Ferðast aftur í tímann yfir Íslandi í nýrri Loftmyndasjá
Hægt er að ferðast aftur í tímann og skoða þær breytingar sem orðið hafa á landslagi og í þéttbýli á Íslandi í nýrri Loftmyndasjá sem opnuð verður með viðhöfn í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, fimmtudaginn 31. ágúst. Loftmyndasjáin er vefsjá með sögulegum loftmyndum og er byggð á loftmyndasafni Landmælinga Íslands sem nær rúmlega 80 ár aftur í tímann. Vefsjána hönnuðu Landmælingar í samstarfi við Jarðvísindastofnun HÍ og Fjarkönnunarmiðstöð HÍ. Loftmyndunum sem finna má í vefsjánni hefur verið safnað úr flugvél, þær skannaðar og breytt í kort. Vefsjáin gefur því fólki færi á að stökkva upp í nokkurs konar ferðatímavél yfir Íslandi og skoða þær breytingar sem orðið hafa á landslagi, t.d. af völdum eldgosa, hopunar jökla eða útbreiðslu plantna, og í þéttbýli síðustu 80 árin.
Loftmyndasjáin nýtist við kennslu, rannsóknir og sögu auk þess að svala almennri forvitni. Aðgangur að vefsjánni er öllum opinn og án gjaldtöku.
Loftmyndasjáin verður opnuð formlega á viðburði í stofu N-132 í Öskju fimmtudaginn 31. ágúst kl. 16-18. Þar bjóða fulltrúar Landmælinga og HÍ upp á fyrirlestra um sögu kortagerðar úr lofti á Íslandi, sýnt verður hvernig hægt er að nota loftmyndasjána við kennslu og tekin dæmi um notkun loftmyndasjárinnar við rannsóknir í jarðvísindum. Viðburðurinn er öllum opinn.
Dagskrá
- Móttaka
- Kynning - Gunnar Haukur Kristinsson, forstjóri Landmælinga Íslands
- Saga loftmyndatöku á Íslandi - J. Belart & S. Gunnarson, Landmælingar Íslands
- Loftmyndasjá: Aðgengilegt verkfæri sem hjálpar við að skilja umhverfis- og samfélagsbreytingar á Íslandi - Gro B. M. Pedersen, Jarðvísindastofnun HÍ
- Þrívíð framsetning á sögulegu landslagi úr loftmyndasafninu - Kieran Baxter, Rannsóknasetur HÍ á Höfn í Hornafirði
- Léttar veitingar og gagnvirkar kynningar.