóla Grindavíkur kennsluhúsnæði svo nám þeirra verði fyrir sem minnstu raski.
Ég minni á að Nemendaráðgjöf HÍ veitir stuðning varðandi úrræði í námi og prófum, sálfræðiþjónustu auk annarra stuðningsúrræða fyrir nemendur.
Ég sendi öllum Grindvíkingum hlýjar kveðjur á þessum erfiðu tímum.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands“