Skip to main content
3. maí 2022

COVID og hjarta- og æðasjúkdómar í brennidepli á ráðstefnu MLV

COVID og hjarta- og æðasjúkdómar í brennidepli á ráðstefnu MLV - á vefsíðu Háskóla Íslands

Á fjórða tug fræðimanna víða að úr Evrópu heimsótti Ísland í liðinni viku til þess að taka þátt í ráðstefnu á vegum tveggja stórra rannsóknarverkefna, COVIDMENT og CoMorMent, sem Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands (MLV) tekur þátt í. Þau snerta andlega heilsu og samspil hennar við COVID-19 annars vegar og hjarta- og æðasjúkdóma hins vegar.

Um var að ræða árlega ráðstefnu verkefnanna og alls tóku tæplega 50 manns þátt í ráðstefnunni sem fór fram bæði í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar í Vatnsmýri og á Hótel Grímsborgum í Grímsnesi. Markmið ráðstefnunnar var að bera saman bækur ólíkra rannsóknarhópa innan verkefnanna tveggja sem eru afar umfangsmikil. Þessi vísindaverkefni skarast verulega en það voru einmitt vísindamenn CoMorMent-samstarfsins sem hrundu af stað COVIDMENT-verkefninu í upphafi heimsfaraldurs COVID-19.

COVIDMENT-verkefnið lýtur forystu Unnar Valdimarsdóttur, prófessors í faraldsfræði við Háskóla Íslands, en það hlaut m.a. nærri 200 milljóna króna styrk frá norrænu rannsóknastofnuninni NordForsk. Markmiðið er að rannsaka langtímaáhrif kórónuveirufaraldursins á geðheilsu í fjórum norrænu ríkjanna, Eistlandi og Skotlandi. Rannsóknin er afar umfangsmikil og nær til hundraða þúsunda þátttakenda í umræddum löndum en fyrstu niðurstöður benda til þess að andleg líðan fólks í kórónuveirufaraldrinum hafi sveiflast að einhverju leyti með nýgengi COVID-19- smita og að alvarleiki veikinda af völdum COVID-19-sjúkdómsins sé ákvarðandi þáttur um hættuna á langvarandi sálrænum einkennum meðal þeirra sem sýkjast .

CoMorMent-verkefnið er unnið undir forystu Ole Andreassen, prófessors við Óslóarháskóla, en markmið þess er að skoða tengls andlegrar heilsu og hjarta- og æðasjúkdóma. Að því koma bæði fulltrúar frá Miðstöð í lýðheilsuvísindum og Íslenskrar erfðagreiningar auk stórs hóps erlendra sérfræðinga. Í rannsókninni, sem nýtur stuðnings úr Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins, eru gríðarstórir gagnabankar um heilsufar fólks nýttir til að varpa ljósi á samspil andlegrar heilsu og hjarta- og æðasjúkdóma. Meðal annars er skoðað hvers vegna fólk sem glímir við geðsjúkdóma er í meiri hættu en aðrir á að þróa með sér hjarta- og æðasjúkdóma og hvers vegna horfur fólks með hjarta- og æðasjúdóma, sem glímir í framhaldinu við andleg veikindi, eru verri en annarra. Þá er markmiðið að finna erfðaþætti sem skýra tengsl þessara tveggja sjúkdóma.

Samantekið er markmið beggja verkefna að varpa ljósi á tvíhliða tengsl líkamlegra sjúkdóma (COVID-19 og hjarta- og æðasjúkdóma) við andlega heilsu og geðraskanir, en vonir standa til að niðurstöður nýtist yfirvöldum við að skipulag heilbrigðisþjónustu og heilsueflingu þessara viðkvæmu hópa. 

Myndir frá ráðstefnunni má sjá hér að neðan.
 

Þátttakendur í ráðstefnunni komu víða að úr Evrópu en auk þeirra sóttu fulltrúar HÍ og Íslenskrar erfðagreiningar hana.