Erla Hulda tilefnd til Fjöruverðlauna
Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, hefur verið tilnefnd til Fjöruverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis fyrir bókina Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871.
Í rökstuðningi dómnefndar segir að í bókinni dragi Erla Hulda upp lifandi mynd af íslensku samfélagi með greiningu og túlkun á sendibréfum nítjándu aldar: „Í þessu vandaða verki fá lesendur að kynnast orðfæri kvenna, samfélagsgreiningum þeirra og aðferðum til að hafa áhrif á líf sitt og umhverfi. Jafnframt miðlar Erla Hulda aðferðum sínum á upplýsandi hátt, setur rannsóknarspurningar í alþjóðlegt fræðasamhengi og hvetur þannig lesendur til að rannsaka bréfasöfn fyrri kynslóða og kynnast þeim „venjulegu“ röddum sem þar má finna.“
Níu bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna og kvára 2025. Verðlaunin voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan.
Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, hefur verið tilnefnd til Fjöruverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis fyrir bókin Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871.
Í Strá fyrir straumi er fjallað um Sigríði Pálsdóttur sem fæddist árið 1809 á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu á Fljótsdalshéraði en dó árið 1871 á Breiðabólstað í Fljótshlíð eftir viðburðaríka ævi. Í kynningartexta bókarinnar segir að um Sigríði séu til óvenju ríkulegar heimildir, því umfangsmikið bréfasafn tengt henni hafi verið varðveitt. Á þeim grunni hafi Erla Hulda skrifað bók sem varpi nýju ljósi á 19. öldina. Staldrað sé við aðra hluti en í ævisögum karla og lesendur fá sterka tilfinningu fyrir og hlutdeild í hversdagslífi 19. aldar. Þar sem Sigríður Pálsdóttir umgekkst bæði leika og lærða, hátt setta embættismenn sem bændur, biskupa og niðursetninga, veiti ævisaga hennar óvenju heildstæða mynd af hinni söguríku og mikilvægu 19. öld. Og þar sem sjónarhornið er konu komi ýmislegt nýtt fram og annað sjái lesandinn í nýju ljósi.
Erla Hulda Halldórsdóttir er sérfræðingur í kvenna- og kynjasögu á nítjándu og tuttugustu öld en hefur einnig sinnt rannsóknum á sendibréfum, sagnaritun kvenna og sagnfræðilegum ævisögum. Erla Hulda hefur birt fjölda greina um rannsóknir sínar hér á landi og erlendis. Hún er höfundur bókanna Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850–1903 og Ég er þinn elskari. Bréf Baldvins Einarssonar til Kristrúnar Jónsdóttur 1825-1832. Hún er jafnframt einn höfunda bókarinnar Konur sem kjósa. Aldarsaga sem kom út árið 2020.