Ávarp rektors við brautskráningu kandídata 24.júní 2023
Ávarp Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, við brautskráningu kandídata í Laugardalshöll laugardaginn 24. júní 2023
„Fyrrverandi rektorar, forsetar fræðasviða, deildarforsetar, starfsfólk Háskóla Íslands, kandídatar, góðir gestir nær og fjær.
Kæru kandídatar, það er sönn ánægja og forréttindi að fá að ávarpa svo glæsilegan hóp af efnilegu menntafólki á þessari hátíðarstundu sem við tileinkum framtíðinni. Þið hafið hvert og eitt sett ykkur metnaðarfull markmið, unnið markvisst að þeim um árabil, yfirstigið margs konar hindranir á tímum heimsfaraldurs, og uppskerið nú eins og til var sáð. Fyrir hönd alls starfsfólks Háskóla Íslands óska ég ykkur, fjölskyldum ykkar og vinum innilega til hamingju með árangurinn. Prófgráðan sem þið takið nú við getur orðið lykill að farsælli framtíð ykkar sem þið hafið lagt grunn að með fyrirhyggju og þrautseigju.
Ég vona að þið hafið notið tímans með okkur. Þið eruð stolt Háskólans. Orðspor okkar ræðst af framgöngu ykkar og þeirra þúsunda háskólamenntaðra einstaklinga sem nú starfa á öllum sviðum íslensks samfélags og atvinnulífs, og víða um veröld. Verk ykkar í þágu samfélagsins munu varpa ljóma á skólann ykkar um ókomna tíð.
Góðu kandídatar, sagt er að svo lengi lærir sem lifir. Nú hefst nýr kafli í námi ykkar í skóla lífsins. Þar mun ykkur verða falin sífellt meiri ábyrgð og þið munuð öðlast víðtækari reynslu með hverjum nýjum degi. Háskóli Íslands hefur eftir fremsta megni kappkostað að búa ykkur undir þessa vegferð og jafnframt leitast við að brúa bilið á milli fræðanna og vettvangs dagsins. Þetta höfum við gert með því að bjóða fjölbreytt og öflugt starfs- og vettvangsnám og með því að beita kennsluaðferðum sem taka í æ ríkara mæli mið af raunhæfum verkefnum og hagnýtum úrlausnarefnum. Markmið okkar er að Háskóli Íslands sé ætíð skóli atvinnulífs framtíðarinnar.
Við viljum móta þekkingarsamfélag sem er keyrt áfram af anda nýsköpunar og sjálfbærni, þar sem við öll getum notið ávaxta vísinda og fræða til fulls, um leið og hugað er að komandi kynslóðum og síðast en ekki síst þeim sem höllum fæti standa. Öflugasta leið okkar að því markmiði er í gegnum ykkur, kæru kandídatar. Þar treystum við, og samfélagið allt, á fagþekkingu ykkar, frumkvæði og forystu á komandi árum.
Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér. En stundum er eins og hún læðist aftan að okkur og komi fyrr en við áttum von á. Þetta á ekki síst við þegar merkar vísindauppgötvanir eða miklar tækninýjungar eru skyndilega kynntar til sögunnar. Sími, flugvélar, tunglferjur, tölvur, raðgreining erfðaefnisins og þráðlaus gagnaflutningur eru dæmi um slíkar framfarir sem breyttu gangi hversdagslífisins og gáfu um leið fyrirheit um að enn frekari byltingar væru í vændum. Einn nýjasti boðberi slíkra breytinga er gervigreindar-spjallmennið ChatGPT sem fangaði athygli heimsbyggðarinnar á nýliðnum vetri og hvíslaði að okkur að mikilla breytinga væri að vænta. Verkefnin sem gervigreindin leysir af hendi – hvort sem þau lúta að textaskrifum, forritun eða myndvinnslu – eru slík að spurningar hafa vaknað um eðli og tilgang háskólanáms og jafnvel um framtíð sjálfs mannkyns.
Viðbrögð háskólafólks hérlendis hafa einkennst af yfirvegun þar sem lögð er áhersla á að skoða með opnum huga þau tækifæri sem þessi áhrifamikla tækni skapar fyrir háskólasamfélagið og okkur öll. Ástæðulaust er að ætla að gervigreindin muni taka af okkur ómakið við að hugsa sjálfstætt. Ef við höldum rétt á spilunum, getur hún þvert á móti gert starf háskólafólks í senn innihaldsríkara og heilladrýgra, bæði fyrir okkur sjálf og samfélagið allt. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga hvernig gagngerar tæknibyltingar í einni höfuðatvinnugrein okkar Íslendinga – sjávarútvegi – hafa gert störfin á þeim vettvangi í senn skilvirkari, arðbærari og áhugaverðari. Þar hafa hugvit og hátækni vissulega létt okkur störfin en um leið gert okkur fært að sjá lengra og ná markverðari árangri við stóraukna og sjálfbærari nýtingu sjávarfangsins.
Þær framfarir á sviði gervigreindar sem nú eru á hvers manns vörum eiga sér langan aðdraganda innan háskóla, rannsóknarstofnanna og tæknifyrirtækja. Þær byggjast á þrotlausri vinnu við hönnun sífellt öflugri algóriþma sem greina og flokka upplýsingar, stórauknu reikniafli ofurtölva og síðast en ekki síst ört vaxandi gagnasöfnum sem aðgengileg eru m.a. á veraldarvefnum. Jafnvel þetta stutta yfirlit gefur vísbendingar um þann fjölbreytta hóp vísinda- og fræðafólks sem komið hefur að þróun gervigreindarinnar, svo ekki sé minnst á öll þau sem taka þátt í að spinna veraldarvefinn frá degi til dags. Undir því sjónarhorni er gervigreindin fjarri því að vera afmarkað tækniþróunarverkefni.
Kæru kandídatar, þið hafið vafalítið spurt sjálf ykkur að því hverju gervigreindin muni breyta fyrir ykkur og þau verkefni sem þið munið nú takast á hendur. Einnig má spyrja hvernig menntun ykkar fær haldið gildi sínu í heimi sem er svo róttækum og hröðum breytingum undirorpin? Þið eruð, jú, fyrsti hópurinn sem brautskráist frá Háskóla Íslands sem hafði möguleika á að nýta sér GPT spjallmenni á lokametrum námsins. Fullyrða má að þið munið nota gervigreind í auknum mæli í lífi og starfi í framtíðinni, en við þurfum vitaskuld öll að vera á varðbergi gagnvart þeim mögulegu hættum sem hún hefur í för með sér. Farsæl nýting tækninnar krefst þess að við beitum fjölbreyttum aðferðum hug-, félags- og menntavísinda til að skilja og bregðast við samfélagslegum og siðferðilegum afleiðingum hennar.
Mikilvægustu og endingarbestu viðbrögð okkar við nýjum áskorunum af hvaða tagi sem er, eru fólgin í því að standa vörð um menntahugsjón Háskóla Íslands. Samkvæmt þeirri hugsjón hefur háskólamenntun gildi í sjálfu sér í krafti þess hve alhliða hún er. Tækni- og verkkunnátta er vissulega afar mikilvægur þáttur háskólamenntunar, svo ekki sé að sjálfsögðu minnst á fræðilega þekkingu. Án verkvits og bókvits væri háskólamenntun bitlaus. En það er ekki síður mikilvægt að háskólanemar fái þjálfun í að hugleiða þau gildi og markmið sem liggja allri tækni til grundvallar og raunar allri viðleitni mannfólksins. Slík yfirvegun er oft kennd við siðvit og gagnrýna hugsun. Hún stuðlar að alhliða þroska, eflir sjálfstæði okkar og gerir okkur kleift að axla ábyrgð og gegna forystuhlutverki í samfélaginu.
En hversu vel sem við ræktum hug og hönd – bókvitið, verkvitið og siðvitið – hljótum við að viðurkenna eigin takmörk hvort sem við stöndum andspænis nýrri tækni eða hinum gríðarlegu umhverfis- og samfélagsáskorunum samtímans. Æðsta stig háskólamenntunar – háskólaþroskans – er samvinna. Háskóli er og á að vera samfélag nemenda og kennara. Við þurfum ætíð að gæta þess að hlúa að liðsheildinni sem laðar það besta fram í hverju og einu okkar en gerir okkur um leið hluta af einhverju sem er stærra en summa einstaklinganna. Og til að þroska siðvitið er ekki nóg að hugsa sjálfstætt og gagnrýnið. Við þurfum einnig að virkja reynsluna, læra af fyrri kynslóðum og hvert af öðru, ekki síst í málefnalegum rökræðum. „Greindur nærri getur, reyndur veit þó betur“, segir gamall málsháttur. Reynslan er sá kennari mannkyns sem vísindafólk viðurkennir og beygir sig auðmjúkt undir.
Menntahugsjónin, sem ég hef gert að umræðuefni, er frelsandi afl. Hún hefur losað um þá átthagafjötra sem heftu fyrri kynslóðir Íslendinga um aldaraðir. Háskólamenntun ykkar, kæru kandídatar, opnar ykkur þannig ótal tækifæri innanlands og á alþjóðlegum vettvangi. Heimurinn allur er leikvöllur ykkar! Það er ekki að ástæðulausu sem Háskóli Íslands hefur í núverandi stefnu sinni valið sér einkunnarorðin „opinn og alþjóðlegur“. Menntahugsjónin hefur líka haft þau áhrif að við trúum ekki lengur að okkur séu búin óbreytanleg örlög, að okkur sé markaður einn vegur, einn bás til að húka við ævina á enda. Heilbrigðisvísindin afsanna t.a.m. á hverjum einasta degi hina fornu speki að eigi verði feigum forðað. Jafnframt er nú svo komið með breyttu hugarfari og markvissri nýtingu þekkingar að sárafá dauðsföll eru tengd sjósókn á Íslandi, jafnvel engin ár eftir ár. Það hefðu þótt stórtíðindi fyrir aðeins örfáum áratugum þegar sjómenn lögðu líf sitt að veði fyrir fiskaflann.
Ef til vill stöndum við nú fyrir tilstilli háskólamenntunar og ávaxta hennar á þröskuldi þess að brjóta hlekki vanans, að yfirstíga þær takmarknir sem bundnar eru við hugarheim einstaklingsins og færa út sjálf landamæri hugans. Hingað til hefur sá möguleiki einkum verið viðfangsefni skálda og kvikmyndagerðarfólks. Samlegð og samvirkni, sem skapar eitthvað nýtt og stórt, hefur að sönnu verið kjarni alls vísindastarfs frá upphafi. Og geta okkar til að beisla náttúruöflin og ná valdi yfir sjálfum okkur hefur stóraukist á tímum skipulegs vísindastarfs. Tíminn einn mun leiða í ljós þær áskoranir og þá nýju möguleika sem þróun gervigreindar mun skapa. En við höfum fulla ástæðu til að ætla að hún muni veita ykkur, kandídatar góðir, áður óþekkt tækifæri til að nýta menntun ykkar til góðra verka.
Kæru kandídatar, ég vona svo sannarlega að þau mögnuðu úrlausnarefni sem fram undan eru efli starfsorku ykkar og baráttugleði. Ég hvet ykkur til að forðast í senn oftrú á tækniframfarir og óttann við þær. Nýtið menntun ykkar og treystið eigin dómgreind. Ég óska ykkur, fjölskyldum ykkar og vinum, sem samfagna með ykkur í dag, innilega til hamingju með árangurinn. Nú er tíminn til að njóta þess sem áunnist hefur, setja sér ný markmið og láta gott af sér leiða. Framtíðin er ykkar. Og hún er björt. Gangið fagnandi á móti nýjum degi.“