Ávarp rektors við brautskráningu kandídata 21. febrúar 2025

Ávarp Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, við brautskráningu kandídata í Háskólabíói föstudaginn 21. febrúar 2025
Fyrrverandi rektorar, aðstoðarrektorar, forsetar fræðasviða, deildarforsetar, starfsfólk Háskóla Íslands, kandídatar, góðir gestir nær og fjær.
Ég óska ykkur, kæru kandídatar, innilega til hamingju með daginn og árangurinn sem staðfestur er með prófskírteinum þeim sem þið takið við hér á eftir. Sá áfangi sem þið hafið nú náð markar tímamót í lífi ykkar. Hann opnar ykkur leið að nýjum störfum, gefur ykkur færi á að dýpka skilning ykkar á heiminum, samfélaginu og ykkur sjálfum og er þannig grunnur að áframhaldandi námi og þroskagöngu sem varir alla ævi.
,,Kaupið ánægjuna fyrir erfiði og þá mun ykkur farnast vel í lífinu“, sagði einn áhrifamesti skólamaður Íslendinga, Sveinbjörn Egilsson, þegar hann gaf nemendum sínum hollráð við skólaslit, en Sveinbjörn var fyrsti rektor Lærða skólans sem síðar varð Menntaskólinn í Reykjavík. Orð hans geyma sígild sannindi, því þegar við leggjum hart að okkur í leik og starfi virkjum við hæfileika okkar til hins ítrasta og finnum til endurnærandi gleði. Sú ánægja sem Sveinbjörn hvetur okkur til að sækjast eftir er þannig að aðrir geta öðlast hlutdeild í henni. Að þessu leyti er hún ólík sjálfhverfri augnabliksánægju. Um leið og við ræktum hæfileika okkar sköpum við nefnilega margvíslegar afurðir á sviði vísinda, lista og menningar sem aðrir fá notið með okkur.
Kæru kandídatar, enginn maður er eyland. Til að rækta hæfileika okkar þurfum við tækifæri til samvinnu, aðstöðu til að athafna okkur og leiðbeinendur og fyrirmyndir til að vísa veginn. Fullyrða má að engin samfélög hafi náð viðlíka árangri í þeirri viðleitni að skapa hvetjandi umhverfi fyrir ungt og upprennandi fólk og háskólar Vesturlanda. Æviverk þúsunda liggja á bak við stofnun á borð við Háskóla Íslands, sem okkur er falið að varðveita og styrkja í mótvindi jafnt sem meðvindi.
Þrátt fyrir margvíslegt mótlæti, efnahagsleg áföll, skæðan COVID heimsfaraldur og eldsumbrot, hefur Háskóli Íslands haldið sínu striki og vaxið jafnt og þétt allan fyrsta fjórðung þessarar aldar. Raunar hefur sókn skólans verið með ólíkindum, hvort heldur litið er til kennslu, rannsóknavirkni, húsnæðis eða annarrar aðstöðu. Fjöldi árlegra brautskráninga hefur farið úr um 1.000 við upphaf aldarinnar í um 3.700. Á sama tíma hafa brautskráðir doktorsnemar við skólann tuttugufaldast, farið úr fjórum á ári í um áttatíu á síðasta ári. Rannsóknarféð sem við höfum aflað í síharðnandi innlendri og erlendri samkeppni hefur þrefaldast á síðastliðnum tíu árum, farið úr tveimur milljörðum króna í sex milljarða. Að sama skapi hafa rannsóknaafköst innan skólans margfaldast. Árið 2000 voru birtingar vísindafólks Háskólans í alþjóðlegum vísindatímaritum um 200 talsins, en eru nú komnar í um 1.600. Það er ekkert minna en áttföldun. Svipaður vöxtur hefur átt sér stað þegar litið til erlendra samstarfsaðila Háskóla Íslands og sprotafyrirtækja og einkaleyfa sem skólinn á hlutdeild í. Þá má benda á að erlendir nemendur við skólann eru nú um 2.300 talsins frá 114 þjóðlöndum, en þeir voru um fjögur hundruð við upphaf aldarinnar.
Það er ekki síður áhugavert að skoða hvernig ytri ásýnd Háskóla Íslands hefur tekið stakkaskiptum á fyrsta fjórðungi þessarar aldar. Á þessum tíma höfum við tekið í notkun fjölmargar nýjar byggingar og tengt margar þeirra saman í eina heild með tengibyggingum og undirgöngum. Nú er nánast ómögulegt að hugsa sér Háskóla Íslands án þessara samtengdu bygginga, sem dags daglega iða af mannlífi og bjóða frábæra aðstöðu fyrir nemendur. Það munar um minna en nýju byggingarnar Öskju, Háskólatorg, Gimli, Veröld – hús Vigdísar, Eddu, Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni og nú síðast Sögu sem skapar langþráð tækifæri til að flytja Menntavísindasvið inn á háskólalóðina. Það opnar ótrúlegar nýjar leiðir til þverfræðilegrar samvinnu um menntun fagfólks fyrir íslenskt skólasamfélag. Síðast en ekki síst hefur Háskóli Íslands í samvinnu við Reykjavíkurborg nýlega lokið við gerð heildstæðrar og metnaðarfullrar þróunaráætlunar fyrir allt háskólasvæðið sem mun varða veginn til farsællar framtíðar.
Á síðasta áratug höfum við einnig umbylt innri starfsferlum okkar og innleitt ný rafræn kerfi á öllum sviðum starfseminnar. Þannig gera ný námsumsjónarkerfi og prófakerfi okkur kleift að umbylta þjónustu við nemendur. Einnig höfum við stofnað kennsluakademíu að norrænni fyrirmynd til að efla gæði kennslu, og Háskóli Íslands hefur leitt samstarf níu evrópskra háskóla og Háskólans í Minnesota í Bandaríkjunum undir merkjum Aurora sem miðar m.a. að því að auka enn frekar gæði háskólastarfs og margfalda námsframboð íslenskra háskólanema á komandi árum. Nú eru hvorki meira né minna en ríflega 300 þúsund nemendur innan Aurora-samstarfsins og möguleikarnir til frekari framfara eru nánast óþrjótandi.
Þessi magnaði árangur er fjarri því að vera sjálfgefinn. Okkur hefur tekist þetta með einbeittri samvinnu allra sem starfa við Háskóla Íslands, nemenda, starfsfólks og fjölmargra samstarfsaðila í samfélagi og atvinnulífi. En árangurinn er líka undir því kominn að þau sem fara með almannavald og almannafé styðji öflugt háskólastarf í verki. Um leið og ég óska nýrri ríkisstjórn Íslands velfarnaðar í störfum sínum vil ég nota tækifærið og hvetja ríkisstjórnina til að byggja til framtíðar og forgangsraða í þágu háskólamenntunar og þar með í þágu þjóðarinnar. Háskóli Íslands er og hefur lengi verið einn skilvirkasti háskóli í Evrópu hvort sem litið er til fjölda útskrifaðra nemenda miðað við fjármagn eða fjölda starfsfólks. Fjárfesting í Háskóla Íslands er fjárfesting í framtíðinni sem margborgar sig fyrir íslenskt atvinnu- og þjóðlíf.
Kæru kandídatar, í nýlegri könnun Bandarísku háskólasamtakanna kemur fram að 93% aðspurðra atvinnurekenda taldi mikilvægast að brautskráðir háskólanemar gætu unnið markvisst saman í teymum. Í annað sæti settu þessir sömu aðilar hæfileika nemenda til að hugsa á gagnrýninn hátt. Þetta er til marks um mikilvægi alhliða háskólamenntunar og þverfræðilegrar samvinnu í nútímanum. Við stöndum á þröskuldi nýrra tíma. Gervigreind, bylting í reiknigetu tölva, stóraukin sjálfvirkni og endur- og símenntun munu skapa ykkur, kæru kandídatar, aukin tækifæri til samvinnu þvert á fræðigreinar í framtíðinni. Einn af kostum slíkrar samvinnu er sá að hún eflir okkur hvert á sínu sérsviði. Það er einstök ánægja fólgin í því að sjá að verk okkar nýtast öðrum í gefandi samvinnu. Það ríkja kærleikar með góðu samstarfsfólki og „kærleikurinn þverar / tíma og rúm“ svo vitnað sé í skáldið Eyrúnu Ósk Jónsdóttur.
Ágætu kandídatar, Háskóli Íslands er í hópi fárra háskóla í heiminum þar sem stúdentar og starfsfólk velja æðsta stjórnanda skólans í lýðræðislegum kosningum. Sú tilhögun gerir háskólasamfélaginu kleift að ræða saman um hvar við stöndum, hvert við viljum stefna, hvað hefur áunnist og hvar við viljum gera betur. Nú er kosningabarátta vegna komandi rektorskjörs í fullum gangi, og ber að fagna því hve margir hæfir einstaklingar gefa kost á sér til starfans. Mestu skiptir að umræðan sé hreinskiptin, málefnaleg og metnaðarfull og kosningabaráttan sanngjörn. Það er ómetanlegur styrkur fyrir æðsta stjórnanda Háskóla Íslands og talsmann skólans út á við, að sækja umboð sitt til alls starfsfólk og nemenda skólans.
Kæru kandídatar, þetta mun vera í nítjánda sinn sem mér hlotnast sá heiður að ávarpa brautskráningarhátíð Háskóla Íslands. Þessar stundir hafa verið með þeim ánægjulegustu í starfi mínu sem rektor. Í ávörpum mínum hef ég jafnan hvatt kandídata til að láta ekki bölsýni spilla starfsgleði sinni og framtíðarvonum, og um leið sjálfri lífsgleðinni. Ég hef bent á að núverandi kynslóðir búi við minni fátækt, betri heilsu og geti vænst lengri ævidaga en allar fyrri kynslóðir jarðarbúa. Þá hef ég einnig vakið athygli á þeim mikla árangri sem náðst hefur í baráttunni við ungbarnadauða, ólæsi, loftslagsvána, heimsfaraldra og þannig mætti lengi telja. En við megum aldrei gleyma því að um allan ávinning þarf stöðugt að standa vörð. Við höfum fulla ástæðu til að ætla að framfarirnar verði jafnvel enn örari á næstu misserum með ábyrgri notkun gervigreindar og skynsamlegri nýtingu takmarkaðra auðlinda. Á sama tíma hef ég hvatt til þess að við höfum hugrekki til að horfast í augu við og takast á við áskoranir samtímans sem alls staðar blasa við. Það er hlutverk ykkar allra, kæru kandídatar, sem í dag haldið út í lífið með prófgráður ykkar í farteskinu, að leita leiða til að auðga og fegra mannlífið. Andspænis ógnarstórum áskorunum skiptir mestu að beina kröftunum að því sem við getum haft áhrif á og þokað til betri vegar. Þannig farnast okkur sjálfum best og þannig verðum við öðrum að mestu gagni.
Kæru kandídatar. Hér í Háskóla Íslands hafið þið lagt grundvöll sem þið getið treyst um ókomna framtíð og byggt ofan á. Til ykkar verða gerðar miklar kröfur á ólíkum sviðum lífsins og ég er þess fullviss að þið munið axla þá ábyrgð með sóma og láta gott af ykkur leiða. Með þeim orðum hvet ég ykkur til að ganga stolt og vongóð til móts við ný verkefni og nýjar áskoranir.
Framtíðin er björt. Hún er ykkar.