Aukadren í gollurshúsi lækkar tíðni gáttatifs eftir opnar hjartaaðgerðir
Rannsókn vísindamanna við Háskóla Íslands og Landspítala sýnir að dren sem komið er fyrir í afturhluta gollurshúss eftir opnar hjartaskurðaðgerðir tengist lægri tíðni nýtilkomins gáttatifs (e. postoperative atrial fibrillation). Niðurstöður rannsóknarinnar birtust á dögunum í ameríska vísindatímaritinu The Journal of Thoracic and Cardiovascular Surgery Open.
Langalgengustu hjartaaðgerðirnar á Vesturlöndum eru kransæðahjáveita og ósæðarlokuskipti og er nýtilkomið tímabundið gáttatif helsti fylgikvilli þeirra, eða í 20-40% tilfella. Gáttatif veldur oftast vægum einkennum með óreglulegum og oft hröðum hjartslætti en svarar vel meðferð þannig að 95% sjúklinga útskrifast í reglulegum takti. Hjá eldri sjúklingum með viðkvæmt hjarta getur gáttatif valdið hjartabilun með mæði og jafnvel blóðtappa. Sjúklingum með nýtilkomið gáttatif eru því ávallt gefin lyf sem stilla hjartsláttinn og ef þau duga ekki til er gripið til rafvendingar í stuttri svæfingu. Legutími þessara sjúklinga lengist og munar þar þremur dögum sem eykur kostnað eftir aðgerðina.
Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að með því að minnka vökva í afturhluta gollurshúss hjá sjúklingum í kjölfar opinna hjartaaðgerða má minnka líkur á nýtilkomnu gáttatifi. Það má gera með 4 cm skurði aftan í gollurshúsinu eða bæta við aukadreni sem fjarlægir vökva betur en þau dren sem ávallt eru notuð eftir hjartaaðgerðir en þau liggja framan við hjartað og út í vinstra fleiðruhol.
Hér á landi hefur tíðkast í næstum tvo áratugi að nota slíkt aukadren í stórum hluta hjartaaðgerða, eða hjá 553 af 2.535 sjúklingum sem gengust undir kransæðahjáveitu eða ósæðarlokuskipti á Landspítala 2002-2020. Sýndi rannsóknin að tíðni nýtilkomins gáttatifs var marktækt lægri í hópnum sem fékk aukadren, eða 33% borið saman við 43% í viðmiðunarhópi, og var þá búið að leiðrétta fyrir öðrum þáttum sem geta haft áhrif á tíðni gáttatifs. Tíðni annarra fylgikvilla í hópunum tveimur, þ.m.t. sýkingar, var hins vegar sambærileg.
Þetta er stærsta rannsókn sem birst hefur á áhrifum aukadrens í gollurshúsi á gáttatif eftir opnar hjartaaðgerðir. Er það ályktun höfunda að hér geti verið um tiltölulega ódýra og einfalda meðferð til að lækka tíðni gáttatifs án þess að hækka tíðni annarra fylgikvilla. Rannsóknin var þó ekki slembuð og því þarf frekari slíkar rannsóknir til að staðfesta niðurstöðurnar. Er slík rannsókn í bígerð á Norðurlöndunum strax á næsta ári og tekur Landspítali þátt í henni.