Skip to main content
20. júní 2023

Fengu styrk úr Jafnréttissjóði Íslands

Fengu styrk úr Jafnréttissjóði Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Doktorsnemar og starfsfólk við Háskóla Íslands tók í gær við styrkjum til fjölbreyttra rannsóknar- og útgáfuverkefna úr Jafnréttissjóði Íslands, en það var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem afhenti styrkina á athöfn á Hótel Hilton Reykjavík Nordica.

Fram kemur á vef Rannís, sem heldur utan um Jafnréttissjóð, að markmið sjóðsins sé að styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Sjóðurinn var stofnaður í tilefni af 100 ára kosningaréttarafmæli íslenskra kvenna árið 2015.

Alls bárust 47 umsóknir í sjóðinn að þessu sinni og fengu 11 verkefni styrk, samanlagt að upphæð 54 milljónir króna. Þeirra meðal voru eftirtalin verkefni sem tengjast HÍ:

  • Ásdís Aðalbjörg Arnalds, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar HÍ, hlaut styrk til verkefnisins „Alþjóðlega viðhorfakönnunin um fjölskyldulíf og breytt kynhlutverk“
  • Eliona Gjecaj, doktorsnemi í fötlunarfræði, hlaut styrk til verkefnisins „Fatlaðar konur og ofbeldi: Aðgengi að réttlæti“
  • Fayrouz Nouh, doktorsnemi í hnattrænum fræðum, hlaut styrk til verkefnisins „Múslimskar innflytjendakonur á íslenskum vinnumarkaði“
  • Flora Tietgen, doktorsnemi í menntavísindum, fékk styrk til verkefnisins „Reynsla innflytjendakvenna af ofbeldi í nánu sambandi á Íslandi“
  • Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, doktorsnemi í sagnfræði, fékk styrk til verkefnisins „Kynjapólitískur vígvöllur? Alnæmisfaraldurinn á Íslandi og áhrif hans á hugmyndir um jafnrétti“
  • Jeannette Jeffrey, doktorsnemi í menntavísindum, fékk styrk til verkefnisins „Exploring an Inclusive Post-Pandemic Language Learning Environment for Icelandic Language Learners“
  • Elín Björk Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum, hlaut styrk til útgáfu greinasafns í ritröð stofnunarinnar „Fléttur VII. Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi“.

Lista yfir alla styrkþega má finna á vef Rannís

Styrkþegar og fulltrúar þeirra ásamt forsætisráðherra og stjórn Jafnréttissjóðs Íslands