Dr. Freysteinn Sigmundsson nýr deildarforseti Jarðvísindadeildar
Þann 1. júlí síðastliðinn tók dr. Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur og vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, við starfi deildarforseta Jarðvísindadeildar. Fráfarandi deildarforseti er dr. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor, en hann hefur sinnt starfinu undanfarin fjögur ár. Dr. Steffen Mischke, prófessor í jarðfræði tekur við starfi varadeildarforseta.
Kosningar til deildarforseta innan deildarinnar fóru fram fyrr á árinu. Skipunartími deildarforseta og varadeildarforseta er tvö ár í senn.
Freysteinn lauk B.Sc. prófi í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands árið 1988 og kláraði meistaragráðu í sama fagi árið 1990. Freysteinn lauk svo doktorsprófi í jarðeðlisfræði árið 1992 frá Háskólanum í Colorado í Bandaríkjunum
Freysteinn hóf störf við Norrænu eldfjallastöðvarinnar að loknu doktorsprófi og tók við stöðu forstöðumanns stöðvarinnar árið 1999, gegndi því starfi til ársins 2004 og hefur síðan þá gegnt starfi vísindamanns við Norræna eldfjallasetrið eftir að það varð hluti af Jarðvísindastofnun Háskólans.
Rannsóknaráherslur Freysteins liggja m.a. á sviði eldfjallafræði, flekahreyfinga og annara jarðskorpuhreyfinga og hefur hann verið afar virkur í alþjóðlegur rannsóknasamstarfi. Hann stýrði t.d. hinu stóra samevrópska FUTUREVOLC-verkefni á árunum 2012-2016. Freysteinn tekur einnig þátt í framhaldsverkefninu EUROVOLC en það hófst í febrúar 2018. Þar vinna evrópskar vísinda- og vöktunarstofnanir í eldfjallafræði að því að samþætta og opna aðgengi að innviðum til rannsókna og vöktunar á eldfjöllum.
Þá var Freysteinn, árið 2018, kjörinn í Evrópsku vísindaakademíuna (Academia Europaea) fyrir fræðastörf sín og framlag til rannsókna í Evrópu.