Engin íslensk stofnun hlotið hærri styrki úr erlendum samkeppnissjóðum
- Sagði Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, við brautskráningu í Háskólabíói í dag
- Metfjöldi brautskráður úr HÍ, 505 brauðskráðust frá öllum fræðasviðum
Jón Atli Bendiktsson, rektor Háskóla Íslands, vék að afar brýnni fjármögnun háskólastigsins í ávarpi sínu í dag þegar 505 kandídatar voru brautskráðir frá Háskólanum. Þetta er metfjöldi sem brautskráist frá HÍ í febrúar. Þar sem blikur eru á lofti varðandi fjármögnun og rekstur HÍ og annarra háskóla hérlendis lagði rektor áherslu á að íslenskir háskólar yrðu að standa jafnfætis öðrum háskólum á Norðurlöndum. Það væri afar brýnt fyrir íslenska þjóð sem ætti í alþjóðlegri samkeppni.
„Háskóli Íslands hefur frá upphafi lagt áherslu á að vera skóli okkar allra. Ítrekaðar mælingar sýna að Háskólinn nýtur gríðarlegs trausts hjá íslensku þjóðinni, sem gerir kröfu um að skólinn sé alhliða og öllum opinn. Alþingi þarf á hverjum tíma að gera okkur kleift að standa undir þeim væntingum sem til okkar eru gerðar. Því er afar brýnt að Háskóli Íslands njóti sambærilegrar fjármögnunar og aðrir norrænir rannsóknaháskólar. Enn vantar mikið upp á að svo sé,“ sagði háskólarektor en í þjóðarpúlsi Gallup, sem birtur var í gær, er HÍ á meðal þeirra þriggja stofnana samfélagsins sem mest trausts njóta.
Jón Atli sagði jafnframt brýnt fyrir Háskóla Íslands að efla samstarf við aðrar háskólastofnanir hér auk fyrirtækja á íslenskum markaði og í raun samfélagið allt. Hann sagðist fagna því að stjórnvöld hefðu hug á að treysta innlent samstarf enn frekar á þessu sviði.
„En alþjóðleg samvinna er ekki síður mikilvæg,“ sagði rektor HÍ. „Árangur slíks samstarfs kemur í ljós nánast í viku hverri, hvort heldur litið er til fjölda erlendra nemenda sem hingað sækja, alþjóðlegra vísindaráðstefna sem í vaxandi mæli er sóst eftir að halda hér á landi eða samstarfsverkefna sem hlotið hafa veglega styrki úr alþjóðlegum sjóðum. Háskóli Íslands hlaut t.d. yfir 60 styrki úr „Horizon 2020“ styrkjaáætlun Evrópusambandsins og nemur heildarfjárhæð styrkja til fræðafólks skólans tæpum fjórum milljörðum króna. Þetta er langbesti árangur nokkurrar stofnunar eða fyrirtækis hér á landi.“
Jón Atli vék einnig að fjölþjóðlegu samstarfsneti sem Háskóli Íslands leiðir og ber heitið Aurora. Netið miðar að því að efla grunnrannsóknir, samfélagslega ábyrgð, jafnrétti, frumkvöðlastarf og virka þátttöku nemenda á öllum sviðum. „Vísindin eru sameiningarafl þvert á landamæri. En þau eru líka drifkraftur nýsköpunar sem hefur síaukin áhrif á líf okkar allra. Aurora-samstarfið hlaut árið 2020 veglegan þriggja ára styrk frá Evrópusambandinu og í nýlegri umsögn framkvæmdastjórnar sambandsins segir m.a. að Aurora hafi náð eftirtektarverðum framförum og geti verið fyrirmynd að slíku samstarfi í framtíðinni.“
Háskólasvæðið hefur tekið miklum stakkaskiptum á umliðnum árum en það nefndi háskólarektor alþjóðlegan suðupott í ræðu sinni. Hann vék að breytingum svæðisins samhliða vígslu Háskólatorgs, Veraldar – húss Vigdísar og svo hugmyndahússins Grósku sem öll hefðu gerbreytt ásýnd háskólasvæðisins á örfáum árum auk þess að gefa fögur fyrirheit um eflingu háskólasamfélagsins alls. Þá nefndi háskólarektor að hús íslenskunnar yrði tekið í notkun á komandi vormánuðum, nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs við Hringbraut innan tíðar og loks Sögu sem m.a. mun hýsa Menntavísindasvið í náinni framtíð.
Í lok ávarpsins lagði Jón Atli mikinn þunga á að þau öll sem héldu í dag út í lífið með nýja prófgráðu frá Háskóla Íslands í farteskinu ættu að nýta menntun sína og þekkingu til góðs, ekki bara í eigin þágu, heldur í þágu samfélagsins alls.
„Hvað finnst ykkur skipta máli? Hvaða breytingar laða fram það besta í ykkar fari? Hvers konar framtíð sjáið þið fyrir ykkur? Þið eruð hreyfiafl breytinganna. Því skuluð þið aldrei gleyma. Framtíðin er ykkar. Og hún er sannarlega björt.“