Skip to main content
19. nóvember 2022

Dodici úr Vopnafjarðarskóla sigraði í LEGO-hönnunarkeppni FLL

Dodici úr Vopnafjarðarskóla sigraði í LEGO-hönnunarkeppni FLL - á vefsíðu Háskóla Íslands

Liðið Dodici úr Vopnafjarðarskóla sigraði í hinni árlegu tækni- og hönnunarkeppni FIRST LEGO League sem fram fór í Háskólabíói í dag. Liðið tryggði sér um leið þátttökurétt í úrslitakeppni FIRST LEGO League Skandinavia sem haldin verður í Osló þann 3. desember nk.

Keppnin, sem er í umsjón Háskóla Íslands hér á landi, er haldin í nánu samstarfi við grunnskóla landsins. Hún hefur verið fastur viðburður um árabil en þetta er í fyrsta sinn í þrjú ár sem þátttakendur koma saman til keppni. Heimsfaraldur kórónuveiru varð til þess að keppnin féll niður árið 2020 og hún fór fram á netinu í fyrra.

Markmiðið með Legókeppninni er að efla færni og lausnarmiðaða hugsun hjá grunnskólanemum ásamt því að vekja áhuga ungs fólks á tækni og vísindum. Keppnin byggist á spennandi verkefnum sem örva nýsköpun, byggja upp sjálfstraust og efla samskiptahæfni. Verkefnin eru ólík á milli ára en öll fela þau í sér áskoranir sem sóttar eru í Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Áskorun þessa árs kallaðist OFURKRAFTAR og snerist um orkunýtingu og auðlindir jarðar.

Fimmtán lið grunnskólanema víðs vegar af landinu voru að þessu sinni skráð til leiks. Allt að tíu manns eru í hverju liði ásamt leiðbeinanda og höfðu liðin unnið ötullega að undirbúningi síðan snemma hausts.

Keppninni var skipt í fjóra hluta. Meðal verkefna keppenda var að forrita vélmenni úr tölvustýrðu Legói til að leysa tiltekna þraut sem tengist áskorun þessa árs. Þá áttu keppendur að vinna nýsköpunarverkefni sem tengist orkumálum í þeirra eigin nærsamfélagi. Enn fremur þurftu keppnisliðin að gera grein fyrir því hvernig þau hanna og forrita vélmennið og loks horfði dómnefnd keppninnar sérstaklega til liðsheildar. 

Þegar stigin höfðu verið tekin saman reyndust Dodici úr Vopnafjarðarskóla sigurvegarar keppninnar og því krýndir Legómeistarar 2022. Liðið vann sér um leið þátttökurétt í úrslitakeppni FIRST LEGO League Skandinavia sem haldin verður í Osló þann 3. desember sem fyrr segir.

Að auki voru veitt verðlaun fyrir bestan árangur í einstökum hlutum keppninnar. Þar hlutu eftirtalin lið verðlaun:

Besta liðsheildin: AI-luminati úr Landakotsskóla
Besta nýsköpunarverkefnið: Z.E.L.J.K.O. úr Garðaskóla
Besta forritun og hönnun vélmennis: Hleðzlan úr Brúarásskóla á Fljótsdalshéraði
Vélmennakappleikur: Dodici úr Vopnafjarðarskóla

Háskóli Íslands óskar Dodici til hamingju með sigurinn og þakkar öllum þátttökuliðinum fimmtán kærlega fyrir framúrskarandi keppni.
 

AI-luminati úr Landakotsskóla hlaut verðlaun sem besta liðsheildin.
Hleðzlan úr Brúarásskóla á Fljótsdalshéraði hlaut verðlaun fyrir bestu hönnun og forritun vélmennis. MYND/Kristinn Ingvarsson
Z.E.L.J.K.O. úr Garðaskóla hlaut verðlaun fyrir besta nýsköpunarverkefnið. MYND/Kristinn Ingvarsson
Auk þess að sigra í heildarkeppninni vann Dodici vélmennakappleikinn. MYND/Kristinn Ingvarsson
Þátttökuliðin öll á sviði Háskólabíós