Endanleg niðurstaða um heimsmyndina fæst aldrei
Rannsóknir, sérfræðiþekking, kennsla og miðlun Háskóla Íslands gegnir brýnu hlutverki í að stuðla að framþróun, velferð og sjálfbærni. Háskóli Íslands leggur mikla áherslu á að kynna vísindastarf innan skólans enda er það partur af stefnu hans að gera mikilvægi vísindanna sýnilegt og styðja við stefnumótun á öllum sviðum.
„Það skiptir miklu máli að miðla vísindum til almennings og það má rökstyðja það á marga vegu,“ segir Gunnlaugur Björnsson, vísindamaður við Háskóla Íslands, sem hefur áratugum saman beint sjónum til himins í rannsóknum sínum. Hann er enda einn fremsti vísindamaður landsins á sviði heimsfræði og stjarneðlisfræði.
„Það er,“ segir hann, „og það ætti líka að vera hluti af akademísku starfi að kynna fyrir almenningi niðurstöður nýjustu rannsókna og það er sem betur fer víða gert eins og hér í HÍ. Almenningur á að mínu mati beinlínis rétt á þessu, enda borgar hann oftast brúsann.“
Gunnlaugur Björnsson hefur ekki einungis verið atkvæðamikill í kennslu og rannsóknum undanfarin ár því hann hefur sjálfur verið mjög duglegur við að miðla þekkingu og efni rannsókna sinna til almennings og annarra á sínu rannsóknasviði. Í stefnu skólans er líka tiltekið að stuðla eigi að slíkri milliliðalausri miðlun vísindafólks til samfélagsins og Gunnlaugur hefur verið afar vinsæll viðmælandi í fjölmiðlum um málefni sem varða heimsfræði og himingeiminn en auk þess hefur hann svarað fjölda spurninga um það sama á Vísindavef HÍ. Gunnlaugur hefur líka verið kraftmikill við að þýða bækur erlendra vísindamanna, ekki síst á sviði eðlisfræði, stjarneðlisfræði og heimsfræði. Ekki er víst að öll viti hvað heimsfræði er, en hún er fræðigrein með eðli, uppruna, þróun og endalok alheimsins í háskerpu.
Ný bók um ætlaðar vegvillur í eðlisfræði
Nýverið kom út bók í þýðingu Gunnlaugs og Baldurs Arnarsonar blaðamanns þar sem fjallað er um heimsfræðina og eðlisfræðina á nýstárlegum nótum. Bókin heitir því skemmtilega nafni „Rammvillt í reikningskúnstum“ í íslenskri þýðingu en í henni er leitað svara við því hvernig fegurðin villir um fyrir eðlisfræðinni. Bókin er eftir þýska eðlisfræðinginn Sabine Hossenfelder. Styrkur fékk til að þýða bókina úr styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur sem er í vörslu Háskóla Íslands. Sjóðurinn styrkir verkefni sem miða að því að efla íslenska tungu á tímum hraðra tæknibreytinga.
„Í tilviki þessarar bókar fannst okkur það nokkur áskorun að fjalla um efnið á íslensku, en mörg þeirra hugtaka sem notuð eru í bókinni hafa ekki verið þýdd á íslensku áður. Okkur og mörgum kollegum finnst mjög mikilvægt að hægt sé að fjalla á góðri íslensku um hvaða málefni sem er, einnig sérhæfð umfjöllunarefni eins og er að finna í þessari bók.“
Gunnlaugur segir að hugmyndin að þýðingu bókarinnar hafi komið í samtali hans og Baldurs Arnarsonar blaðamanns en sá síðartaldi hefur af elju þýtt og gefið út bækur sem fjalla um framsæknar og jafnvel nýstárlegar hugmyndir í raunvísindum, einkum eðlisfræði. „Þessi nýja bók fjallar um grundvöll eðlisfræðinnar og þá stöðu sem höfundurinn telur rannsóknir á því sviði vera komnar í. Við töldum að hún gæti þótt áhugavert innlegg í umræðu um rannsóknir almennt og þróun akademísks umhverfis.“
Gunnlaugur segir að meginefni bókarinnar sé úttekt höfundar á stöðu þeirra undirgreina nútímaeðlisfræði sem eru hvað stærðfræðilegastar. Hún spyr sig og kollega sína hvort rannsóknirnar séu ekki fremur stærðfræði en eðlisfræði, því margar kenninganna gengur illa að sannreyna með tilraunum.
„Margar þeirra eru líka þeirrar gerðar að þær verður aldrei hægt að prófa með tilraunum og ættu því í raun ekki að teljast til eðlisfræði. Höfundurinn lítur einnig gagnrýnum augum á þróun akademísks starfs undanfarna áratugi og veltir fyrir sér gagnsemi þess að magntaka þar afköst umfram gæði. Bókin er því líka mikilvægt framlag til umræðu um rannsóknir og rannsóknaumhverfi í háskólum og rannsóknastofnunum. Þótt stærðfræði eða reikningskúnstir komi fram í titli bókarinnar er hún alls ekki stærðfræðileg. Í henni er engin jafna eða formúla en auðvitað á köflum tæknilegar lýsingar á eðlisfræðilegum fyrirbærum, meðal annars gagnrýnin umfjöllun um fjölheimskenninguna, þá kenningu að alheimurinn sé safn óendanlega margra alheima. Lesendur fá líka að fylgjast með samræðum höfundar við nokkra heimsþekktra vísindamenn um stöðu vísindanna, m.a. nóbelsverðlaunahafann Steven Weinberg heitinn.“
Já og nei...
Heimsfræðingar pæla sífellt í heimsmyndinni og því er gaman að heyra hvort Gunnlaugur geti svarað því hvort vísindamenn komist einhvern tímann að endanlegri niðurstöðu um hana. Eins og sönnum vísindamanni sæmir svarar Gunnlaugur spurningunni með já... og nei.
„Svarið við þessari spurningu er augljóst já!! Því sú heimsmynd sem við höfum á hverjum tíma byggist á bestu rannsóknum, bæði fræðilegum og mælingum, sem tilrækar eru. Sú heimsmynd er því niðurstaða bestu þekkingar sem völ er á. Ef þú átt við með spurningunni hvort við komust einhvern tíma að endanlegri niðurstöðu um heimsmyndina verð ég líklega að svara því neitandi. En sérhver viðbót við mæligögn eða þekkingu okkar á eðlisfræðilegum ferlum náttúrunnar skerpir á heimsmyndinni og slípar niður þá agnúa sem enn kunna að vera á henni.“