Breyttar dagsetningar próftímabila á vormisseri 2025

Kennslusvið Háskóla Íslands hefur, að höfðu samráði við fræðasvið skólans, ákveðið að breyta dagsetningum próftímabila á vormisseri 2025. Markmiðið er að lengja þann tíma sem Nemendaskrá og fræðasviðin hafa til að vinna gögn fyrir brautskráningu kandídata, sem verður 14. júní næstkomandi.
Samkvæmt áður gildandi kennslualmanaki fyrir vormisseri 2025 áttu almenn próf að fara fram dagana 22. apríl til 8. maí. Sjúkrapróf og endurtökupróf áttu að fara fram dagana 28. maí til 3. júní. Breytingarnar fela í sér að tímabili sjúkraprófa og endurtökuprófa verður tvískipt, með svipuðum hætti og ávallt er gert á haustmisseri.
Dagsetningar próftímabila verða sem hér segir:
- Almenn próf munu fara fram á tímabilinu 23. apríl til 9. maí. Samtals er um að ræða 11 prófdaga.
- Sjúkrapróf og endurtökupróf vegna 5 fyrstu prófdaganna munu fara fram á tímabilinu 20. til 23. maí.
- Sjúkrapróf og endurtökupróf vegna 6 síðari prófdaganna munu fara fram á tímabilinu 28. til 31. maí.
Með þessum breytingum er stefnt að því að lokaeinkunnir í námskeiðum liggi fyrir mun fyrr en ella yrði raunin. Þetta þýðir að vinnsla gagna vegna brautskráningar kandídata 14. júní mun einnig geta hafist fyrr en ella.
Fyrir breytingar | Eftir breytingar * | |
Almenn próf | 22.4. – 8.5. | 23.4. – 9.5 |
Sjúkrapróf og endurtökupróf | 28.5. – 3.6. | a) 20.5. – 23.5. |
b) 28.5. – 31.5. | ||
Brautskráning kandídata | 14.6. | 14.6. |
*Ath. að breytingin á tímabili almennra prófa tengist ekki því markmiði sem nefnt er hér að ofan, heldur kemur til af öðru.