Skip to main content
26. febrúar 2025

Erla Hulda hlaut Viðurkenningu Hagþenkis

Erla Hulda hlaut Viðurkenningu Hagþenkis - á vefsíðu Háskóla Íslands

Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við Háskóla Íslands, hefur hlotið Viðurkenningu Hagþenkis fyrir ritið Strá fyrir straumi. Ævisaga Sigríðar Pálsdóttur 1809-1871. Í umsögn viðurkenningarráðs Hagþenkis segir að bókin sé áhrifarík ævisaga sem varpi nýju ljósi á 19. öldina og veiti einstaka innsýn í heim kvenna. 

Viðurkenningin var veitt  við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni. Við það tilefni sagði Erla Hulda að saga kvenna hefði verið viðfangsefni sitt og ástríða í hartnær 40 ár og til skamms tíma hafi það varla þótt verðugt viðfangsefni að skrifa ævisögu um konu, hvað þá óþekkta konu á borð við Sigríði. „Mig langaði að veita innsýn í líf Sigríðar, eins og það birtist í bréfunum, og samferðafólks hennar, einkum kvenna, frekar heldur en að tengja hana við stjórnmála- og framfarasögu nítjándu aldar. Á þann hátt er bókin um Sigríði hluti af stöðugri og nauðsynlegri endurskoðun á því hvernig við rannsökum, skiljum og túlkum fortíðina þar sem konur, alþýðufólk og hversdagsleikinn hefur fengið sífellt meiri athygli.“

Erla sagði einnig að nú væru blikur á lofti í heimi vísinda og fræða. „Þar sem ég stend hér og tek á móti viðurkenningu sem veitt er fyrir fræðileg rit og kennsluefni get ég ekki annað en haft orð á þeim ógnum sem heimurinn stendur frammi fyrir, ekki aðeins af völdum firrtra valdsmanna, græðgi og vopna, heldur einnig af því að sögulegri þekkingu og sannindum er nú snúið á hvolf sem aldrei fyrr. Styrkir til rannsókna eru skornir niður, stofnunum lokað og viðurkenndum vísindum afneitað. Hér á landi hafa opinberir rannsóknasjóðir verið fjársveltir um margra ára skeið og hjá bæði almenningi og fólki í opinberum stöðum, má greina hliðstæða orðræðu og þá sem heyrist erlendis um rannsóknir og viðfangsefni sem eru þeim ekki þóknanleg. Það er því mikilvægara sem aldrei fyrr að standa vörð um rannsóknir og þekkingarsköpun og þar gegnir félag eins og Hagþenkir mikilvægu hlutverki.“

Í umsögn viðurkenningarráðs Hagþenkis segir meðal annars að með vandaðri úrvinnslu á fyrirliggjandi heimildum og yfirgripsmikilli þekkingu á aðstæðum á Íslandi þess tíma hafi Erla Hulda skapað heildstætt og áhugavert ritverk sem varpi nýju ljósi á 19. öldina og veiti einstaka innsýn í kjör kvenna.

Í viðurkenningarráði Hagþengis sátu Halldóra Jónsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Kristján Leósson, Ólöf Gerður Sigfúsdóttir og Unnur Þóra Jökulsdóttir. 

Í bókinni Strá fyrir straumi er fjallað um Sigríði Pálsdóttur sem fæddist árið 1809 á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu á Fljótsdalshéraði en dó árið 1871 á Breiðabólstað í Fljótshlíð eftir viðburðaríka ævi. Óvenju ríkulegar heimildir eru til um Sigríði því umfangsmikið bréfasafn tengt henni hefur verið varðveitt. Á þeim grunni skrifaði Erla Hulda bók sem varpar nýju ljósi á 19. öldina. Staldrað er við aðra hluti en í ævisögum karla og lesendur fá sterka tilfinningu fyrir og hlutdeild í hversdagslífi 19. aldar. Þar sem Sigríður Pálsdóttir umgekkst bæði leika og lærða, hátt setta embættismenn sem bændur, biskupa og niðursetninga, veitir ævisaga hennar óvenju heildstæða mynd af hinni söguríku og mikilvægu 19. öld. 

Erla Hulda Halldórsdóttir er sérfræðingur í kvenna- og kynjasögu á nítjándu og tuttugustu öld en hefur einnig sinnt rannsóknum á sendibréfum, sagnaritun kvenna og sagnfræðilegum ævisögum. Erla Hulda hefur birt fjölda greina um rannsóknir sínar hér á landi og erlendis. Hún er höfundur bókanna Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850–1903 og Ég er þinn elskari. Bréf Baldvins Einarssonar til Kristrúnar Jónsdóttur 1825-1832. Hún er jafnframt einn höfunda bókarinnar Konur sem kjósa. Aldarsaga sem kom út árið 2020.

Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna hefur veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings frá árinu 1986.

Sjá frétt Hagþenkis.

Erla Hulda Halldórsdóttir prófessor með Viðurkenningu Hagþenkis.