Finnst eins og lífið hafi upphaf og endi í HÍ
„Hvar á ég að byrja. Mér finnst eins og líf mitt hafi upphaf og endi í Háskólanum. Þar hef ég kynnst, og kynnst betur, mínum bestu vinum,“ segir Ragna Sigurðardóttir, læknakandídat og borgarfulltrúi, sem var í hópi þeirra rúmlega 450 nemenda sem brautskráðust frá Háskóla Íslands um helgina. Óhætt er að segja að Ragna kveðji HÍ með hugann barmafullan af minningum því hún hefur ekki aðeins lokið læknanámi í krefjandi umhverfi kórónuveirufaraldursins heldur einnig haft áhrif á háskólaumhverfið í gegnum störf sín í forystusveit stúdenta. Samhliða lokaskrefum læknanámsins hefur Ragna svo látið til sín taka í borgarmálunum sem starfandi borgarfulltrúi og hún vill áfram láta gott af sér leiða þeim vettvangi.
Ætlaði alls ekki að verða læknir eins og pabbi
Ragna er uppalin bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. „Ég hugsaði mikið um það hvað mig langaði að verða þegar ég yrði stór og ætlaði í fyrstu alls ekki að verða læknir eins og pabbi. Í menntaskóla tók ég próf á netinu um hvaða starf myndi henta mér í framtíðinni og fékk einhvern veginn út læknisfræði. Ég man síðan eftir því að hafa sest við eldhúsborðið heima að hugsa um hvað mér þætti áhugavert og í hverju ég væri góð, líffræði og lífeðlisfræði aðallega á þeim tíma, og hvað ég vildi gera við tímann minn. Niðurstaðan var að mig langaði að hjálpa fólki og ætli það sé ekki ástæðan fyrir því að læknisfræðin varð fyrir valinu - sambland af áhuga á faginu og þeim tilgangi að hjálpa fólki,“ segir Ragna.
Ragna er hér ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ, við útskrift á laugardag. MYND/Kristinn Ingvarsson
Heilbrigðismálin leiddu hana í stúdentapólitíkina
Ragna innritaðist í læknisfræði árið 2014 og lét að sér kveða innan Félags læknanema og Röskvu, samtaka félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, strax á fyrsta ári. Aðspurð hvað hafi kveikt áhugann á stúdentapólitíkinni segir Ragna að það hafi í fyrstu verið heilbrigðismál. „Haustið sem ég byrjaði í háskóla var mikil umræða um undirfjármögnun heilbrigðiskerfisins, sem hefur reyndar verið allar götur síðan, og ákveðin óánægja með kjör heilbrigðisstarfsfólks og nemenda. Fulltrúar nemenda á Heilbrigðisvísindasviði höfðu verið áberandi í þeirri umræðu og ég leit upp til nokkurra þeirra sem voru virk í Stúdentaráði. Tvær vinkonur mínar voru síðan í framboði þarna um vorið, ein þeirra í læknisfræði og önnur í umhverfis- og byggingaverkfræði. Mikill tími og orka hafði farið í að ákveða hvort önnur þeirra ætti að fara í Röskvu eða Vöku og eftir mikla yfirlegu fóru þær báðar í Röskvu,“ segir Ragna.
Á sama tíma kynntist Ragna þáverandi formanni Röskvu, Iðunni Garðarsdóttur, við lestur á Þjóðarbókhlöðunni. „Ég fór með þeim öllum á opnunarkvöld kosningamiðstöðvar Röskvu árið 2014 og var í kjölfarið boðið að koma með að hringja í háskólanema fyrir kosningarnar. Þarna var eiginlega ekki aftur snúið og ég hef tekið þátt í einhvers konar pólitík allar götur síðan. Líklega bæði vegna þess hvað það er gaman að kynnast alls konar fólki, í háskólasamfélaginu og víðar, og vegna þess að það skiptir mig máli að hafa áhrif á nærumhverfið mitt – og reyna að hafa áhrif á samfélagið í heild,“ segir Ragna.
Geðheilbrigðismál og Gamli Garður
Ragna var einnig meðal stofnenda og fyrstu stjórnarmeðlima Hugrúnar – geðfræðslufélags en að stofnun þess stóðu nemar í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sálfræði árið 2016. Markmið félagsins er m.a. að fræða bæði grunn- og framhaldsskólanema og almenning um geðheilbrigðismál og hefur það á síðustu árum haldið fræðsluerindi víða um land.
Forystusveit stúdenta veturinn 2017-2018. Frá vinstri: Sigmar Aron Ómarsson hagsmunafulltrúi, Ragna formaður, Ási Þórðarson varaformaður og Ragnar Auðun Árnason lánasjóðsfulltrúi. Mynd úr einkasafni.
Ragna var valin til að leiða forystu stúdenta sem formaður Stúdentaráðs veturinn 2017-2018 en samhliða því sat hún í háskólaráði sem fjallar um öll meiri háttar mál sem snerta starf og stefnu HÍ. „Tíminn sem formaður Stúdentaráðs og sem fulltrúi nemenda í háskólaráði var gríðarlega lærdómsríkur. Eftirminnilegust eru örugglega þau augnablik þar sem við náðum einhverju í gegn, einhverri breytingu sem hefði ekki endilega átt sér stað annars. Það var sigur fyrir okkur stúdenta þegar ákveðið var að byggja við Gamla Garð eftir miklar deilur þar um og þegar sálfræðiþjónusta var aukin innan Háskólans með nýju stöðugildi sálfræðings. Baráttan um bætta fjármögnun háskólastigsins var líka eftirminnileg – við settum upp strætóskýli, auglýsingar, skrifuðum greinar, mættum í viðtöl svo eftir var tekið. Hver veit nema sú barátta hafi haft áhrif – þó ekki nema um tíma,“ segir Ragna og undirstrikar vel það hlutverk stúdentaforystunnar að veita skólayfirvöldum í senn aðhald og stuðning í mikilvægum málum.
Ragna að störfum með Stúdentaráði.„Ég fór á opnunarkvöld kosningamiðstöðvar Röskvu árið 2014 og var í kjölfarið boðið að koma með að hringja í háskólanema fyrir kosningarnar. Þarna var eiginlega ekki aftur snúið og ég hef tekið þátt í einhvers konar pólitík allar götur síðan. Líklega bæði vegna þess hvað það er gaman að kynnast alls konar fólki, í háskólasamfélaginu og víðar, og vegna þess að það skiptir mig máli að hafa áhrif á nærumhverfið mitt – og reyna að hafa áhrif á samfélagið í heild,“ segir Ragna. Mynd úr einkasafni.
Störf og nám á tímum faraldurs
Stór hluti af námi læknanemans fer fram á háskólasjúkrahúsinu Landspítalanum þar sem nemar fá tækifæri til að starfa á ólíkum deildum. Óhætt er að segja álagið á spítalanum hafi sjaldan verið meira en undanfarin tvö ár vegna kórónuveirufaraldursins. Aðspurð upplifun hennar af faraldrinum í störfum innan spítalans segist Ragna fyrst og fremst hafa starfað á geðdeild, skurðdeildum og lyflækningadeildum spítalans. „Sumarið eftir upphaf COVID-19 vann ég á hjarta- og lungnaskurðdeildinni og við vorum auðvitað heppin með það hversu gott sumarið var með tilliti til faraldursins þótt skurðaðgerðirnar hafi verið mjög margar vegna frestunar aðgerða í fyrstu bylgjunni. Deildarvinnan var þar af leiðandi mikil en þrátt fyrir það var ótrúlega gaman í vinnunni,“ segir hún en bætir þó við að slíkt álag á deildum spítalans gangi ekki til lengdar.
Í COVID-skrúða á Landspítalanum. Mynd úr einkasafni.
Ragna segir að áhrif faraldursins hafi líklega verið mest á nám hennar í upphafi faraldurs. „Fyrsti mánuðurinn minn á kvensjúkdómadeildinni fór alfarið fram á Zoom og ég fór aldrei í náminu inn á fósturgreiningardeildina vegna faraldursins. Að öðru leyti hefur COVID orðið hluti af reglubundnu spítalalífi – maður hefur lært að klæðast COVID-galla, sinnt sjúklingum á COVID-deildum og auðvitað tileinkað sér aðeins strangari reglur þegar kemur að grímu- og sprittnotkun en fyrir faraldur. Það sem mér hefur fundist erfiðast að horfa upp á sem nemi eru þó líklega strangar heimsóknarreglur náinna aðstandenda, sérstaklega á viðkvæmum tímapunktum í lífinu. Ég vona eins og flestir að þær reglur verði endurskoðaðar um leið og hægt er,“ segir hún.
Situr í borgarstjórn
Ragna hefur hins vegar ekki látið sér nægja að sinna annasömu námi læknanemans því hún hefur setið í borgarstjórn fyrir hönd Samfylkingarinnar á því kjörtímabili sem er að ljúka, fyrst sem varaborgarfulltrúi en sem aðalfulltrúi frá árinu 2020. Nokkur hefð er fyrir því að læknar og læknanemar láti að sér kveða í stjórnmálum og má þar t.d. nefna Katrínu Fjeldsted, fyrrverandi borgarfulltrúa og þingmann Sjálfstæðisflokksins, Ólaf Þór Gunnarsson, fyrrverandi bæjarfulltrúa í Kópavogi og þingmann Vinstri – grænna, og sjálfan borgarstjórann í Reykjavík, Dag B. Eggertsson. Það var einmitt í gegnum samstarf við þann síðastnefnda sem áhuginn á borgarmálunum kviknaði hjá Rögnu.
„Ég hafði ekki tekið neinn þátt í flokkspólitísku starfi áður en ég varð formaður Stúdentaráðs og ætlaði mér það í raun aldrei. Ég kynntist Degi hins vegar í gegnum störf mín sem formaður ráðsins, bæði funduðum við með borgarstjóra vegna úrbóta sem við vildum sjá á nærumhverfi háskólans og svo í tengslum við uppbyggingu stúdentaíbúða á háskólasvæðinu. Eftir því sem leið á starfsárið jókst áhugi minn á skipulagsmálum, meðal annars á háskólasvæðinu, og ég var einmitt stödd á kampus KTH-háskólans í Stokkhólmi þegar ég fékk símtal þar sem mér var boðið 9. sæti á lista Samfylkingarinnar í borgarstjórnarkosningum vorið 2018,“ rifjar Ragna upp.
Ragna stýrði á dögunum sínum fyrsta borgarstjórnarfundi á sameiginlegum fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna. Mynd úr einkasafni.
Hún þáði sætið og var jafnframt ráðin kosningastýra framboðs Samfylkingarinnar. „Við fengum sjö sæti í borgarstjórnarkosningum og ég var því annar varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar í upphafi kjörtímabilsins, sem gekk ágætlega að púsla saman við námið, en vegna brotthvarfs annarra borgarfulltrúa varð ég fljótlega aðalfulltrúi í borgarstjórn. Það er fullt starf og ég tók mér þess vegna leyfi frá námi til að sinna því haustið 2020 og fram á vorið 2021 en óskaði svo eftir leyfi frá borgarstjórnarstörfum til að ljúka náminu. Það tókst og hér er ég loksins – útskrifuð!“
Æfir tennis í frítíma
Ragna mun sitja í borgarstjórn að minnsta kosti fram á vor en þá tekur við kandídatsár á Landspítalanum, eða sérnámsgrunnár eins og það heitir nú, en því verða allir læknanemar að ljúka til þess að fá inngöngu í sérnám í læknisfræði. Ragna hefur þó ekki sagt skilið við borgarpólitíkina. „Ég bauð mig ekki fram í efstu sætin í nýafstöðnu prófkjöri vegna kandídatsársins fram undan en vil samt sem áður taka virkan þátt í kosningum og starfinu eins og hægt er á næsta kjörtímabili. Ég gef kost á mér í þau sæti á lista sem koma á eftir efstu sex bindandi sæti prófkjörsins en það er í höndum uppstillingarnefndar að ákveða sæti 7 til 46 á lista. Við sjáum á næstunni hvernig það fer!“ segir hún sposk.
Ragna hyggst áfram helga sig pólitíkinni en hún er m.a. forseti framkvæmdastjórnar Ungra jafnaðarmanna. Mynd úr einkasafni.
Það má flestum vera ljóst að það er í senn krefjandi og tímafrekt að sinna bæði námi og stöfum að borgarmálum og því vakna spurningar um hvort Ragna hafi einhvern frítíma. „Dagarnir geta orðið frekar þéttir en það er alveg lífsnauðsynlegt að finna tíma „fyrir sig“ innan um þétta dagskrá. Ég byrjaði síðastliðið vor að æfa tennis aftur, sem ég hafði stundað í menntaskóla, og finn hvað það gefur mér mikið. Svo hef ég síðustu ár verið að hlaupa en það hefur minnkað samhliða aukinni tennisiðkun – annars er það fyrst og fremst að hitta vini og fjölskyldu þegar tími gefst til,“ segir hún.
Landþráð stund þegar Ragna tekur við brautskráningarskírteininu. Nú tekur við kandídatsár á Landspítalanum. MYND/Kristinn Ingvarsson
Ógleymanlegar stundir í Háskólanum
Það er ekki annað hægt en að inna Rögnu eftir því hvað standi upp úr nú þegar hún kveður HÍ eftir átta viðburðarík ár. „Vá – mér finnst ég vera að kveðja risastóran hlut af lífi mínu. Ég hef kynnst svo mörgu frábæru fólki - átt svo margar ógleymanlegar stundir; á Þjóðarbókhlöðunni, á Háskólatorgi, inni á kaffistofu Bóksölunnar og svo mætti lengi telja. Ég hef haft tækifæri til að læra svo margt. Ætli það sé ekki þakklæti aðallega, fyrir að hafa fengið að vera virkur þátttakandi í háskólasamfélaginu, kynnst mögnuðu fólki hvaðanæva að og fyrir að hafa fengið að stunda nám sem mér finnst skemmtilegt og gefandi. Og fyrir þau tækifæri sem það hefur leitt af sér - kannski er maður bara rétt að byrja!“ segir verðandi læknirinn og borgarfulltrúinn Ragna Sigurðardóttir að endingu.