Félagsfræðin í HÍ stofnar bíóklúbb sem er opinn öllum

„Kvikmyndir geta verið merkingarbær spegill á samfélagið og þannig nýst til að greina samfélagið, vekja upp spurningar og umræðu um þróun þess og setja brýn málefni þess á oddinn. Við tókum okkur því saman, nokkrir félagsfræðingar í Háskóla Íslands, og stofnuðum bíóklúbb sem ætlað er að standa fyrir kvikmyndaviðburðum með fræðilegu ívafi – svokallað félagsfræðilegt bíó,“ segir Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði. Fyrsta bíósýningin sem bíóklúbburinn stendur fyrir verður á mánudaginn kemur, 3. mars kl. 19 í Bíó Paradís en þá er ætlunin að horfa á og ræða um þýsk/írönsku kvikmyndina „The Seed of the Sacred Fig“ sem tilnefnd er sem besta erlenda kvikmyndin fyrir Óskarsverðlaunin 2025.
Að sögn Viðars hefur félagsfræðibíóið þrenns konar marmkið. „Í fyrsta lagi að skapa vettvang fyrir samtal um samfélagið með aðstoð kvikmynda. Í öðru lagi langar okkur að bjóða fólki sem hefur áhuga á lífinu og tilverunnni að eiga samverustund í almannarýminu og skapa félagslega töfra með öðru þenkjandi fólki,“ segir Viðar en hann hefur í rannsóknum sínum lagt mikla áherslu á þá töfra sem felast í félagslegum samskiptum fólks.
„Í þriðja lagi er markmiðið að vekja athygli á mikilvægi menningarlegra stofnana eins og kvikmyndahúsa fyrir einstaklinga og samfélag,“ segir Viðar, en bíóklúbburinn mun eiga í góðu samstarfi við Bíó Paradís um sýningar.
Doktorsnemi í félagsfræði frá Íran rammar inn sögusvið myndarinnar
Sýningin á mánudag verður svokölluð umræðusýning en í því felst að fyrir sýningu myndarinnar mun Saeed Shamshiran, íranskur doktorsnemi í félagsfræði við Háskóla Íslands, varpa ljósi á stöðu mála í Íran sem rammar inn sögusvið hennar. Að lokinni sýningu myndarinnar eru gestir hvattir til að staldra við og ræða myndina og heimsmálin í góðum félagsskap.
Enn fremur hefur verið sett upp umræðusíða á Facebook fyrir bíóklúbbinn, Félagsfræðibíó: Samtal um samfélagið.
Viðar segir öll sem áhuga hafa velkomin á sýninguna en Bíó Paradís býður 25% afslátt af miðaverði fyrir námsfólk, eldri borgara og öryrkja en sá afsláttur er eingöngu í boði við kaup í miðasölu.
Viðar og samstarfsfólk í félagsfræðinni hyggur á fleiri bíósýningar á næstunni. „Þetta er fyrsti viðburðurinn af þessu taginu. Við vonumst til að geta átt gott samtarf við hinar ýmsu deildir háskólans varðandi slíka viðburði í nánustu framtíð. Vonandi sjáum við sem flesta í bíó á mánudaginn,“ bætir hann við.
Nánar um myndina
„The Seed of the Sacred Fig“ byggist á raunverulegu sögusviði í Tehran í Íran og tekur fyrir samfélag sem stendur á tímamótum sem einkennast af vaxandi gagnrýni og andófi ungu kynslóðarinngar gagnvart hefðbundum hefðum og gildum rótgróins guðveldis og hvernig slíku andófi er mætt. Efni myndarinnar hefur fjölbreyttar skírskotanir í samtímann og ekki síður þá óvissu sem einkennir heimsmálin þessi misserin – auk þess er myndin æsispennandi.
Hægt er að sjá stiklu úr myndinni á vef Bíó Paradísar.