Enn eitt metárið hjá Vísindavefnum

Vísindavefurinn fékk yfir þrjár milljónir heimsókna á árinu 2021 og er það metfjöldi. Svör tengd heimsfaraldrinum og eldvirkni á Íslandi eru áberandi á meðal þeirra mest lesnu á síðasta ári.
Vísindavefurinn fagnaði 22 ára afmæli fyrir skemmstu en hann hefur fyrir löngu unnið sér sess sem sá vettvangur sem ungir sem aldnir Íslendingar leita til þegar spurningar tengdar samfélagi og vísindum vakna.
Lestur svara á vefnum hefur farið stigvaxandi og vísindamenn og aðrir velgjörðarmenn vefsins verið óþreytandi að svara spurningum lesenda sem snerta málefni líðandi stundar og raunar allt milli himins og jarðar. Þá hefur vefurinn gegnt mikilvægu hlutverki við að varpa ljósi á ýmsar hliðar COVID-19-faraldursins og barist gegn falsfréttum.
Vísindavefurinn hefur árabil stuðst við vefmælingar fyrirtækisins Modernus en það hætti störfum á síðasta ári. Mælingar á heimsóknum á vefinn fara því nú í gegnum vefmælingu Matomo, en aðilar eins og NASA, Amnesty International og Sameinuðu þjóðirnar styðjast einnig við sömu vefmælingu. Samkvæmt mælingu Matomo heimsóttu 3 milljónir og 69 þúsund gestir Vísindavefinn árið 2021 og hafa notendur aldrei verið fleiri. Árið áður voru heimsóknir 2,9 milljónir og aukningin milli ára er því um 4,5%. Flettingar jukust enn fremur um 5,3% milli ára. Þær voru rétt um 4,3 milljónir árið 2021 en 4 milljónir árið 2020.
Fram kemur á Vísindavefnum, að þegar horft er til einstakra mánaða reyndist mesta aðsóknin að vefnum í mars 2021. Þá komu um 330 þúsund gestir inn á vefinn og skoðuðu um 480 þúsund síður. Það er jafnframt metfjöldi í einum mánuði. Af einstökum dögum á síðasta ári komu flestir gestir inn á Vísindavefinn 3. mars 2021, rétt tæplega 15 þúsund. Þess má geta að um miðjan mars hófst eldgos í Fagradalsfjalli á Reykjanesi eftir að jörð hafði skolfið þar hressilega vikurnar á undan.
Áhrifa jarðhræringanna á Reykjanesi og kórónuveirufaraldursins gætir sannarlega á listanum yfir mest lesnu svör síðasta árs því af sjö vinsælustu svörunum tengjast sex jarðvísindum eða veirum. Áhrifanna gætir líka í lestri á eldri svörum eins og sjá má í frétt Vísindavefsins um aðsókn síðasta árs.