Skip to main content
17. febrúar 2023

Ávarp rektors við brautskráningu kandídata 17. febrúar

Ávarp rektors við brautskráningu kandídata 17. febrúar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ávarp Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, við brautskráningu kandídata í Háskólabíói föstudaginn 17. febrúar 2023

„Fyrrverandi rektor, aðstoðarrektor, forsetar fræðasviða, deildarforsetar, starfsfólk Háskóla Íslands, kandídatar, góðir gestir nær og fjær. 

Kæru kandídatar, eftir skamma stund takið þið við prófskírteini frá Háskóla Íslands – háskóla sem stendur traustum fótum í íslensku samfélagi og nýtur virðingar í alþjóðlegum heimi fræða og vísinda. Nafn Háskóla Íslands stendur fyrir gæði, metnað, heilindi og árangur. Prófgráður frá skólanum opna ykkur leið að nýjum og fjölbreyttum störfum hér heima og erlendis. Þær gefa ykkur tækifæri til að dýpka skilning ykkar á heiminum og eru um leið grunnur að áframhaldandi námi og þroskagöngu. Það eykur vitaskuld við persónulegt gildi þessa vitnisburðar um þekkingu og hæfni, sem prófskírteini ykkar er, að ykkur tókst að ljúka háskólanámi á tíma sem reynt hefur verulega á okkur öll, tíma ótta og einangrunar sem fjarlægist nú í baksýnisspeglinum. Sigur á erfiðum aðstæðum í námi færir ykkur seiglu og útsjónarsemi fyrir glímuna við flóknar áskoranir framtíðarinnar. 

Það eru forréttindi að fá að ávarpa svo glæsilegan hóp af efnilegu menntafólki sem stendur við upphaf ferils sem við væntum að verði í senn farsæll og glæstur. Námsframboð Háskóla Íslands, sem stenst samanburð við það sem best gerist hjá helstu alhliða háskólum heims, hefur gert ykkur kleift að stunda nám á Íslandi sem virkjar ólíka hæfileika og fellur vel að framtíðarsýn og væntingum ykkar. Tugir námsgreina á öllum fræðasviðum eru einungis hérlendis í boði við Háskóla Íslands. Við fögnum fjölbreytileikanum sem bakgrunnur ykkar, þekking og færni endurspeglar. Ítrekaðar mælingar, nú síðast þjóðarpúls Gallups sem birtur var í gær, sýna að Háskólinn nýtur gríðarlegs trausts hjá íslensku þjóðinni, sem gerir kröfu um að skólinn sé alhliða og öllum opinn. 

Alþingi, fjárveitingarvaldið, þarf á hverjum tíma að gera okkur kleift að standa undir þeim væntingum sem til okkar eru gerðar. Því er afar brýnt að Háskóli Íslands njóti sambærilegrar fjármögnunar og aðrir norrænir rannsóknaháskólar. Enn vantar mikið upp á að svo sé. 
Það sem sameinar okkur háskólafólk þvert á ólíkar fræðigreinar og ólík fræðasvið er sannfæringin um gildi menntunar fyrir einstaklinga, atvinnulíf og samfélag. Án menntunar væri engin bókmenning, engin verk- og tæknimenning og engin siðmenning. Og án menningar væri mannkynið sundurleitur, ráðvilltur hópur, ef það fengi þá yfirhöfuð þrifist. Mestu skiptir að menntunin fullnægi kröfum einstaklingsins um þroska og starfshæfni en sé um leið heildinni til gagns.

Við sem búum á Íslandi njótum þess að vera hluti af lítilli heild. Aðstæður fólks, bakgrunnur og lífskjör, eru þó æði misjöfn hér sem annars staðar. Kæru kandídatar, þið munið í krafti menntunar ykkar fá aukna möguleika til að láta til ykkar taka, en um leið fáið þið tækifæri til að gefa öðrum kost á betra lífi. Það er á ábyrgð okkar að tryggja að tækifærin sem menntunin veitir, auðgi ekki bara okkar eigið líf heldur um leið líf annarra, ekki síst þeirra sem höllustum fæti standa. Háskólanám gerir okkur þannig ekki aðeins kleift að vinna fagleg afrek heldur auðveldar menntunin okkur líka að sýna auðmýkt, góðvild og umhyggju fyrir öðrum. Það er viljinn til góðs sem hér skiptir máli.

Háskóli Íslands hefur frá upphafi lagt áherslu á að vera skóli okkar allra. Sú viðleitni birtist hvort sem litið er til hins fjölbreytta nemendahóps, námsframboðsins eða rannsóknastarfs skólans, sem m.a. fer fram víða á landsbyggðinni. Við leitum líka sífellt nýrra leiða til að auka samstarfið við aðra innlenda háskóla og rannsóknastofnanir, en það hefur ávallt verið stefna Háskóla Íslands að efla slíka samvinnu og þróa samhæft og öflugt þekkingarsamfélag á Íslandi. Þannig styrkjum við stöðu Íslands í alþjóðlegri samkeppni um starfsfólk, nemendur og fé til rannsókna og þróunar.

Háskóli Íslands hefur í þessu skyni m.a. lagt sig fram um að treysta samstarfsnet innlendra háskóla. Uglan okkar, innri vefurinn, sem hönnuð var og þróuð hér, og þið þekkið mætavel úr námi ykkar, er nú notuð í næstum öllum háskólum landsins. Kennsluakademía að norrænni fyrirmynd, sem Háskóli Íslands lagði grunn að til að hvetja kennara til góðra verka og efla gæði háskólakennslu, er nú orðin að sameiginlegri kennsluakademíu opinberu háskólanna á Íslandi. 

Stjórnvöld hafa hug á að treysta innlent samstarf enn frekar og fögnum við því. En alþjóðleg samvinna er ekki síður mikilvæg. Árangur slíks samstarfs kemur í ljós nánast í viku hverri, hvort heldur litið er til fjölda erlendra nemenda sem hingað sækja, alþjóðlegra vísindaráðstefna sem í vaxandi mæli er sóst eftir að halda hér á landi eða samstarfsverkefna sem hlotið hafa veglega styrki úr alþjóðlegum sjóðum. Háskóli Íslands hlaut t.d. yfir 60 styrki úr „Horizon 2020“ styrkjaáætlun Evrópusambandsins og nemur heildarfjárhæð styrkja til fræðafólks skólans tæpum fjórum milljörðum króna. Þetta er lang besti árangur nokkurrar stofnunar eða fyrirtækis hér á landi. Og Háskóli Íslands hefur þegar hafið markvissa sókn í nýjustu áætlun Evrópusambandsins, „Horizon Europe“, og lofar árangurinn mjög góðu, en vísindafólk skólans hefur þegar í upphafi áætlunarinnar fengið fjóra svokallaða „ERC“-styrki sem eru stærstu styrkir sem Evrópska rannsóknaráðið veitir. Samkeppnin um þessa mikilvægu rannsóknastyrki er afar hörð og við getum verið stolt af því að árangurshlutfall Háskóla Íslands er 30% á meðan það er um 10% í Evrópu almennt. 

Það svífur sannarlega alþjóðlegur andi yfir háskólasvæðinu okkar, og gildir þá einu hvort staldrað er við á Háskólatorgi, gengið yfir í Veröld – hús Vigdísar eða rölt niður í Grósku, hugmyndahúsið í Vatnsmýrinni. Þessi glæsilegu hús, sem gerbreytt hafa ásýnd háskólasvæðisins á örfáum árum, gefa fögur fyrirheit um eflingu háskólasamfélagsins á komandi árum. Og það er fleira í farvatninu. Má þar nefna Hús íslenskunnar sem tekið verður í notkun á komandi vormánuðum, nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs við Hringbraut og Sögu sem m.a. mun hýsa Menntavísindasvið í náinni framtíð. 

Einn fjölmargra vaxtarsprota í þessum alþjóðlega suðupotti er skipulegt samstarf tíu evrópskra háskóla sem dreifast um álfuna þvera og endilanga. Markmið þessa samstarfs, sem Háskóli Íslands leiðir og ber heitið Aurora-háskólanetið, miðar að því að efla enn frekar grunnrannsóknir, samfélagslega ábyrgð og jafnrétti, frumkvöðlastarf og virka þátttöku nemenda. Aurora samstarfið hlaut árið 2020 veglegan þriggja ára styrk frá Evrópusambandinu og í nýlegri umsögn framkvæmdastjórnar sambandsins segir m.a. að Aurora hafi náð eftirtektarverðum framförum og geti verið fyrirmynd að slíku samstarfi í framtíðinni. Það efli með markvissum hætti nýsköpun, bæði innan allra samstarfsháskólanna og sameiginlega. Þessi vitnisburður hvetur okkur áfram á alþjóðlegum vettvangi. Um leið fjölgar þeim erlendu háskólum sem vilja vinna með Háskóla Íslands sem styrkir stöðu okkar enn frekar og skapar aukin tækifæri fyrir nemendur og starfsfólk. 

Vísindin eru sameiningarafl þvert á landamæri. En þau eru líka drifkraftur nýsköpunar sem hefur síaukin áhrif á líf okkar allra. Um fátt hefur til dæmis verið meira rætt innan háskólasamfélaga vestan hafs og austan við upphaf nýs árs en framfarir á sviði gervigreindar. Helgast þetta m.a. af tilkomu nýrra forrita af ætt svokallaðra spjallmenna sem virðast á örskotsstundu geta leyst verkefni sem kosta háskólanema bæði tíma og fyrirhöfn. Gefa má þessum spjallmennum fyrirmæli um að leysa verkefni og skrifa ritgerðir um flóknustu viðfangsefni. Vitaskuld nýtir slík gervigreindartækni sér rannsóknir háskólafólks á ólíkum fræðasviðum og hún gerir það af töluverðri leikni þótt enn sem komið er vanti umtalsvert upp á frumleikann og nákvæmnina. Slíkar tækniframfarir á sviðum flóknari hugsunar og mennta, sem mannfólkið hefur hingað til verið einrátt um, vekja undrun okkar og aðdáun, en einnig ugg og ótta. Áleitnar spurningar vakna. Mun slík tækni einn daginn taka af okkur ómakið við að hugsa og skrifa? Eða mun hún e.t.v. hjálpa okkur að skerpa á og dýpka hugsun okkar? Kallar þessi tækni á gagngerar breytingar á háskólakennslu? Verður námsmat erfiðara ef forritin vinna hugverkin? Eða getum við einmitt nýtt þetta tækifæri til að gera námsmatið nemendamiðaðra og markvissara? Ígrunduð umræða um þá möguleika og þær áskoranir sem fylgja þessari nýju tækni er þegar hafin víða innan Háskóla Íslands og með alþjóðlegum samstarfsaðilum. 

Vangaveltur um tækni sem styður við nám á háskólastigi – og í raun á öllum skólastigum – vekja spurningar um hvernig eigi að standa að menntun yngri kynslóða í framtíðinni. Eldri kynslóðir hafa iðulega sterkar skoðanir á þeim álitamálum. En í þessu samhengi er mikilvægt að spyrja unga fólkið sjálft, ykkur, kæru kandídatar. Hvað finnst ykkur skipta máli? Hvaða breytingar laða fram það besta í ykkar fari? Hvers konar framtíð sjáið þið fyrir ykkur? Þið eruð hreyfiafl breytinganna. Því skuluð þið aldrei gleyma. 

Við mannfólkið erum bæði undarlegar og heillandi verur. Til að blómstra þurfum við í senn djúpar rætur og sterka vængi. „Enga vængi á ég til,“ yrkir skáldkonan Hulda,

„Utan löngun mína, 
utan þrá og æskulöngun mína.“

Kæru kandídatar, ég vona að háskólamenntun ykkar muni gera ykkur kleift að sýna æskulöngun ykkar í vilja og verki um ókomna framtíð, sjálfum ykkur og heildinni til heilla. 

Ég óska ykkur, fjölskyldum ykkar og vinum, sem samfagna með ykkur í dag, innilega til hamingju með árangurinn. Ég hvet ykkur til að gefa ykkur tíma til að gleðjast yfir að hafa náð settu marki. Fagnaðarstund í hópi fjölskyldu og vina er rétti tíminn til að gera upp gömul markmið og setja sér ný. 

Framtíðin er ykkar. Og hún er sannarlega björt.“
 

Rektor í pontu